Landamæri Póllands og Úkraínu eru 535 km löng. Saga fólksins sem byggir þessi lönd er samofin. Báðar þjóðirnar hafa í tímans rás sætt miklu harðræði af hálfu granna sinna, ýmist innrásum með vopnavaldi og meðfylgjandi fjöldamorðum eða skipulegum hungursneyðum.
Pólland óx, Úkraína ekki
Pólverjar styðja Úkraínumenn nú af öllu afli í varnarstríði Úkraínu gegn Rússum, bæði með því að leggja fram fé og vopn til varnarbaráttunnar og með því að skjóta skjólshúsi yfir tvær milljónir úkraínskra flóttamanna.
Skoðum forsöguna.
Pólverjar náðu miklum árangri eftir að þeir náðu að kasta af sér oki kommúnismans 1990. Þeir höfðu þá verið undir járnhæl pólskra kommúnista og Sovétríkjanna frá stríðslokum 1945.
Hvernig tókst Pólverjum að kasta af sér okinu?
Það gerðist smám saman eftir að verklýðsfélagið Samstaða reis upp gegn ríkisstjórninni 1980 og knúði að endingu og með þrautseigju fram kosningar til þings 1989, fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu frá 1928. Samstaða vann þar frækilegan sigur við ójafnan leik þar sem kommúnistar skömmtuðu sjálfum sér fullt af þingsætum í forgjöf.
Verklýðsforinginn Lech Wałęsa var kjörinn forseti Póllands 1990-1995. Hann beitti sér fyrir djarflegum umbótum og naut til þess atfylgis hæfra hagfræðinga.
Úkraínu tókst á hinn bóginn ekki að slíta sig lausa úr fangi Rússa.
Mynd 1 sýnir að kaupmáttur landsframleiðslu á mann í Póllandi og Úkraínu var svipaður í löndunum tveim 1993, mælt í alþjóðlegum Bandaríkjadölum á verðlagi ársins 2017, en hann er nú orðinn þrisvar sinnum meiri í Póllandi en í Úkraínu. Pólverjum tókst að tryggja sér jafnan og öran vöxt og viðgang efnahagslífsins frá 1992 til þessa dags.
„Úkraínskt efnahagslíf tók djúpa og langvinna dýfu og hefur varla borið sitt barr síðan þá“
Úkraínskt efnahagslíf tók aftur á móti djúpa og langvinna dýfu og hefur varla borið sitt barr síðan þá. Úkraínu hefur ekki enn tekizt að ná framleiðslu á mann í það horf sem hún var í 1990.
Meðalvöxtur landsframleiðslu á mann í Póllandi 1990-2021 var 3,6% á ári, sem gefur af sér þreföldun á 31 ári, borið saman við minni en engan vöxt í Úkraínu.
Ný ríkisstjórn Póllands ákvað strax 1990 að umbætur í einum rykk (e. shock therapy) væru vænlegri til árangurs en hæggengar umbætur í áföngum. Þessi harkalega aðferð kostaði að sönnu miklar fórnir fyrir fólkið í landinu um skeið, en hún skilaði tilætluðum árangri þegar frá leið með umtalsverðri hjálp frá Bandaríkjunum og ESB. Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, þá hálffertugur prófessor í hagfræði í Harvard-háskóla, var Pólverjum innan handar og lýsti umskiptunum innan frá í bók sinni Poland's Jump to the Market Economy 1993.
Árangur Pólverja má meðal margs annars þakka því að þeir höfðu haft allan áttunda áratuginn til að búa sig undir betri tíð þar eð kommúnistastjórnin neyddist til að byrja að losa tökin um og eftir 1980. Svo var einkum fyrir að þakka þrýstingi frá Samstöðu. Milljónir Pólverja gátu því ferðazt til annarra landa 1980-1990 og margir þeirra lærðu ensku, þýzku og önnur tungumál. Allt þetta fólk fékk loksins að sjá hvernig lífið gekk fyrir sig í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Pólverjar höfðu á að skipa hæfum og vel upplýstum hagfræðingum sem gátu vísað þeim veginn fram á við.
Meðan þessu vatt fram í Póllandi sat Úkraína föst í gömlum hjólförum. Ástandið þar var eins og í Rússlandi að því leyti að gamlar spilltar klíkur réðu lögum og lofum og héldu áfram að stela öllu steini léttara án þess að hafa nokkra hugmynd um eða skilning á hvernig heilbrigt efnahagslíf gekk fyrir sig í lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Ég kynntist þessu sjálfur í Rússlandi árin eftir 1992. Þar vissi varla nokkur maður sitt rjúkandi ráð, það var eins og fáfræðin ryki upp úr hálsmálum heimamanna, enda hafði vitræn hagfræði verið bannvara í skólum landsins á valdatíma kommúnista.
Af hverju vegnaði Pólverjum miklu betur en Úkraínumönnum og Rússum? Það stafaði ekki bara af betri undirbúningi og meira mannvali í Póllandi heldur einnig af því að í Úkraínu og Rússlandi var eftir meiru að slægjast fyrir spillta fyrrverandi kommúnista sem reyndu – og tókst! – að sölsa undir sig ríkisfyrirtæki, einkum olíufyrirtæki, og auðguðust ótæpilega. Pólverjar áttu engin slík fyrirtæki að heitið getur og komust því hjá grimmúðlegum innanlandsátökum um yfirráð yfir olíulindum og öðrum náttúruauðlindum.
Rússland og Úkraína loguðu í slíkum átökum. Tilraunir Borisar Jeltsín, forseta Rússlands 1990-1999, til að moka flórinn með stuðningi ungra og vaskra manna, einkum Jegors Gaidar forsætisráðherra, báru lítinn sem engan árangur þar eð þeir grófust undir í allri spillingunni og græðginni sem æddi yfir landið. Svo fór að Jeltsín ákvað að gera Vladimir Pútín að eftirmanni sínum um aldamótin, ákvörðun sem Jeltsín sagðist síðar sjá eftir.
Efnahagur og heilbrigði
Það er góð regla að skoða lýðheilsutölur og hagtölur hlið við hlið. Samanburður á ævilengd í Póllandi og Úkraínu segir svipaða sögu um þróun landanna tveggja og tölurnar úr þjóðhagsreikningum um landsframleiðslu á mynd 1.
Mynd 2 sýnir að árin 1960-1990 hélzt ævilengd í löndunum tveim í hendur. Nýfædd börn í báðum löndum 1960 gátu vænzt þess að ná 68 ára aldri og 70 ára aldri 1990. Eftir 1990 skildi leiðir. Nýjustu tölur fyrir 2020 vitna um fimm til sex ára mun á ævilengd í löndunum tveim, tæplega 77 ár í Póllandi og rösklega 71 ár í Úkraínu.
Á þessum 30 árum hefur meðalævin því lengzt um sex ár í Póllandi eða röskar tíu vikur á ári að jafnaði. Svipað gerðist í löndum ESB þar sem meðalævin lengdist um fimm ár að meðaltali, næstum níu vikur á ári. Á sama tíma stóð meðalævi íbúa Úkraínu í stað að heita má.
Takið eftir þessu: Pólverjum tókst að komast hjá djúpri dýfu í efnahagslífinu eftir 1990 og ævir fólksins héldu áfram að lengjast eins og vera ber. Úkraínumönnum tókst ekki að komast hjá djúpri dýfu og meðalævin þar í landi skrapp saman um mörg ár og komst ekki í fyrra horf fyrr en röskum 20 árum síðar líkt og í Rússlandi. Efnahagur og heilbrigði haldast í hendur.
Athugasemdir (4)