Ég var á leiðinni til Alsír til að messa í seðlabankanum þar suður frá um hætturnar sem fylgja illri meðferð rentunnar af olíu og öðrum náttúruauðlindum þegar yngri maður vatt sér að mér á flugvellinum í París, heilsaði mér með virktum og sagði: „Monsieur le professeur, ég hef hlakkað til að hitta yður. Til að búa mig undir langþráðan fund fletti ég yður upp bæði í Wikipediu og Panamaskjölunum.“ Hann var sjálfur prófessor í hagfræði í París og var á leið til sama fundar í Algeirsborg. Þetta var í maí 2016. (Hann sagðist ekki hafa fundið mig í Panamaskjölunum.)
Gjaldið sem við greiðum
Nú eru skjöl úr nýjum gagnaleka að birtast almenningi um allan heim eins og Stundin fjallar um í dag, enn yfirgripsmeiri en Panamaskjölin. Skjölin kallast Pandóruskjöl og afhjúpa hvernig menn, þar á meðal margir embættismenn, stjórnmálamenn og viðskiptaforkólfar og einnig fyrirtæki, nota skattaskjól til að skjóta sér undan eðlilegri þátttöku í siðuðu samfélagi. Oliver Wendell Holmes, einn merkasti dómari Bandaríkjanna fyrr og síðar, orðaði þessa hugsun vel: „Skattar eru gjaldið sem við greiðum fyrir að búa í siðuðu samfélagi.“
Hagfræðingar kunna ráð til að slá máli á svarta bletti hagkerfisins. Franski hagfræðingurinn Gabriel Zucman, sem starfar í Kaliforníu, hefur rannsakað umfang undanskotanna og telur að faldar einkaeignir í skattaskjólum nemi um 10% af samanlagðri heimsframleiðslu. Það er mikið. Líklegt virðist að lögbrot leynist á bak við flestar eða allar þessar földu eignir. Aðrir hagfræðingar herma að 15% af olíurentu einræðisríkja lendi á einkareikningum í skattaskjólum líkt og 8% þróunaraðstoðar til fátækra landa eru talin lenda á slíkum reikningum.
Hliðstæðan er alþekkt og auðskilin. Mönnum hættir til að fara verr með annarra fé en sitt eigið. Auðlindarenta líkist þróunaraðstoð að því leyti að hún fellur mönnum í skaut eins og manna af himnum. Og stundum fellur hún ekki af himnum ofan heldur hrifsa menn hana til sín. Slíkar gjafir hafa mörgum þjóðum reynzt vera blendin blessun eins og dæmin sanna í Alsír og Angólu og þannig áfram út stafrófið.
Upphaf fiskveiðistjórnar
Engu af þessu var til að dreifa þegar Alþingi ákvað að afhenda fáeinum útvegsmönnum ókeypis aðgang að takmarkaðri sameignarauðlind í sjónum fyrir bráðum 40 árum. Að vísu höfðu Bandaríkin, Bretland og fleiri stórveldi beitt ofbeldi í Austurlöndum nær til að halda yfirráðum sínum yfir olíulindum þar. Ófriðurinn á svæðinu stafar enn í dag að miklu leyti af átökum um olíuna. Það er engin tilviljun að ekkert ríkjanna á svæðinu er lýðræðisríki, jafnvel ekki Ísrael þegar að er gáð, ekki til fulls, og ekki Rússland heldur. Átök um auðlindir úti í heimi komu ekki til álita þegar fyrstu skrefin voru stigin við mótun fiskveiðistjórnarstefnunnar hér heima.
Þegar þorskurinn var að hugsa um að yfirgefa Íslandsmið eftir 1970, meðal annars vegna ofveiði, sökktu ýmsir hagfræðingar sér niður í málið. Í rómuðu viðtali við Eimreiðina 1974 mælti Gunnar Tómasson, hagfræðingur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, með veiðigjaldi til að koma efnahagslífi landsins á réttan kjöl. Bjarni Bragi Jónsson, síðar aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, mælti einnig með veiðigjaldi á 22. ársfundi norrænna hagfræðinga í Reykjavík 1975. Prófessorarnir Gylfi Þ. Gíslason og Þorkell Helgason tóku í sama streng og það gerðu margir aðrir.
Hagkvæmnisrökin
Rök þeirra og annarra og nokkru síðar einnig rök mín í málinu voru framan af hagkvæmnisrök fyrst og fremst. Það er grundvallarregla góðrar hagfræði að vörur og þjónusta gangi jafnan kaupum og sölum á réttu verði, það er á markaðsverði. Gengi gjaldmiðilsins þarf til dæmis að vera rétt skráð í þessum skilningi ef vel á að vera, ekki rangt skráð. Sovétríkin og fylgitungl þeirra hrundu til grunna meðal annars vegna þess að kommúnistarnir í Kreml skildu þetta ekki. Þeir héldu að þeir gætu ákveðið á kontórum hvað hlutirnir eiga að kosta.
Þannig gerðist það að markaðsbúskapur stóð skyndilega einn eftir sem eina nothæfa búskaparlagið. Kommúnisminn var dauður, í Evrópu að minnsta kosti. Hann lifir þó enn í Kína, Laos og Víetnam, en aðeins sem einræðisstjórnskipan, því Kína, Laos og Víetnam eru löngu komin á kaf í markaðsbúskap einmitt af því að blandaður markaðsbúskapur með ýmiss konar verkaskiptingu milli almannavalds og einkaframtaks er eina búskaparlagið sem getur skilað almenningi batnandi lífskjörum til langs tíma litið. Spilling og græðgi hafa að sönnu komið óorði á markaðsbúskap sem skilvirkt búskaparlag síðustu ár, en látum það eiga sig að sinni.
Réttlætisrökin
Sumir töldu hagfræðinga einblína á hagkvæmnisrökin fyrir veiðigjaldi. Þorsteinn Gylfason, prófessor í heimspeki, skrifaði 1992: „ ... okkur er yfirleitt sagt að það megi ekki spyrja hagfræðinga um réttlæti og ranglæti.“ Hann vitnaði máli sínu til stuðnings í texta minn frá árinu áður um að „spurningin um þjóðfélagslegt réttlæti liggi utan við vettvang hreinnar hagfræði“.
Þessi ábending Þorsteins var alveg rétt. Hagfræðingar innan lands og utan töldu flestir réttlætishlið efnahagsmála vera í annarra verkahring. En við sáum okkur um hönd. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, reið á vaðið. Þannig gerðist það að réttlætisrökin fyrir veiðigjaldi tóku sér stöðu við hlið hagkvæmnisrakanna, enda blasti ranglætið við eins og Þorsteinn lýsti í ritgerð sinni „Fiskur, eignir og ranglæti“ (sjá bók hans Réttlæti og ranglæti, 1998, bls. 109-130). Hann lauk ritgerð sinni með þessum orðum: „Kvótakerfið er ranglátt. Þess vegna verður að bylta því eða breyta.“ Hæstiréttur tók undir þetta sjónarmið í dómi sínum í máli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu 1998 en sneri við blaðinu undir þrýstingi 18 mánuðum síðar. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna birti bindandi álit 2007 og krafði Ísland um að nema ranglætið, það er mismununina og meðfylgjandi mannréttindabrot, burt úr fiskveiðistjórninni.
Mannréttindasérfræðinga varðar ekki um hagkvæmni því hún er ekki í þeirra verkahring. En hagfræðinga varðar um réttlæti. Munurinn stafar af því að mannréttindi og lýðræði eru algild og leyfa engar undanþágur og engin frávik, en hagkvæmni er ekki algild í sama skilningi. Mönnum leyfist að fórna hagkvæmni fyrir mannréttindi sé það talið nauðsynlegt, en mönnum leyfist ekki – aldrei! – að fórna lýðræði og mannréttindum fyrir hagkvæmni, ekki í Evrópu og ekki heldur í Ameríku eða annars staðar í lýðræðisríkjum, þótt kínverska einræðisstjórnin telji það leyfilegt.
Rannsóknir á skiptingu tekna og eigna milli manna hafa nú loksins rutt sér inn í meginstraum hagfræðinnar um allan heim. Miðjan færðist til. Nú sáu menn það sem þeir höfðu áður lokað augunum fyrir: að réttlæti og ranglæti skipta máli í hagfræði og efnahagsmálum – og ekki bara það heldur sjá menn nú í hagtölum að ójöfnuður getur grafið undan lífskjörum almennings og einnig undan lýðræði.
Í þessu ljósi gera æ fleiri sér nú grein fyrir að réttlæti og ranglæti geta haft beinhörð áhrif á gang efnahagsmála og einnig á frelsi og lýðræði. Landhelgi hagfræðinnar hefur verið færð út. Þessi útfærsla á sér skýra hliðstæðu á vettvangi stjórnmálanna þar sem lýðræðissósíalistinn Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont, hefur í tvígang verið bara hársbreidd frá því að hljóta útnefningu bandarískra demókrata sem forsetaframbjóðandi flokksins. Hann er þó ekki meiri sósíalisti en svo að hann bendir á Danmörku sem holla fyrirmynd handa Bandaríkjunum.
Ísland og Noregur
Alþingi féllst loksins á lögfestingu veiðigjalds 2002, að nafninu til. Samkvæmt útreikningum Indriða Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstjóra, duga veiðigjöldin aðeins til að koma 10% fiskveiðirentunnar í hendur rétts eiganda, fólksins í landinu, meðan 90% renna áfram til útvegsmanna. Sjávarrentan er nú talin nema um 2% til 3% af landsframleiðslu. Þar eð skattar ríkisins á tekjur og hagnað einstaklinga námu 6% af landsframleiðslu 2019 myndi fullt gjald duga til að lækka tekjuskatt einstaklinga um þriðjung til helming ef féð yrði notað til þess eins.
Þessi skipan er eins langt frá norskri olíustjórn og hugsazt getur. Í Noregi var olíurentan skilgreind sem þjóðareign frá upphafi. Síðan þá hafa 80% olíurentunnar runnið til rétts eiganda, norsku þjóðarinnar. Í Noregi eru engir olíugreifar. Norski olíusjóðurinn nefnist nú Eftirlaunasjóður norska ríkisins og nemur einni milljón Bandaríkjadala á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Noregi, eða um 130 milljónum íslenzkra króna.
Norska fyrirmyndin um meðferð auðlindar í þjóðareigu gat varla nærtækari verið. En hún var ekki rædd á Alþingi sem kaus heldur í reyndinni að sækja fyrirmynd sína til Rússlands þar sem vinir valdsins stela öllu steini léttara án þess að þurfa að svara til saka heima fyrir. Fyrstu lögin um fiskveiðistjórnina voru samin á skrifstofum LÍÚ eins og Halldór Jónsson, síðar sviðsstjóri í Háskóla Íslands, lýsir í ritgerð sinni „Ákvarðanataka í sjávarútvegi og stjórnun fiskveiða“ (Samfélagstíðindi 1990, bls. 99-141).
Lýðræðisrökin
Nú hafa veður skipazt svo að ný rök fyrir veiðigjaldi eru komin fram og yfirgnæfa að segja má bæði hagkvæmnisrökin og réttlætisrökin sem lýst var að framan. Ég er að tala um lýðræðisrökin.
Fólkið í landinu kaus sér nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi bauð til 20. október 2012. Úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu meðal annars þau að 83% kjósenda lýstu stuðningi við auðlindaákvæðið sem kveður á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu „sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ og stjórnvöld geti veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda „gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn“ og „á jafnræðisgrundvelli“, leyfi sem „leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum“. Skýrara getur þetta varla verið.
Þegar 83% kjósenda hafa lýst stuðningi við slíka skipan í þjóðaratkvæðagreiðslu skiptir það ekki lengur máli hversu sterk hagkvæmnisrökin og réttlætisrökin eru í hugum manna. Kjósendum var fenginn réttur til að ákveða skipan fiskveiðistjórnarinnar þar eð Alþingi bauð þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá þar sem auðlindaákvæðið var og er eitt mikilvægasta ákvæðið. Að loknu þjóðaratkvæði verður ekki aftur snúið. Hagkvæmnisrökin og réttlætisrökin eru sem fyrr firnasterk hvor um sig, rétt er það, en lýðræðisrökin virðast nú vega þyngst. Hagkvæmni, réttlæti og lýðræði haldast í hendur sé vel á málum haldið svo hér er sem betur fer engum árekstri ólíkra markmiða til að dreifa.
Ríki í ríkinu
Vandinn er sá að auðsöfnun útvegsfyrirtækja og útvegsmanna hefur gert þá að ríki í ríkinu sem kjörin stjórnvöld skjálfa frammi fyrir, svo mjög að þau þora ekki annað en að vanvirða vilja þjóðarinnar sem hefur alla tíð lýst sig andvíga fiskveiðistjórnarkerfinu í fjölmörgum skoðanakönnunum auk þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012. Útvegsfyrirtækin hafa fært sig svo mjög upp á skaftið að átta núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja, þar á meðal forstjórinn, hafa nú stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á meintum lögbrotum þeirra. Þrír þeirra eru eftirlýstir erlendis. Samt kom engin tillaga fram um það á síðasta þingi að lög væru sett til að heimila framsal þremenninganna til Namibíu eins og ríkissaksóknari þar hefur óskað eftir. Í Namibíu eru hin meintu brot starfsmannanna (mútur, fjárböðun o.fl.) talin vera nógu alvarleg til þess að tveim ráðherrum þar, meintum mútuþegum, hefur auk annarra sakborninga verið haldið í gæzluvarðhaldi í bráðum tvö ár. Þeir bíða dóms.
Forstjóri Samherja var áður stjórnarformaður Glitnis, banka sem þurfti að sjá á eftir átta starfsmönnum í fangelsi þar sem þeir afplánuðu samtals 19 ára vist eftir hrun. Hér virðist mega greina munstur. Af því má ráða þá hættu sem menn taka þegar þeir fara í útreiðartúr á tígrisdýri. Útvegsmenn hafa gleypt þingmenn í kippum líkt og bankarnir gleyptu þingmenn með húð og hári fyrir hrun.
Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 veittu þingmönnum gott tækifæri til að slíta sig lausa og segja við útvegsmenn: Þjóðin hefur talað, þið þurfið að greiða fullt gjald fyrir kvótann. Alþingi fleygði þessu færi frá sér. Enn er þó von. Það er aldrei of seint að söðla um og breyta rétt.
Athugasemdir