Við skiljum þennan líkama okkar ekkert alltof vel stundum. Við erum til dæmis stundum örþreytt þegar við ættum að vera úthvíld og full af orku þegar við ættum að vera uppgefin – og helsti styrkur þessarar stuttu og snaggaralegu hrollvekju Hildar Knútsdóttur er að byggja hrollinn upp á einhverju jafn kunnuglegu og hversdagslegum áhyggjum okkar af okkar eigin líkama.
Iðunn vaknar nefnilega alltaf örþreytt, þrátt fyrir eðlilegan svefn að hún heldur – og ekki bara einstöku sinnum, heldur alltaf. Hún hefur leitað til tveggja lækna og gúglað allt sem henni dettur í hug og er hvergi nær lausninni. Vinkona hennar stingur upp á meiri hreyfingu svo hún sofni þreytt. Það hjálpar ekki heldur – nema það verður til þess að hún kaupir GPS-úr sem telur skrefin hennar, sem verður til þess að hún áttar sig á því sem lesandinn áttar sig á nánast strax: að hún liggur sannarlega ekki kyrr …
Athugasemdir