Við stöndum nú á barmi skelfilegs stríðs vegna þess að Vesturlönd hafa verið ófær um að skilja hvers konar ríki Rússland er nú orðið. Þetta er skoðun Anne Applebaum sem er sagnfræðingur og blaðamaður sem hefur gríðarlega þekkingu á málefnum Mið- og Austur-Evrópu. Hún er fædd í Bandaríkjunum, ættuð frá Belarús en er nú pólskur ríkisborgari. Applebaum hefur skrifað frábærar bækur um Gúlag-fangabúðir Sovétríkjanna, hungursneyðina í Úkraínu um og upp úr 1930, járntjaldið og fleira.
Applebaum kveðst í viðtali við litháísku vefsíðuna LRT ekki geta frekar en aðrir spáð fyrir hvort koma muni til stríðs. Hún geti ekki brugðið sér inn í höfuð Vladimírs Pútins. En það sé þó ljóst að ástandið nú sé nákvæmlega það sem Pútin hafi ætlast fyrir og undirbúið.
„Hann er tilbúinn í stríð núna, hann er að velta fyrir sér stríði, hann er að undirbúa stríð,“ segir hún. Hún bendir á að Bandaríkjamenn hafi komist yfir stríðsplön Pútins og séu vissir í sinni sök. Og hún segir að sálfræðilega sé Pútin bersýnilega tilbúinn til að gera loftárásir á úkraínskar borgir og sé jafnframt reiðubúinn að takast á við mannfall í liði Rússa sjálfra.
„Viðbrögð Vesturlanda hafa líklega verið öllu eindregnari en hann bjóst við,“ segir Applebaum. En hvort þau verði til þess að hann hætti við árás á Úkraínu sé ekki ljóst ennþá. „Hann er búinn að undirbúa þetta allt saman og er tilbúinn.“
Þá segir Applebaum að það hafi alltaf verið markmið Pútins að ná tangarhaldi á Úkraínu. Hann hafi raunar sagt það berum orðum.
„Hann viðurkennir ekki að Úkraína sé sérstakt ríki,“ segir hún. „Hann viðurkennir ekki þjóðarvitund Úkraínumanna og sjálfstæði landsins. Það var bara spurning hvenær hann léti til skarar skríða.“
Vesturlönd á hnjánum?
Applebaum telur að Pútin hafi ákveðið að grípa þetta tækifæri til að leggja undir sig Úkraínu vegna þess að hann hafi talið að Vesturlönd væru ekki í stakk búin til að bregðast við. Í Þýskalandi er nýr og óreyndur leiðtogi, Bretland virtist nánast í upplausn, Macron Frakklandsforseti er að búa sig undir kosningar, Pólverjar eru ekki lengur traustir bandamenn Úkraínumanna og hafa fjarlægst Evrópu, Bandaríkin eru í sárum eftir smánarlegt brotthvarf sitt frá Afganistan.
„Kannski trúði hann því,“ sagði Applebaum, „að Bandaríkin myndu ekki bregðast við af því reynslan frá Afganistan hafi gert þau fráhverf stríði í fjarlægum heimshlutum.“
Og hún bætir við að ef til vill hafi viðbrögð Vesturlanda verið nógu afgerandi til að Pútin hætti við innrás en það sé morgunljóst að innrás hafi verið undirbúin því Pútin hafi talið þetta rétta augnablikið til að ná Úkraínu á sitt vald.
Applebaum segir í viðtalinu að vestrænir leiðtogar hafi um langt skeið gert grundvallarmistök í samskiptum við Rússland Pútins. Allir, allt frá Barack Obama til Emmanuels Macrons, hafi reynst að vingast við Rússa. Þeir hafi litið á kortið og séð að Rússland er hluti Evrópu og hljóti því að vilja sem nánasta samvinnu við Evrópu. Enda líti margir Rússar á sig sem Evrópumenn.
En allir rekist þessir leiðtogar á ókleifan vegg, sem er viðhorf Pútins sjálfs til Evrópu.
Pútin lítur á Evrópu sem persónulega ógn
Applebaum segir: „Ég sé ekki betur en Pútin líti á Evrópu, Evrópusambandið, evrópskar stofnanir og umfram allt evrópskt lýðræði og tungutak hins evrópska lýðræðis sem persónulega ógn við sig. Og þótt við lítum ekki á hann sem óvin, eða viljum altént ekki líta á hann sem óvin, þá lítur hann á okkur sem óvin sinn.“
Þetta eigi vestrænir leiðtogar mjög erfitt með að skilja. Þeir fari enn til Moskvu til að reyna að sannfæra Pútin, sýna honum fram á hve órökrétt sé að skara eld að stríðskökunni og vissulega sé það órökrétt. En vestrænu leiðtogarnir skilji bara ekki hversu hræddur Pútin sé við lýðræði og umfram allt sé hann hræddur við að lýðræðið festi rætur í Rússlandi sjálfu. Hann hafi orðið dauðskelkaður þegar hann sá hve öflug og vel skipulögð mótmæli brutust út gegn einræðisstjórn Lúkasjenka í Belarús, svæði sem hann líti á sem hluta Rússlands, og hafi miklar áhyggjur af því að lýðræðibylting eins og varð í Úkraínu 2014 breiðist út til Rússlands.
„Hann óttast það,“ segir Applebaum. „Hann óttast að það geti gerst í hans eigin landi, og því er hann óvinur okkar, við vekjum viðbjóð hans, og því reynir hann að veikja vestrænt lýðræði.“
Og hún bendir jafnframt á aukna samvinnu ýmissa ólýðræðislegra harðstjóra heimsins, allt frá Rússlandi til Kína til Kúbu til Venesúela, því allir slíkir harðstjórar eigi það sameiginlegt að óttast lýðræðið.
Af hverju núna?
Fréttamaðurinn litháíski hugleiðir síðan hvort Úkraína hafi breyst síðasta áratuginn og hvort Pútin geri sér grein fyrir því.
„Ég er sammála því að Úkraína hafi breyst,“ segir Applebaum. Hernaðarlega sé landið gerbreytt frá 2014 þegar Úkraína fékk ekki rönd við reist þegar Pútin hrifsaði Krímskaga frá stjórnvöldum í Kíev. Úkraínumenn búi nú yfir þrautreyndum her sem hafi barist í átta ár í Donbass og þjóðarvitund Úkraínumanna hafi eflst verulega. Samkennd landsmanna sé orðin öflugri og meira að segja rússneski minnihlutinn vilji í auknum mæli tilheyra Úkraínu fremur en Rússlandi.
Og vilji ekki sjá innrás frá Rússlandi.
„Þetta kann að vera ein ástæða þess að Pútin vill gera árás,“ segir Applebaum. Eftir tíu ár muni Úkraína hafa fjarlægst Rússland enn meira og engin löngun í landinu til að sameinast Rússlandi. Rússneskir íbúar muni þá að stærstum hluta annaðhvort hafa flust burt eða gerst samþykkir því að tilheyra Úkraínu.
„Þú spyrð hvort Pútin skilji Úkraínu,“ segir Applebaum, „en ég velti fyrir mér hvort Pútin skilji Rússland. Það er vissulega ágiskun en ég held ekki að Rússar séu upp til hópa sólgnir í að fara í stríð við Úkraínu. Ég held að Rússar almennt þrái ekkert að eyðileggja Úkraínu. Ég held því ekki að blóðugt stríð við Úkraínu verði vinsælt í Rússlandi. En það er ljóst að Pútin er tilbúinn til að taka þá áhættu.“
Efla þarf samstöðu Evrópu
Þá segir Applebaum að jafnvel þó Pútin ákveði að láta ekki til skarar skríða í þessari viku eða þeirri næstu, þá þurfi menn áfram að hafa varann á. Innrásaráætlanir séu til, Pútin hafi nægan vilja til að ráðast til atlögu og spurningin sé aðeins hvenær og hvort hann telji réttu stundina upp runna. Nauðsynlegt sé bæði að vopna Úkraínumenn í auknum mæli til að hræða Pútin frá innrás og ennfremur verði að efla pólitíska samstöðu Evrópuríkja.
Og hún segir að þótt ekki muni koma til stríðs núna, sem hún telur sem fyrr segir óvíst, þá voni hún að vestræn ríki og nágrannar Úkraínu muni læra sína lexíu.
„Við verðum að efla fælingarmáttinn í Eystrasaltsríkjunum, í Úkraínu, í Mið-Evrópu en líka í Vestur-Evrópu. Við þurfum að senda Pútin skýr skilaboð um að láta af [stríðsógnum], við munum ekki líða slíkt og munum verjast — við þurfum að einbeita okkur að því næstu mánuði og ár, sama hvað gerist í Úkraínu núna í febrúar.“
https://original. antiwar. com/Jack_Matlock/2022/02/14/todays-crisis-over-ukraine-was-avoidable-and-predictable/
https://www. mintpressnews. com/john-pilger-war-in-europe-and-the-rise-of-raw-propaganda/279713/
Möo: þetta hefur ekkert að gera með álit manna á hr. Putin eða hvernig hann stýrir hlutunum heima hjá sér, heldur því að allar hliðar mála komi fram á heiðarlegan hátt. Sjaldan veldur einn er tveir deila. Kv