Helga Rakel Rafnsdóttir
kvikmyndagerðarkona
„Hamingjan er hál sem áll, hún er fallvölt og hverful og kannski er hún ekki til. Kannski er hamingjuhugtakið grunnhyggið og tvívítt, eitthvað sem við förum í fleipur með. Kannski er hamingjuhugtakið misskilningur. Kannski er hamingjuhugtakið gildra, sykurhúðuð söluvara sem nærir tómið innra með okkur og fyllir okkur óseðjandi löngun í meira. Kannski er hamingjan nornin í ævintýrinu um Hans og Grétu, norn sem lokkar okkur til sín með sælgæti til þess að fita okkur svo að hún geti étið okkur. Og kannski snúum við ekki á hamingjuna fyrr en okkur hefur tekist að lokka hana inn í bakaraofn og læsa hana þar inni. Þá loksins erum við frjáls og getum snúið okkur í hina áttina, í átt að villtum skóginum, í átt að frelsinu frá því að vera sífellt að leita hamingjunnar.“
Soffía Bjarnadóttir
rithöfundur
„Ég hef hugsað um hamingjuna og hún stundum vafist fyrir mér. Ég hef talað við hana og beðið hana um að vera vinkona mín. Ég gef henni kaffi á morgnana, það finnst henni gott. Hún er oft með mér, skrifar, valhoppar eða fer í myndastyttuleik. Þegar ég finn hana ekki þá bíð ég bara róleg því ég veit hún þarf stundum að hvíla sig. Stundum er hún spangólandi og stundum þögul. Henni finnst gott að synda í sjónum, þá heyri ég hana mala. Kannski er hún köttur, kannski augasteinn sem þekkir leyndardóma. Kannski er hún hlátur, tónlist, kvikmynd, kannski kertaljós í rökkri, fyrirgefning, fæðing. Kannski er hún hús, kannski vöðvi sem þarf að æfa, kannski ást, kannski mildi, matur í ísskáp, kannski fjall, flugvél, guð. Kannski er hún ilmandi jurt, sorglegt ljóð, snjókoma í sundi, bleikur kjóll, rautt naglalakk, kannski faðmlag, fegurð, traust, kannski manneskja, eldgos, umbreyting, tár. Ég veit hún er að eiga heima, er þakklæti og magískur vinur. Ég elska hamingju mína og reyni að passa hana alveg eins og hún passar mig.“
Friðgeir Einarsson
rithöfundur og sviðslistamaður
„Í gærkvöldi, þegar við vorum að vaska upp, spurði ég konuna mína hvernig henni fyndist að ég ætti að koma mér hjá því að svara þessari spurningu í Stundina: Hvað er hamingjan í huga þínum? Hvort ég ætti að segja það hreint út að það væri einhvers konar masterklassi í kaldhæðni að ég færi að segja öðru fólki eitthvað um hamingjuna – eða hvort ég ætti að ljúga mig út úr þessu, segjast ekki hafa tíma, hvort það væri kannski síður dramatískt. Konan mín spurði af hverju ég hefði tekið þetta að mér. Ég sagðist ekki vera alveg viss, að ég hefði haldið að ég myndi finna eitthvað út úr þessu. Við kláruðum uppvaskið í þögn en það lá í loftinu að frekar en að víkja mér undan þyrfti ég einmitt að gefa þessari spurningu meiri gaum.“
Halldór Guðmundsson
rithöfundur
„Hamingjan er andartakið sem kemur þér fullkomlega að óvörum og þú vilt að vari. Hún er eins og flóðbylgja úr óvæntri átt sem hrífur þig með sér á stað sem þig grunaði ekki að væri til og fjarar síðan út jafnskjótt. Hamingjan er ekki verðskulduð og það er ekki hægt að vinna sér inn fyrir henni, hún er ekki venjuleg vellíðan og hún er ekki góður grautur sem hægt er að fá uppskrift að. Kannski er hún sælutilfinningin sem vaknar með fanganum sem hefur óvart sest á teiknibólu í vagninum sem á að flytja hann til aftöku þegar hann nær að færa sig um einn rass, svo ég vitni í norska skáldið Hamsun. Hamingjan er lífið.“
Silja Hrund Barkardóttir
framhaldsskólakennari, rithöfundur og kvikmyndagerðarkona
„Hamingjan er bros, snerting, koss, faðmlag, augnatillit, orð hvísluð í eyra, þögn, kyrrð og hávaði. Í hamingjunni leynist djúpstæð sorg því augnablikið er fallvalt þótt það sé litað gleði. Það að vera hamingjusamur er meðvituð ákvörðun þótt vissulega læðist hamingjan oft upp að manni hljóðum fótum eða með skelli sem grípur óvænt. Á sama tíma er hamingjan djúp, innri vissa sem er algjör og samfelld. Ég þarf meðvitað að rækta hamingjuna alla daga vegna þess að geri ég það ekki er hætt við að ég missi sjónar á henni, missi hana úr greipum mér, telji að hún búi hjá öðrum en sjálfri mér og vilji ekki kíkja við í heimsókn.“
Athugasemdir