Ríkisstofnunin Orkustofnun hefur beint þeim tilmælum til raforkusölufyrirtækja að þau selji ekki rafmagn til viðskiptavina sinna, sem koma í viðskipti í gegnum svokallaða þrautavaraleið, á hærra verði en lægsta birta verði sínu. Þetta kemur fram í máli Guðmundar Bergþórssonar, verkefnastjóra raforkumarkaða hjá Orkustofnun. Guðmundur var spurður að því hvar rannsókn stofnunarinnar á fyrirtækinu N1 rafmagn væri stödd.
Stundin greindi frá því í lok síðasta árs að Orkustofnun væri að rannsaka viðskipti N1 rafmagns vegna þess að fyrirtækið hefur rukkað viðskiptavini sína sem komið hafa í gegnum þrautavaraleiðina um hærra rafmagnsverð en lægsta birta verð fyrirtækjanna.
Guðmundur segir að nú hafi Orkustofnun sent út uppfærðar leiðbeiningar til raforkusölufyrirtækjanna um að rukka þrautavaraviðskiptavini sína um lægsta birta verð fyrir rafmagnið. „Við erum búin að senda út til sölufyrirtækjanna uppfærðar leiðbeiningar og það er umsagnarfrestur sem ekki er liðinn. Í þeim leiðbeiningum er þeim tilmælum beint til fyrirtækjanna að þau geti ekki selt nema á birtu verði til þrautavarakúnnanna þannig að þau geti ekki leikið þennan leik að selja þeim rafmagnið á hærra verði. Síðan erum við búin að kalla eftir viðbrögðum N1 rafmagns við kvörtuninni sem rannsóknin byggir á,“ segir Guðmundur sem bætir því við að N1 rafmagn hafi svarað erindi stofnunarinnar.
Hann segir að nú þurfi Orkustofnun að taka afstöðu til þess hvort N1 rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, hafi verið heimilt að rukka þrautavaraviðskiptavini sína um hærra verð fyrir rafmagnið en lægsta birta, auglýsta verð fyrirtækisins.
Miðað við þetta er ljóst að Orkustofnun ætlar að beita sér fyrir því að N1 rafmagn ofrukki ekki viðskiptavini sína sem koma til fyrirtækisins í gegnum þrautavaraleiðina.
Þetta kerfi, og viðskiptahættir N1 rafmagns, hefur verið gagnrýnt harðlega opinberlega, meðal annars í grein sem Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri samkeppnisaðila fyrirtækisins, Orku Náttúrunnar, birti á Vísi í dag. Í greininni segir hún meðal annars að um sé að ræða „okur með aðstoð ríkisins“ þar sem ríkisstofnunin Orkustofnun er milliliður í því að beina viðskiptunum til N1 rafmagns. Berglind segir í greininni að verðið sem N1 rafmagn hefur rukkað viðskiptavinina sem komið hafa í gegnum þrautavaraleiðina sé 75 prósent hærra en verðið sem fyrirtækið hefur auglýst sem sitt lægsta rafmagnsverð.
Um 18 þúsund viðskiptavinir
Eins og Stundin hefur fjallað um felur kerfið sem verið er að gagnrýna það í sér að ef neytandi rafmagns, einstaklingur eða fyrirtæki, velur sér ekki sjálfur raforkusala til að kaupa rafmagn af er hann sjálfkrafa settur í viðskipti við þann orkusala til þrautavara sem er með lægsta verðið samkvæmt Orkustofnun. Frá því að söluaðili til þrautavara var fyrst valinn af Orkustofnun, þann 25. maí árið 2020, hefur Orkustofnun þrívegis valið Íslenska orkumiðlun/N1 rafmagn sem orkusala til þrautavara.
Fyrirtækið hefur fengið til sín tæplega 18 þúsund viðskiptavini á grundvelli þesa nýja kerfis sem tekið var upp um mitt ár 2020. Um er að ræða um 1.000 nýja viðskiptavini í hverjum mánuði. Af þessum tæplega 18.000 viðskiptavinum sem komið hafa til Íslenskrar orkumiðlunar/N1 í gegnum þrautavaraleiðina hafa tæplega 8.000 skipt um orkusala og farið til annars raforkusala. Samkvæmt lögunum og reglugerðinni eiga viðskiptavinir orkusala til þrautavara alltaf að greiða lægsta verðið fyrir rafmagn hverju sinni. Önnur hefur hins vegar verið raunin.
Símon Einarsson, einn af stofnendum orkufyrirtækisins Straumlindar sem einnig er samkeppnisaðili N1 Rafmagns, sagði við Stundina nýlega að málið væri hneyksli: „Þetta er eiginlega bara hneyksli. Verðið er allt of hátt. Maður vill bara sjá ákveðna sanngirni og mér finnst fólk hafa rétt á að vita þetta því það er bara verið að svindla á fólki,“ segir Símon Einarsson, einn af stofnendum Straumlindar.
Berglind Rán: Hljóta að vera mistök
Berglind Rán Ólafsdóttir, hjá Orku Náttúrunnar, segir aðspurð að það hljóti að vera að mistök hafi verið gerð við setningu laga og reglugerðarinnar um þrautavaraleiðina sem og í eftirliti með þessu kerfi. „Söluaðili til þrautavara er valinn á grundvelli verðs sem á að vera lægsta verð og þá hlýtur það að vera tilgangur reglugerðarinnar að viðskiptavinurinn borgi þetta lægsta verð. N1 ákveður að gera þetta öðruvísi. Það sem mér finnst blasa við er að það hljóti að vera eitthvað að í eftirlitinu og að því sé ábotavant,“ segir Berglind. „Þetta er alls ekki á ábyrgð neytenda heldur stjórnvalda. Mér finnst þetta ekki vera mál sem eigi að taka langan tíma að skoða,“ segir hún en miðað við orð Orkustofnunar þá ætlar stofnunin að grípa í taumana í málinu og sjá til þess að þrautavarakúnnar raforkufyrirtækja greiði alltaf lægsta verðið.
Er helvítis einkavæðingin kominn í spilið ?