Töluverð óánægja er meðal kúabænda, og þá einkum meðal kvenna í stéttinni, með vinnubrögð stjórnar Íseyjar útflutnings vegna máls Ara Edwalds, sem ásakaður hefur verið um að hafa brotið gegn konu í félagi við þrjá aðra menn. Sú óánægja og þrýstingur kann að hafa valdið því að Ara Edwald var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Íseyjar í gær.
Stundin greindi frá því 6. janúar síðastliðinn að Ari væri kominn í leyfi frá störfum sem framkvæmdastjóri Íseyjar, systurfélags Mjólkursamsölunnar. Samkvæmt stjórnarformanni Íseyjar, Elínar Margrétar Stefánsdóttur, óskaði Ari sjálfur eftir að fara í umrætt leyfi. Ari er meðal fjögurra manna sem Vítalía Lazareva hefur sakað um að hafa gengið yfir mörk sín í heitum potti í sumarbústaðaferð í desember árið 2020.
„Sem mjólkurframleiðendur krefjumst við þess að Ari Edwald verði látinn víkja frá öllum störfum hjá okkar fyrirtækjum“
Síðastliðinn laugardag settu kúabændurnir á Bessastöðum á Heggstaðanesi í Húnaþingi vestra, þau Jóhann Magnússon og Guðný Helga Björnsdóttir, inn yfirlýsingu á Facebook-síðu kúabænda þar sem þess var krafist að Ari yrði látinn víkja. „Við fordæmum alla sem viðhafa kynferðislega áreitni og ofbeldi. Sem mjólkurframleiðendur krefjumst við þess að Ari Edwald verði látinn víkja frá öllum störfum hjá okkar fyrirtækjum, ekki bara í leyfi heldur til frambúðar. Þó svo að ekki liggi fyrir kæra þá trúum við staðfastlega orðum Vítalíu, eftir að hafa hlustað á viðtal Eddu Falak við hana. Við dáumst að hugrekki hennar við að opinbera ömurlega framkomu ástmanns hennar og drottnunarlegra félaga hans,“ sagði í yfirlýsingunni. Guðný Helga er fyrrverandi varaformaður Bændasamtaka Íslands og einnig fyrrverandi varaformaður Landssambands kúabænda.
Vissu af málinu þegar í október
Yfirlýsingin hlaut miklar undirtektir og var dreift víða. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var mjög þungt hljóð í kúabændum vegna máls Ara en einnig vegna viðbragðsleysis forsvarsmanna Íseyjar. Einkum var þungt hljóð í konum innan stéttarinnar sem munu hafa verið í töluverðum samskiptum sín á milli vegna málsins. Samkvæmt sömu heimildum mun sú óánægja og þrýstingur hafa vegið þungt í því að stjórn Íseyjar brást við með því að segja Ara upp störfum.
Vítalía Lazareva birti á Instagram reikningi sínum í október síðastliðnum frásagnir af því hvernig gengið var yfir mörk hennar og hún beitt kynferðislegu ofbeldi í umræddri sumarbústaðaferð. Strax þá var stjórn Íseyjar kunnugt um lýsingar Vítalíu, eftir því sem kemur fram í bréfi sem sent var á alla félagsmenn Auðhumlu, samvinnufélagsins sem á 80 prósenta hlut í Mjólkursamsölunni. Samkvæmt því sem segir í bréfinu var málið strax tekið alvarlega „vegna þess möguleika að upplýsingarnar væru réttar, og hefur stjórn félagsins fundað oft um málið, bæði með framkvæmdastjóra og án hans. Málið var enn til meðferðar í stjórn í síðustu viku þegar vatnaskilin urðu.“
Kúabændur sem Stundin hefur rætt við furða sig á því að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr og Ari sendur í leyfi frá störfum í ljósi þessa. Það hafi ekki verið fyrr en nú, eftir að Vítalía sagði sögu sína í hlaðvarpinu Eigin konur og fjölmiðlar hófu umfjöllun um málið, að ákveðið var að Ari færi í leyfi. Það gagnrýna bændur og sömuleiðis að stjórnin hafi ekki sagt Ara upp störfum þegar málið var komið á allra vitorð, líkt og stjórn almenningshlutafélagsins Festar gerði í máli Þórðar Más Jóhannessonar.
Þórður Már er einn þeirra fjögurra manna sem var í umræddri sumarbústaðaferð. Stjórn Festar tók ákvörðun um það 6. janúar síðastliðinn að víkja honum frá sem stjórnarformanni félagsins, daginn eftir að viðtalið við Vítalíu birtist. Fyrr sama dag hafði Hreggviður Jónsson, aðaleigandi og stjórnarformaður Veritas Capital, vikið frá sem stjórnarformaður en Hreggviður var einnig í umræddri ferð. Fjórði maðurinn er Arnar Grant, þáverandi ástmaður Vítalíu.
Stundin hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við stjórnarmenn Íseyjar útflutnings í dag, þau Elínu Margréti Stefánsdóttur formann, Ágúst Guðjónsson og Sigurjón Rúnar Rafnsson, til að fá frekari skýringar á brottvikningu Ara. Ekki hefur náðst í neitt þeirra.
Athugasemdir (4)