Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér formannstöðu í Eflingu síðasta haust vegna stuðningsleysis frá starfsfólki, er aftur orðin formaður Eflingar.
Niðurstöður úr formannskjöri voru birtar rétt í þessu. B-listi Sólveigar Önnu hlaut 52% atkvæða, en A-listi undir forystu Ólafar Helgu Adolfsdóttur, hlaut 37%. C-listi undir forystu Guðmundar Baldurssonar hlaut 8%.
Kjörsókn í kosningunum var 15%. Árið 2018 var kjörsókn tæp 16% og hlutu Sólveig Anna og B-listi hennar 80% atkvæða. Voru það fyrstu formannskosningarnar í 20 ár í Eflingu og þær fyrstu í sögu félagsins þar sem stjórn var ekki sjálfkjörin.
Sólveig Anna sagði af sér formennsku 31. október síðastliðinn í kjölfar deilna á skrifstofu Eflingar. Hún hafði óvænt orðið formaður í sögulegum formannslag árið 2018.
„Þetta er búið að vera algerlega galið ástand,“ sagði Sólveig Anna í sigurræðu sinni í kvöld. „Ég held ekki að nein kosningabarátta sem ég hef orðið vitni að hafi verið jafn hatrömm af hálfu andstæðinganna.“
Hún bað um tíma til að meðtaka úrslitin. „En okkur tókst þetta. Við erum búin að vinna sigur í þessum kosningum. Og ég bara vil að við tökum smá tíma til þess að meðtaka það að eftir allt sem á hefur gengið, allan þennan trylling sem á hefur gengið, þá tókst okkur að fá samþykki félagsfólks Eflingar fyrir því að við á Baráttulistanum eigum að fá að stýra efnahagslegri réttlætisbaráttu verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu.“
Vill sýna meiri festu
Í viðtali við Stundina í byrjun mánaðar sagði Sólveig Anna að hún byggist ekki við upplausnarástandi hjá félagsfólki ef hún færi með sigur af hólmi í kosningunum.
„Ég hef ekki orðið vör við það að það sé eitthvað sérstaklega mikið ósætti hjá félagsfólki. Ég myndi ekki hafa ákveðið að fara af stað núna nema vegna þess að ég tel að félagsfólk vilji að ég taki aftur við formennsku í félaginu og muni styðja minn lista. Á þessum tímapunkti hef ég ekki áhyggjur af því að eftir að kosningu lýkur, og fari svo að ég og Baráttulistinn sigri, að það taki við tímabil einhverra ósátta eða einhverrar upplausnar hjá félagsfólki.“
Spurð hvort hún byggist við upplausn á skrifstofu félagsins, þar sem margir starfsmenn hafa lýst andstöðu við störf hennar og ekki síst Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, sagðist hún ekki erfa fortíðina.
„Ég er ekki manneskja sem er mikið að velta sér upp úr fortíðinni eða bera með mér eitthvað sem hefur gerst. Ég bara trúi því að maður eigi einhvern veginn að reyna að feta veginn áfram og það er engri manneskju hollt að vera alltaf að horfa til baka, nema auðvitað til þess að læra af reynslunni. Það er mjög mikilvægt, af því við viljum auðvitað ekki gera sömu mistökin aftur.“
Hún hefði hins vegar viljað fylgja áherslum sínum eftir af meiri festu. „Þegar ég horfi til baka er það ljóst að þegar ég kom þarna inn 2018 þá hefði ég átt að vera miklu fastari fyrir. Ekki bara inni í Eflingu heldur líka inni í hreyfingunni sjálfri. Ég var algjörlega utanaðkomandi. Ég var vissulega búin að vera lengi Eflingarmanneskja og þekkti hvað það var að vera láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði en ég vissi ekkert um íslenska verkalýðshreyfingu annað en það að ég var mjög ósátt og reið út í hvernig hreyfingin, að mínu viti, viðhélt þessari samræmdu láglaunastefnu og hvernig ég og konurnar sem ég vann með, aðflutta verkafólkið sem ég hafði kynnst, var algjörlega jaðarsett. Það var aldrei neinn sem kom og spurði okkur að einu né neinu. En ég fór inn með þá hugmynd – sem eftir á að hyggja var mjög barnaleg – að ég gæti verið bara næs og kammó og vingjarnleg, til í að ræða málin og spjalla, og svo yrðu kannski alveg auðvitað átök og allt það, en þá yrði það málefnalegt.“
Þessi frábæra kosning er stór og afdrifarík ákvörðun fyrir félagsfólk Eflingar; ákvörðun sem mun hafa mun víðtækari áhrif í þjóðfélaginu heldur en eingöngu fyrir verkafólkið sem hana tók. Þessar góðu fréttir eru ljós í skammdegismyrkrinu sem vafalaust ergja auðvaldið, ásamt hinum ýmsu valdablokkum, og gæti valdið titringi víða. Það er, vitaskuld, hið besta mál.