Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Horfið til himins: Það er von á súpernóvu!

En verð­ur hún hættu­leg?

Horfið til himins: Það er von á súpernóvu!
Krabbaþokan svokallaða, leifar af súpernóvu. Japanskir og kínverskir stjörnufræðingar tóku eftir þeim atburði þegar stjarnan, sem hér sjást leifar af, sprakk. Það gerðist 1054. Frumbyggjar í Norður-Ameríku veittu líka athygli „nýrri stjörnu“. Svæðið sem leifar stjörnunnar ná nú yfir er sem svarar sex ljósárum að þvermáli.

Jarðvísindamenn á Íslandi eru löngu farnir að gjóa augunum undrandi upp hlíðar Mýrdalsjökuls þegar þeir eiga leið framhjá fjallinu og aðgæta svo tæki sín vandlega þegar í vinnuna kemur.

Hvenær ætlar Katla að gjósa?

Samkvæmt öllum sólarmerkjum á eldstöðin mikla undir Mýrdalsjökli að gjósa á um það bil 60 ára fresti en nú eru komin meira en 100 ár síðan síðast gaus í fjallinu.

Stjarnvísindamenn úti í hinum stóra heimi eru líka farnir að klóra sér í höfðinu og píra á tæki sín í von um að greina atburð sem þeim finnst að ætti fyrir löngu að hafa borið fyrir augu þeirra.

Þegar sólin sundrast ...

Nema það sem þeir eru farnir að bíða eftir er óneitanlega töluvert ógnarlegri viðburður en jafnvel stórt eldgos í Kötlu.

Væntanlega verður heilmikil sprenging þegar Katla gýs næst eins og hér á mynd frá 1918.En sprengingin verður þó lítilfjörleg á við súpernóvu á himninum.

Þeir eru að bíða eftir súpernóvu. 

Þeir er að bíða eftir að sólstjarna sundrist í þúsund milljónir logandi agnir einhvers staðar í Vetrarbrautinni okkar og blossinn verði svo mikill allra fyrst að sprengingin verði bjartari en allar hinar 400.000.000.000 sólirnar í stjörnuþokunni okkar til samans.

Verði súpernóvan stór og einhvers staðar ekki í of mikilli fjarlægð, þá má svo búast við að í einhverja daga gæti hún lýst eins og tunglið að nóttu og verið sýnileg á daginn og vikum og mánuðum saman verði hún miklum mun bjartari en Venus, skærasta „stjarnan“ á næturhimni okkar.

Súpernóva verður þegar sólstjörnur af vissri tegund og stærð ljúka lífi sínu — ef svo má segja. Eldsneytið innan í sólum er auðvitað alls ekki óþrjótandi og þar kemur að það þrýtur og stjörnurnar „deyja“.

Það getur orðið með ýmsum hætti eftir stærð, þyngd og efnasamsetningu sólstjarnanna. Alls ekki allar stjörnur enda með því að springa í loft upp — verða súpernóva, sem sagt — en tvær leiðir liggja til þess.

Hvítir dvergar og rauðir risar

Í fyrsta lagi ef svonefndur „hvítur dvergur“ er annar hluti tvístirnis og byrjar að soga að sér efni úr hinni stjörnunni. Hvítur dvergur kallast leifar sólstjörnu sem lýkur ævi sinni með því að þenjast fyrst út — og verða þá „rauður risi“ — en falla svo saman.

Leifarnar af sprengistjörnu (súpernóvu) Keplers eins og hún lítur út nú.

Sólin okkar mun að lokum enda sem hvítur dvergur en þar sem hún er ekki partur af tvístirni er engin hætta á að hún endi sem súpernóva.

Það er nefnilega þegar kjarnorkusprenging verður við samruna hvíta dvergsins og hinnar stjörnunnar sem svona súpernóva — kölluð „gerð 1“ — á sér stað.

Gerð 2 á sér stað þegar ein stjarna af tiltekinni stærð og þyngd tekur að hrynja saman. Það getur endað með ýmsum hætti, stundum sem hvítur dvergur, nevtrónustjarna, svarthol — eða súpernóva af gerð 2.

(Hérna má lesa aðgengilegan pistil um þetta allt saman.)

Árið 1604 urðu menn síðast vitni að súpernóvu á himninum þegar þýski stjarnfræðingurinn Johannes Kepler og margir fleiri lýstu „nýrri stjörnu“ sem skyndilega hefði birst á himninum og var afar björt í þó nokkurn tíma.

Súpernóva í nágrannaþoku

Vísindamenn hafa síðar reiknað út að þessi nýja stjarna var í rauninni súpernóva af gerð 1 og hún leifar hennar sjást enn á himninum, að vísu ekki með berum augum.

Leifarnar af 1987A í Stóra Magellanskýinu

Síðan 1604 hafa menn ekki orðið vitni að súpernóvum í Vetrarbrautinni okkar. Og það er skaði vegna þess að súpernóvum, sér í lagi af gerð 2, fylgir gríðarleg útgeislun svonefndra fiseinda og jafnvel svolítill öldugangur í tímarúminu. Hvorttveggja væri mikill fengur í að fá að skoða.

Menn hafa uppgötvað margar súpernóvur í öðrum stjörnuþokum á undanförnum árum og áratugum en þær eru of fjarri til að koma rannsakendum að fullum notum. 

Súpernóvan 1987A (af gerð 2) er sú nálægasta síðan Keplersstjarnan sprakk 1604 en hún varð í Stóra Magellanskýinu sem er lítil stjörnuþoka sem fylgir Vetrarbrautinni en jafnvel þótt hún hafi orðið í „aðeins“ 168.000 ljósára fjarlægð, þá var það heldur of langt í burtu.

1-3 súpernóvur á öld, ef rétt er reiknað

Svo vísindamenn eru farnir að bíða eftir nýrri súpernóvu, enda eiga þeir nú mun betri tæki en nokkru sinni fyrr til að rannsaka fyrirbærið — þegar stjarna springur.

Og þeir eru satt að segja orðnir nokkuð langeygir — rétt eins og þau sem bíða eftir Kötlugosi — því reiknað hefur verið út að í Vetrarbraut af okkar stærðargráðu ættum við að verða vitni að 1-3 þremur súpernóvum á hverri öld. En nú eru liðin 418 ár án þess að neitt hafi sést.

Vísindamenn gera því að vísu skóna að við gætum hafa misst af einhverjum sprengingum á þessum rúmu fjórum öldum af því þær hafi verið huldar rykskýjum eða einhverjum öðrum fyrirbærum, en við ættum samt að hafa séð flestar þeirra — ef þær hefðu orðið á þessum tíma.

Tala nú ekki um þessa síðustu öld sem við höfum líka beðið eftir Kötlugosi.

Flóð af fiseindum

Það sem gerir vísindamenn enn spenntari en ella er að súpernóva af gerð 2 er talin byrja af senda frá sér flóð af fiseindum skömmu áður en sprengingin sjálf verður. Fiseindaflóðið gæti byrjað nokkrum klukkustundum eða jafnvel dögum áður en súpernóvan brýst út.

Ef súpernóva verður nógu nærri til að unnt sé að greina fiseindirnar nægilega tímanlega, þá gætu vísindamenn því undirbúið sig, beint öllum sínum tólum að hinum væntanlega sprengistað og orðið vitni að allri dýrðinni frá upphafi til enda.

Og öðlast þar með mun betri skilning á — ja, allskonar!

Því nær okkur sem hin yfirvofandi súpernóva verður, þeim mun betra fyrir vísindamennina. 

Og þó er ekki gott að hún verði of nærri, því þá gæti hún baðað Jörðina okkar í svo miklu flóði af útfjólubláum geislum, gammageislum og Röntgengeislum að ysta lag ósonlagsins gæti tæst í sundur — með hörmulegum afleiðingum.

Fjöldaútrýming af völdum súpernóvu?

Vísindamenn hafa til dæmis sett fram þá kenningu að dularfull fjöldaútrýming lífvera á Jörðinni fyrir 360 milljónum ára kunni að hafa stafað af súpernóvu í nágrenninu.

Brynháfar á borð við þennan kunna að hafa dáið út af völdum súpernóvu

Sem betur hafa ekki fundist neinar stjörnur beinlínis hér í bakgarði okkar sem líklegar eru til að springa í fyrirsjáanlegri framtíð, svo ekki er ástæða til að óttast slíkt.

Og því bíða vísindamenn fyrst og fremst fullir af tilhlökkun eftir næstu súpernóvu.

Og athyglin hefur þá ekki síst beinst að Betelgeuse, rauðum risa sem er í „aðeins“ 500-600 ljósára fjarlægð. Betelgeuse er svo tröllsleg stjarna að umfangi að hún mundi ná út fyrir loftsteinabeltið milli Mars og Júpíters ef hún væri í miðju sólkerfis okkar en er þó aðeins 10-20 sinnum þyngri en sólin okkar.

Þetta tröll er tíunda bjartasta stjarnan á næturhimni okkar, séð með berum augum. Það tilheyrir stjörnumerkinu Óríón, nokkuð fyrir ofan það belti Óríóns sem við Íslendingar köllum Fjósakonurnar.

Betelgeuse mun springa

Fyrir nokkrum árum fór birtustig Betelgeuse að flökta undarlega og vísindamenn töldu um hríð að stjarnan væri að búa sig undir að springa. Og þeir hlökkuðu sannarlega til enda verður sjón að sjá þegar Betelgeuse tætist í sundur sem súpernóva.

Nýjustu rannsóknir virðast þó gefa til kynna að flöktið eigi sér aðrar ástæður. Svo vísindamenn eru í bili hættir að einbeita sér að Betelgeuse og búast fremur við súpernóvu einhvers staðar á óvæntum stað næturhiminsins.

Og bíða spenntir.

En þó er ljóst að Betelgeuse mun springa.

Einhvern tíma eftir svona 100 þúsund ár.

Þá mun næturhiminninn lýsast allur upp.

En spurning hverjir sjónarvottarnir verða.

Sólin okkar (neðst til vinstri) er ekki stór miðað við tröllið Betelgeuse
Betelgeuse (lengst til vinstri) er þó langt í frá stærsta stjarnan sem við höfum fundið.Lengst til hægri er VY Canis Majoris.
Ég gat svo ekki stillt mig um að birta að lokum mynd af rokkhljómsveitinni Supernova með söngvarann Lucas Rossi í broddi fylkingar.Ekki hefur spurst til þessarar hljómsveitar síðan 2007.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár