Fyrir þremur árum renndi ég hérna niður að Tjörn með eitt óskorið brauð sem var orðið of gamalt í ísskápnum hjá mér. Ég fór með það niður að Tjörn svo það færi ekki til einskis. Þá gerði ég mér grein fyrir því hvers konar hugur var hér við Tjörnina. Ég fór ekki sami maður af vettvangi.
Svo ég tók mig til og hef gefið fuglunum í þrjá vetur. Ég geri það yfirleitt daglega ef það er stillt veður. Ef það er hávaðarok þá sleppi ég því vegna þess að brauðmolarnir hverfa í vindinn. Á öllum góðviðrisdögum reyni ég að gefa þeim. Þetta eru svo banhungraðar verur hér við hliðina á okkur og engu sinnt. Það liggur við að maður tárfelli þegar maður horfir á hvað þetta eru hungraðir fuglar hérna.
Eins og ég segi þá er þetta þriðji veturinn sem ég gef þeim nánast á hverjum einasta degi allan veturinn. Þeir þekkja mig orðið það ótrúlega vel að ég hef staðið mig að því að kalla grágæs af eggjum til að koma upp að fótum mér til að þiggja brauð. Það er ótrúlegt. Villta grágæs. Svona er þetta, lífið er margslungið og skrítið, það er það.
Brauðið fæ ég í bakarí og stórmörkuðum. Í Garðabæ fæ ég brauð. Það er heilmikil vinna að ná í brauð, þetta eru svo margir svangir munnar. Allt klárast. Alveg sama hvað þú kemur með, allt klárast það á augabragði.
Ég er fæddur Rangæingur og ólst upp í Rangárþingi, þannig að ég var strax í æsku bundinn náttúrunni sterkum böndum. Í gegnum tíðina hef ég séð hvers konar undur lífríkið er í kringum okkur. Svo þroskast maður með árunum og skilur betur tilveruna í kringum sig heldur en á æskuárunum, það er bara þannig.
Athugasemdir