Ekki var rætt um stöðu Alexanders Moshenskys, ólígarka og kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi, á fundi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi. Þær áttu fund í síðustu viku án þess að málefnið bæri á góma. Tsikhanouskaya hefur þó áður viðrað áhyggjur sínar af stöðu Moshenskys.
Stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi hafa verið gagnrýnir á tengsl Moshenskys við Íslanda í ljósi tengsla hans við Alexander Lukashenko, einræðisherra landsins. Þannig sagði Andrei Sannikov, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og andstæðingur Lukashenko, í viðtali við Stundina í mars að svipta ætti Moshensky titli sínum sem kjörræðismaður. „Auðvitað á hann ekki að gegna þessari stöðu. Þetta setur svartan blett á orðspor Íslands og Ísland ætti að sýna það í verki strax og senda þannig sterk skilaboð.“
„Þetta setur svartan blett á orðspor Íslands“
Náið samband er milli Moshensky og Lukashenko. Þannig var Moshensky umboðsmaður forsetaframboðs Lukashenkos í kosningunum árið 2010. Árið 2018 gerði Luhashenko Moshensky að fomanni sameiginlegs viðskiptaráðs Hvíta-Rússlands og Rússlands og þekkt er að uppgangur viðskiptaveldis kjörræðismannsins hefði ekki orðið ef ekki væri fyrir velvild einræðisherrans í Minsk. Kjörræðismaðurinn hefur enda verið uppnefndur „veski Lukashenko“.
Fullyrt að Ísland hafi haldið hlífiskildi yfir Moshensky
Evrópusambandið hefur á undanförnum árum samþykkt refsiaðgerðir á hendur Hvít-Rússum, bæði gegn stjórnmálamönnum, ólígörkum og ríkisfyrirtækjum. Meðal annars hafa borist af því fregnir, ítrekað, að til standi að setja Moshensky á þvingunarlista sambandsins. Þannig var undir lok árs 2020 „orðrómur á kreiki“ þess efnis, að því er sagði í svari við fyrirspurn Stundarinnar í apríl síðastliðnum. Spurt var um samskipti íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið vegna mögulegra refsiaðgerða gegn Moshensky. Í ljós kom að íslensk stjórnvöld höfðu í á þriðja tug skipta átt símtöl við fulltrúa Evrópusambandsins vegna málsins. Viðmælendur Stundarinnar fullyrða að ástæðan fyrir því að Moshensky hafi sloppið við að lenda á listanum hafi verið sú að íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir hans hönd.
„Okkur var sagt hreint út oftar en einu sinni: „Ísland fjarlægði hann af listanum“,“ sagði Natalia Kaliada, eitt þekktasta andlit stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi í samtali við Stundina í mars síðastliðnum. Viðskiptahagsmunir Íslands hafi einfaldlega ráðið för.
Ungverjar taka við keflinu af Íslandi
Í byrjun maí funduðu sendiherrar aðildarríkja Evrópusambandsins í Brussel til að ræða nýjar og hertari efnahagsþvinganir gegn Rússum og Hvít-Rússum. Á þeim fundi lá fyrir tillaga um að Moshensky yrði settur á lista yfir þá einstaklinga sem beita ætti viðskipta- og ferðaþvingunum. Til að af því mætti verða varð að nást samstaða milli allra aðildarríkjanna 27.
Tillaga um að Moshensky yrði settur á listann var lögð fram af hópi tíu þjóða, eftir að litháíska utanríkisráðuneytið setti nafn hans á blað. Ekki varð af því, þar eð ungverski sendiherrann lagðist gegn því að af yrði. „Þetta vakti talsverða reiði á fundinum og pólski sendiherrann spurði kollega sinn frá Ungverjalandi að því hvers vegna hann legðist gegn tillögunni um Moshensky og hvaða hagsmuni Ungverjar hefðu af því að halda honum utan aðgerðanna,“ sagði viðmælandi Stundarinnar, evrópskur diplómat kom að viðræðunum, í maí síðastliðnum.
Kjörræðismaður Ungverjalands í Hvíta-Rússlandi er næstráðandi í fyrirtæki Moshensky, Santa Bremor. Ekki er talið ólíklegt að ástæða þess að Ungverjar hafi haldið verndarhendi yfir Moshensky sé að rekja til þess en kjörræðismaður Ungverja, Sergey Nyadbaylau, er sagður hafa gortað sig af því að hafa nýtt sér góð sambönd við ungversk stjórnvöld í hagnaðarskyni.
Katrín lýsir ekki eigin skoðun
Í fyrirspurn Stundarinnar til Katrínar forsætisráðherra vegna fundar hennar með Tsikhanouskayu var einnig spurt hvað henni sjálfri þætti um tengsl Moshenskys við Lukashenko, í ljósi þess hvernig sá fyrrnefndi hefði notað tengsl sín við Ísland í viðskiptum. „Er einhver tvískinnungur fólginn í því að hálfu forsætisráðherra að hitta andstæðing Lukashenko á fundi á sama tíma og Ísland styður bandamann Lukashenko með því að leyfa honum að bera heiðurskonsúlsnafnbót?“ var meðal þeirra spurninga sem beint var til Katrínar.
Við þessari spurningu fékkst ekkert svar og varpaði Katrín, eða öllu heldur Sighvatur Arnmundsson, aðstoðarmaður hennar, engu ljósi á skoðun forsætisráðherra á tengslum Moshenskys við Ísland. „Ítarlega hefur verið farið yfir málefni kjörræðismanns Íslands í Belarús á Alþingi, á vettvangi þingnefnda og í fjölmiðlum. Málefni kjörræðismanna eru á forræði utanríkisráðuneytisins,“ var svar ráðuneytisins.
Athugasemdir (3)