Aðgerðahópurinn Öfgar sendi stjórn Knattspyrnusambands Íslands tölvupóst 27. september þar sem greint var frá nöfnum sex landsliðsmanna sem samkvæmt póstinum hefðu gerst sekir um ofbeldis- og kynferðisbrot. Dagsetningar þeirra brota sem Öfgar tilgreindu fylgdu einnig í umræddum tölvupósti. Arnar Þór Viðarson landsliðsþjálfari mun ekki hafa getað valið alla þá leikmenn sem hann hugðist velja í landsliðshóp karlalandsliðsins sökum þessa. Í pósti Öfga var Arnar Þór ennfremur sagður gera lítið úr þolendum ofbeldis með framgöngu sinni í fjölmiðlum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Samkvæmt heimildum blaðsins er mál landsliðsmannanna til skoðunar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ, Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur. Á meðan að svo er eru leikmennirnir ekki gjaldgengir í landsliðinum.
Þrír af leikmönnunum sex eru þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson og Kolbeinn Sigþórsson samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Þessir þrír hafa allir hafa verið nafngreindir áður í fjölmiðlum fyrir meint brot. Gylfi Þór sætir farbanni í Englandi vegna rannsóknar á kynferðisbroti, Aron Einar hefur óskað eftir því við lögreglu að gefa skýrslu um atvik árið 2010 og Kolbeinn greiddi tveimur konum skaðabætur vegna áreitni og ofbeldis árið 2017.
Í frétt Morgunblaðsins segir að hinir þrír leikmennirnir hafi ekki verið nafngreindir í íslenskum fjölmiðlum. Stundin hefur þó heimildir fyrir því að einn þeirra sé Ragnar Sigurðsson, sem greint hefur verið frá að hafi árið 2016, nóttina eftir að landsliðsmenn komu heim eftir Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi, gengið berserksgang á heimili sínu og haft í hótunum við þáverandi eiginkonu sína.
Athugasemdir