Ljósmyndir sem teknar voru við höfnina á Þingeyri í gær sýna þann stórfellda dauða á eldislöxum sem fyrirtækið Arctic Fish glímir við í sjókvíum sínum í Dýrafirði.
Laxadauðinn er afleiðing af veðrinu sem geisað hefur á Vestfjörðum en kuldi og veltingur í sjókvíum skapa slæm lífsskilyrði fyrir eldislaxa sem geta fengið vetrarsár þegar þeir nuddast upp við kvíarnar. Ef eldislaxarnir verða sárugir eru þeir ekki hæfir til manneldis og drepast í kvíunum.
Slíkur eldislax sem drepst vegna veðurs eða sjúkdóma í sjókvíum er kallaður dauðfiskur.
Lýsing á dauðfiski og söfnun hans
Fyrrverandi starfsmaður eins af stóru íslensku laxeldisfyrirtækjunum lýsir laxadauðanum í sjókvíum með eftirfarandi hætti - maðurinn vill ekki láta nafns síns getið: „Þegar laxinn drepst í nótinni þá botnfellur hann. Svo er honum dælt upp af botninum með aðferð sem heitir „lift up“ og þá fer hann í kör. Hluti af þessu er fiskur sem er mjög illa farinn og skemmdur á hausnum, augun farin, en áður en hann drepst flýtur hann upp og getur svamlað í yfirborðinu í jafnvel sólarhring áður en hann drepst. Sá fiskur sem lítur verst út og er í tætlum er fiskur sem er búinn að liggja lengur og flóin er búin að vinna á honum. Fiskurinn verður svona eftir tvo til þrjá daga, roðið er farið af honum og hann verður úldinn. Fiskarnir sem líta betur út eru nýdauðir,“ segir starfsmaðurinn fyrrverandi sem vann meðal annars við að safna dauðfiski úr sjókvíum.
„Það er mjög mismunandi af hverju þessir fiskar drepast. Sumir drepast af vetrarsárum. Oftast fá þeir sár á hausinn eftir að hafa siglt utan í netið og það grær ekki í þessum kulda heldur stækkar bara og stækkar þar til hausinn er eiginlega alveg farinn. Það eru þrengsli í nótinni og þegar þeir fá þessi vetrarsár þá eru þeir dauðadæmdir.“
Fiskikör sem full eru af dauðfiski sem ekki verður nýttur til manneldis standa á bryggjunni. Körin eru tæmd í skip frá norska fyrirtækinu Hordafor sem vinnur meltu, dýrafóður, úr dauðfiskinum. Arctic Fish fær með því móti eitthvað fyrir eldislaxinn sem drepst í kvíunum og hægt er að nýta hráefnið með einhverjum hætti.
Daníel: Umfang laxadauðans óljóst
Eins og Stundin fjallaði um í gær er laxadauðinn hjá Arctic Fish í Dýrafirði mun meiri en fyrirtækið áætlaði í lok janúar.
Daníel Jakobsson, starfsmaður Arctic Fish og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðar, sagði þá við Stundina aðspurður. „Afföll sem þessi koma því miður upp en eru mun meiri en reiknað er með í áætlunum okkar. Sá fiskur sem um ræðir var í mjög góðu ástandi um áramót og stefndi þessi kynslóð í að verða ein sú besta sem um getur þegar kemur að afföllum og vexti. Ástæðurnar fyrir afföllum liggja ekki fyrir en eru líklega samspil áreitis á fiskinn, s.s. veðurs, flutnings og meðhöndlunar á fiskinum í sambland við 1 gráðu kaldan sjó.“
„Við höfum tilkynnt að hann gæti numið um 3% af lífmassa sem væru 300 tonn, en ljóst er að það verður meira.“
Út frá myndunum frá Þingeyri að dæma er ljóst að laxadauðinn hjá fyrirtækinu er umtalsverður. Daníel gat ekki svarað því í gær hversu mikill hann væri: „Það liggur ekki fyrir endanlega. Við höfum tilkynnt að hann gæti numið um 3% af lífmassa sem væru 300 tonn, en ljóst er að það verður meira, þetta hefur verið að gerast frá áramótum og þó dregið hafi úr þessu eru afföll enn veruleg. Fiskurinn var kominn í sláturstærð sem er um 5 kg. Það er hinsvegar ekki mikið um eiginleg vetrarsár á fiskinum og það sem við erum að slátra fer um allt í fyrsta og annan gæðaflokk.“
Samkvæmt svörum Daníels er því ekki hægt að fullyrða nokkuð um umfang laxadauðans í Dýrafirði á þessu stigi málsins.
Laxadauði allt að 20 prósentum
Maðurinn sem starfaði hjá laxeldisfyrirtæki á Íslandi segir að þegar hann vann í greininni hafi laxadauðinn verið í kringum 15 prósent en hafi farið upp í 20 prósent yfir árið þegar verst lét. „Þumalputtareglan í þessu er að ef laxadauðanum er haldið undir 10 prósentum þá eru allir sáttir en ef hann er kominn yfir 15 prósent þá eru menn ósáttir,“ segir maðurinn en samkvæmt honum þá þessi laxadauði ákveðið feimnismál á Íslandi.
Maðurinn segir að laxadauði á Íslandi sé meiri en í Noregi. „Úti í Noregi yrði allt vitlaust ef laxadauðinn væri svona mikill. Þetta helgast af því að Íslendingar hugsa meira um magn en gæði. Það er sett allt of mikið af fiski í næturnar og þrengslin verða of mikil,“ segir hann.
Athugasemdir (3)