Fyrri aukaspurning:
Hún vann gullverðlaun í fimleikum á ólympíuleikunum í Aþenu 2004, enda ansi flink. En núorðið er hún þekktari fyrir annað en fimleika. Hvað er það? Og þeir sem muna nafn hennar, þeir fá sérstakt lárviðarstig.
***
Aðalspurningar:
1. Hver voru hin svokölluðu atómskáld?
2. Til hvaða ríkis telst Borgundarhólmur?
3. Jack Reacher heitir harðhaus einn, aðalkallinn í langri röð af reyfurum sem hver skrifar?
4. Hvaða þéttbýlisstaður er við Skjálfanda?
5. Hverrar þjóðar var vísindaskáldsagnahöfundurinn Jules Verne?
6. Teresía Guðmundsson fæddist í Noregi en fluttist hingað með íslenskum eiginmanni. Árið 1946 var hún sett yfir ákveðna stofnun og er enn eina konan sem hefur stýrt þeirri stofnun hér á landi. Hvaða stofnun var það?
7. Svía nokkrum er svo lýst að hann hafi verið „mikill vexti og undarlegur í yfirbragði, gráeygur og opineygur, úlfgrár á hárslit“. Hann var seinna sagður hafa haft „afskræmilega mikið [höfuð] og undarlega stórskorið“. Og hann þótti hinn ferlegasti í skapinu líka. Hvað hét þessi Svíi?
8. Dani einn hét hins vegar Bent Larsen og var hinn prúðasti. Hvað fékkst hann við í lífinu?
9. Finnsk kona hét Tuulikki Pietilä og var teiknari og hönnuður. Hún lést í hárri elli árið 2009. Þótt hún þyki fínn teiknari og hafi einnig unnið merkilegt starf við kennslu, þá er hún þó óneitanlega þekktust fyrir að hafa orðið konu sinni fyrirmynd að persónu í bók eða bókum sem sú síðarnefnda skrifaði. Persónan sem byggð er á Tuulikki Pietilä er fræg fyrir að ganga ævinlega í hvít- og rauðröndóttri peysu. Hvað heitir persónan?
10. Hvað heitir eftirlifandi sonur Bidens núverandi Bandaríkjaforseta að skírnarnafni?
***
Seinni aukaspurning:
Hvað heita karlarnir þrír á þessari mynd? Hafa verður öll nöfnin þrjú rétt til að fá stigið eina.
***
Svör við aðalspurningum:
1. Íslensk skáld sem hófu að yrkja órímuð ljóð.
2. Danmörk.
3. Lee Child.
4. Húsavík.
5. Franskur.
6. Veðurstofan.
7. Glámur.
8. Hann var skákmeistari.
9. Tikkatú úr sagnaheimi Tove Jansson um Múmínálfana.
10. Hunter.
***
Svör við aukaspurningum:
Konan á efri myndinni er nú, hvort sem henni líkar betur eða verr, þekktust fyrir að vera (væntanlega) kærasta og barnsmóðir Pútins Rússlandsforseta.
Og hún heitir Alina Kabaéva. Annað nafnið dugar til að fá lárviðarstig.
Á neðri mynd eru Attlee, Truman og Stalín.
Athugasemdir