Bandaríkjamaður á sextugsaldri, sem er hálfur Íslendingur, segir að hann hafi notað ópíóða að staðaldri í sex ár á árunum 2004 til 2010. Maðurinn, sem ekki vill koma fram undir nafni, er búsettur í Illinois-ríki í Bandaríkjunum og á íslenska móður sem flutti frá Íslandi á seinni hluta síðustu aldar.
Hann er einn af milljónum Bandaríkjamanna sem ánetjast hafa verkjalyfjum úr morfíni á síðastliðnum áratugum. Íslenska lyfjafyrirtækið Actavis var stærsti seljandi ópíóða í Illinois-ríki, þar sem maðurinn býr, á árunum 2004 til 2012. Íslenska lyfjafyrirtækið Actavis seldi rúmlega 1,1 milljarð ópíóðataflna í Illinois á þessum árum, ríflega helmingi meira magn en næststærsti seljandinn í ríkinu. Eins og rakið er í greinum Stundarinnar um Actavis og ópíóðafaraldurinn í Bandaríkjunum, sem byggja á Arcos-gagnagrunni bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) þá seldi íslenska lyfjafyrirtækið næstmest allra af ópíóðum í landinu.
Athugasemdir