Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, fer hörðum orðum um Guðmund Baldursson stjórnarmann í stéttarfélaginu í færslu á Facebook. Kveikjan að skrifum Sólveigar eru viðtal við Guðmund í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi þar sem hann lýsti því að eðlilegt væri að Agnieszka Ewa Ziólkowska varaformaður félagsins segði af sér. Sólveig Anna segir fáránleika þeirrar kröfu Guðmundar yfirgengilegan „en auðvitað fyrst og síðast svo óbærilega ógeðslegur.“
Sem kunnugt er sagði Sólveig Anna af sér sem formaður Eflingar og tilkynnti um það með færslu á Facebook síðastliðið sunnudagskvöld. Ekki hefur náðst í Sólveigu Önnu til að inna hana betur eftir málavöxtum en hún hefur þó sett inn fleiri færslur á Facebook þar sem hún tjáir sig um þróun mála í Eflingu. Agnieszka Ewa er kjörin varaformaður stjórnar stéttarfélagsins og ætti hún því að taka við formennsku við brotthvarf Sólveigar Önnu. Í Kastljósi í gær sagði Guðmundur að hann teldi ábyrgð Agniezku Ewu ekki minni en Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar, í þeim deilum sem geisa nú innan Eflingar. Hún ætti því einnig að segja af sér.
„Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann ekki“
Þetta þykir Sólveigu Önnu svo yfirgengilegt að hún gat ekki annað en hlegið, skrifar hún, þó henni sé fjarri því hlátur í huga. Agnieszka Ewa hafi verið valin af félögum sínum til að gegna stöðu varaformanns og það hafi hún gert með sóma. Hún sé fyrsta konan af pólskum uppruna sem gegni svo mikilvægu hlutverki í íslenskri verkalýðshreyfingu og fyrsti raunverulegi fulltrúi aðflutts verkafólks í verkalýðsbaráttunni.
„Hún þekkir allt það svívirðilega rugl sem viðgengst gagnvart aðfluttu verkafólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, ásamt mér og þeim í stjórn sem raunverulega hafa viljað bæta hag alls vinnuaflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stórkostlega umbóta vinnu innan félagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar aðfluttu félagar eigi rétt á nákvæmlega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér.“
Sólveig Anna bendir á að um það bil helmingur félagsfólks Eflingar sé aðflutt fólk og nú sé í fyrsta skipti í ábyrgðarhlutverki manneskja sem tilheyrir þeim hópi. „Og svo dirfist einhver maður að segja henni að láta sig hverfa. Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann ekki.“
Athugasemdir