Ekki er svarað í síma á skrifstofu Eflingar stéttarfélags vegna starfsmannafundar sem virðist hafa dregist verulega á langinn. Sé hringt í stéttarfélagið svarar símsvari sem segir að skrifstofan opni klukkan níu vegna starfsmannafundar en alla jafna opnar skrifstofan klukkan 8:15. Klukkan 10:10 svaraði sá símsvari enn.
Stundin hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná í forsvarsfólk Eflingar, sem og starfsfólk skrifstofu í morgun, en án árangurs. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður félagsins greindi frá því í stöðufærslu á Facebook í gærkvöldi að hún hefði tilkynnt stjórn stéttarfélagsins afsögn sína. Ástæðan er viðbrögð starfsfólks Eflingar eftir að Sólveig Anna ávarpaði það síðastliðinn föstudag.
Sögð halda úti „aftökulista“
Ástæða þess að Sólveig Anna ávarpaði starfsfólk var sú að trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar samþykktu ályktun 9. júní síðastliðinn sem send var á hana og aðra stjórnendur félagsins. Í umræddri ályktun mun Sólveig Anna hafa verið sökuð um að halda úti „aftökulista“ yfir starfsfólk sem henni væri ekki þóknanlegt og að hún hefði brotið kjarasamninga með fyrirvaralausum uppsögnum, auk annars. Í stöðuuppfærslu sinni segir Sólveig Anna að hanni hafi verið brugðið vegna texta ályktunarinnar „sem var ekki sannleikanum samkvæmur og að mínu mati skrifaður af miklu dómgreindarleysi, en ég blandaði mér þó ekki í þetta mál heldur fól öðrum stjórnendum að bregðast við, sem þau gerðu hratt og faglega. Skrifleg staðfesting barst frá trúnaðarmanni þar sem málinu var sagt lokið.“
Á fimmtudaginn í síðustu viku hafði fréttamaður Ríkisútvarpsins samband við Sólveigu Önnu til að spyrja hana út í umrædda ályktun. Í kjölfar þess ákvað hún að ávarpa starfsfólk skrifstofu Eflingar að morgni síðasta föstudags. „Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.“
Yfirlýsingar starfsfólks staðfesta vantraust
Starfsfólk Eflingar fundaði í kjölfarið og setti saman ályktun sem send var stjórnendum Eflingar og til Ríkisútvarpsins. „Í þessum ályktunum kemur fram afdráttarlaus staðfesting á þeim orðum sem var að finna í ályktun trúnaðarmanna frá í júní. Talað er á þeim nótum að alvarleg vandamál séu viðvarandi sem þurfi að leysa með fundahöldum og öðru. Krafist er aukins valds fyrir trúnaðarmenn vinnustaðarins og tíðari vinnustaðafunda, þar sem möguleg vanlíðan einstakra starfsmenna verði fundarefni. Í yfirlýsingu til RÚV er jafnframt engin tilraun gerð til að bera til baka ásakanir um ógnarstjórn. Ályktanirnar eru vantraustsyfirlýsing til mín og til allra þeirra sem bera ábyrgð á starfsmannamálum vinnustaðarins,“ skrifaði Sólveig Anna á Facebook í gær.
„Mér þykir það ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi“
Vegna þessa telur Sólveig Anna sér ófært að sitja áfram sem formaður félagsins og ákvað að hlíta þeirri afdráttalausu vantrauststillögu sem komi fram í yfirlýsingu starfsfólksins. „Ég get ekki gegnt stöðu formanns í félaginu að svo komnu máli og hef ég tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn mína. Mér þykir það ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um mig og samverkafólk mitt. Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika.“
Viðar hættir líka
Kjarninn greindi frá því í morgun að Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hyggðist afhenda uppsagnarbréf sitt síðar í dag. Viðar var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri félagssviðs stéttarfélagsins í maí 2018 í eftir að Sólveig Anna var kjörin formaður þess. Mun mjög náin samvinna hafa verið milli þeirra tveggja.
Stundin hefur hvorki náð tali af Sólveigu Önnu né Viðari í morgun. Í stuttum samskiptum við Viðar í gegnum spjallforrit sagðist hann ekki myndi tjá sig um málið að svo stöddu. Starfsmaður skrifstofu Eflingar sem Stundin náði sambandi við lýsit því að allt væri í lausu lofti en vonaðist til að yfirlýsing vegna málsins yrði gefin út innan skamms.
Athugasemdir