Heiðar Guðjónsson hefur selt öll bréf sín í Sýn og hættir sem forstjóri fyrirtækisins. Þetta kemur fram í flöggun Seðlabankans til Kauphallar í morgun.
Félag Heiðars, Ursus ehf., átti 12,72 prósenta hlut í Sýn en á ekkert í félaginu eftir viðskiptin. Var hann stærsti einkafjárfestirinn í fyrirtækinu sem að stórum hluta er í eigu lífeyrissjóða. Söluverð hlutarins hefur ekki komið fram. Aðeins eru tæpir tveir mánuðir síðan Heiðar jók við hlut sinn í félaginu og keypti bréf fyrir 115 milljónir.
Heiðar hefur verið forstjóri Sýnar frá 2019 og var áður formaður stjórnar félagsins. Sýn hf. rekur meðal annars Vodafone og fjölmiðlana Vísi, Stöð 2, Bylgjuna og fleiri tengda miðla. Laun Heiðars fyrir störf sín sem forstjóri hækkuðu í fyrra um 50 prósent, úr 3,5 milljónum króna á mánuði í 5,3 milljónir.
Mbl.is greinir frá því að Heiðar hafi sent samstarfsfólki sínu tilkynningu í morgun og greint frá því að hann hafi orðið fyrir heilsubresti fyrr á þessu ári og að í kjölfarið hafi honum verið ráðlagt að minnka við sig vinnu.
Auk starfa sinna hjá Sýn hefur verið greint frá öðrum verkefnum Heiðars í fjölmiðlum, meðal annars þátttöku hans í undirbúningi Svartárvirkjunar, en félag hans á 42,9 prósent í félaginu Svartárvirkjun ehf. sem staðið hefur að undirbúningu verkefnisins. Var hann einnig fyrir tíma sinn sem forstjóri Sýnar einn af helstu forsprökkum olíuleitar á Drekasvæðinu við Íslandsstrendur á vegum félagsins Eykon.
Athugasemdir