Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, segir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem sagt hefur af sér sem formaður Eflingar, hafa haldið lykilupplýsingum leyndum fyrir stjórninni til að hylma yfir vanlíðan starfsfólks.
Greint var frá gagnrýni Guðmundar á hendur stjórnenda Eflingar í fréttum Ríkisúvarpsins síðstliðinn föstudag. Þar sagði að Guðmundur hefði ítrekað reynt að fá í hendur ályktun trúnaðarmanna starfsfólks á skrifstofu Eflingar um stjórnarhætti Sólveigar Önnu frá því í júní, en án árangurs.
Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins varð síðan til þess að Sólveig Anna greindi starfsfólki Eflingar frá því á föstudaginn að tveir kostir væru í stöðunni. „Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.“ Úr varð að starfsfólk sendi frá sér ályktanir til stjórnenda Eflingar og til Ríkisútvarpsins sem Sólveig Anna túlkaði sem afdráttarlausa staðfestingu á því sem fram hefði komið í ályktun trúnaðarmanna frá því í júní. Við slíka vantraustsyfirlýsingu gæti hún ekki búið og sagði hún því af sér sem formaður.
„Þegar ég gekk á eftir ályktuninni var mér ekki aðeins ítrekað neitað um hana heldur gerð tilraun til að beita mig persónulegri kúgun á grundvelli þess að formaðurinn hefði aðstoðað mína nánustu.“
Í tilkynningu sem Guðmundur sendi blaðamanni Stundarinnar segir hann að alvarlegur trúnaðarbrestur hafi orðið þegar Sólveig Anna hafi neitað að kynna stjórn Eflingar starfslokasamning við fráfarandi skrifstofustjóra í upphafi þessa árs. Því hafi verið borið við að þær upplýsingar kæmu stjórninni ekki við, skrifar Guðmundur. Þá hafi stjórn einnig verið neitað um kynningu á ályktun trúnaðarmanna um stjórnunarvanda á skrifstofu Eflingar í júní síðastliðnum. „Þegar ég gekk á eftir ályktuninni var mér ekki aðeins ítrekað neitað um hana heldur gerð tilraun til að beita mig persónulegri kúgun á grundvelli þess að formaðurinn hefði aðstoðað mína nánustu.“
Segir Sólveigu Önnu hafa slegið á sáttarhönd
Guðmundur segir að hann hafi lagt fram þá tillögu að utanaðkomandi ráðgjafi legði mat á starfsemi Eflingar til að leita lausna en því hafi verið hafnað. Enginn í stjórn Eflingar hafi stutt hann í því máli og enga hjálp hafi verið að fá hjá Starfsgreinasambandinu eða Alþýðusambandi Íslands, þrátt fyrir að fyrir lægi, að sögn Guðmundar, að stjórn Eflingar ætti fullan rétt á að fá allar lykilupplýsingar um starfsemi Eflingar í hendur.
Sólveig Anna hafi þá hvorki brugðist við áskorun starfsmanna um betrumbætur eða gengist við ábyrgð sinni sem formaður. „Þvert á móti hefur hún skellt skuldinni á mig og starfsmenn sína. Botninum náði hún svo þegar hún krafðist þess að starfsmenn veldu á milli þeirra sjálfra og hennar á starfsmannafundi síðastliðinn föstudagsmorgun. Í kjölfarið sló hún í síðasta sinn á sáttarhönd starfsmanna.“
Athugasemdir (1)