Eignarhaldsfélag í eigu stjórnarformanns Arnarlax, Kjartans Ólafssonar, hagnaðist um tæplega 688 milljónir króna í fyrra vegna verðhækkana á hlutabréfum þess í Arnarlaxi og sölu þess á hlutabréfum í félaginu. Þetta kemur fram í ársreikningi eignarhaldsfélags hans, Gyðu ehf., í fyrra sem skilað var til ársreikningaskrár í lok september síðastliðinn.
Arnarlax var skráð á Merkur-hlutabréfamarkaðinn í Noregi í fyrra og leiddi þessi skráning til mikilla verðhækkana á hlutabréfum í félaginu.
Verðmætin í Arnarlaxi liggja í laxeldisleyfum félagsins, leyfum til að framleiða eldislax í fjörðum Íslands. Þessi leyfi ganga kaupum og sölum í Noregi fyrir há verð en ekki á Íslandi. Í fyrrra hafði Arnarlax yfir að ráða leyfum til að framleiða 22 þúsund tonn af eldislaxi. Eitt af því sem mikið hefur verið í umræðunni á Íslandi er af hverju íslensk stjórnvöld nær gefi þessi leyfi til framleiðslu á eldislaxi á meðan þau eru seld dýrum dómum í Noregi.
„Allir sem hafa verið með hingað til hafa í raun komið mjög vel út úr því.“
Bréfin fjármögnuð með kúluláni frá Arnarlaxi
Eins og Stundin hefur greint frá keypti Kjartan hlutabréf í Arnarlaxi í gegnum Gyðu ehf. með láni frá stærsta hluthafa Arnarlax, norska laxeldisrisanum Salmar AS. Um var að ræða tæplega 500 milljóna króna kúlulán til að kaupa 2,41 prósents hlutabréf í norsku móðurfélagi Arnarlax af Salmar AS.
Um hlutabréfaviðskipti sín í Arnarlaxi hefur Kjartan sagt, í samtali við Stundina: „Ég veit að þetta eru orðin umtalsverð verðmæti. Allir sem hafa verið með hingað til hafa í raun komið mjög vel út úr því. Og ég gæti hoppað út núna því það liggur fyrir tilboð í hlutabréfin en ég kýs að gera það ekki.“
Í ársreikningi félags Kjartans fyrir árið fyrra kemur fram að félag hans keypti hlutabréf fyrir tæplega 157 milljónir króna það árið en seldi bréf í Arnarlaxi fyrir 467 milljónir. Við þetta myndaðist söluhagnaður upp á 310 milljónir króna.
Við þennan hagnað bætist svo matsbreyting hlutabréfa Gyðu í Arnarlaxi upp á 438 milljónir króna.
Þetta tvennt leiðir til þess að félag Kjartans skilaði hagnaði upp á 688 milljónir króna, eftir greiðslu fjármagnsgjalda.
Á grundvelli þessa hagnaðar gat félagið greitt út 115 milljóna króna arð til eignarhaldsfélags Kjartans sem á félagið Gyðu ehf.
Arnarlax greiddi 97 milljónir til ríkisins fyrir leyfin
Eins og Stundin hefur fjallað um áður er Kjartan einn af fáum, í þó stækkandi hóp íslenskra fjárfesta, sem hefur hagnast á íslensku laxeldi hingað til. Tilraunir til að koma á fót stórfelldu laxeldi á Íslandi hafa hingað til runnið út í sandinn út af ýmsum ástæðum, meðal annars hörðum veðurskilyrðum við Ísland. En svo virðist sem nú hafi félög eins og Arnarlax og Arctic Sea Farm, sem og Fiskeldi Austfjarða, ná að festa sig í sessi þannig að útlit er fyrir að þau nái að halda velli. Öll félögin eru í eigu norskra laxeldisfyrirtækja að stóru leyti.
Í ársreikningi Arnarlax fyrir árið í fyrra kemur fram að félagið hafi greitt samtals tæplega 650 þúsund evrur í auðlinda- og leyfisgjöld til íslenska ríkisins vegna framleiðslu á eldislaxi. Auðlindagjaldið nama 133 þúsund evrum og gjald í Umhverfissjóð fiskeldis. Samtals nam þessi upphæð 97 milljónum íslenskra króna eða um 1/7 hluta af því sem lítill hluthafi í Arnarlaxi, félag Kjartans Ólafssonar, hagnaðist á um á hlutabréf sinni í fyrirtækinu í fyrra.
Upphæðin sem Arnarlax greiddi fyrir leyfin til íslenska nam einnig 18 milljónum króna minna en arðgreiðslan út úr félagi Kjartans í fyrra.
Athugasemdir