Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var ósáttur við spurningu um hvort hann hefði glatað trausti kjósenda Sjálfstæðisflokksins í síðustu leiðtogaumræðunum fyrir alþingiskosningarnar á RÚV í kvöld.
„Mér finnst þetta í raun og veru vera alveg ótrúleg upptalning hjá þér, ef ég á að segja alveg eins og er,“ svaraði Bjarni.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttakona RÚV, spurði Bjarna: „En Sjálfstæðisflokkurinn, hann var 40 prósenta flokkur fyrir nokkrum árum síðan, nú berjist þið við að halda ykkur yfir 20 prósentum. Undanfarin ár hefur hvert hneykslismálið á fætur öðru riðið yfir flokkinn, og sum þessi hneykslismál hafa verið tengd þinni persónu. Ég er að nefna til dæmis bæði Vafningsmálið og Panamaskjölin, og nú síðast Ásmundarsalarmálið. Hefurðu glatað trausti kjósenda Sjálfstæðisflokksins og hefurðu einhvern tímann íhugað að hætta formennsku?“
Að sögn Bjarna hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki notið slíks fylgis í hans tíð.
„Í fyrsta lagi að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í 40 prósentum. Eigum við aðeins að koma í nútímann. Eigum við aðeins að spyrja okkur, hvað hefur gerst síðastliðin tíu ár? Hversu langt aftur eigum við að fara aftur til þess að spyrja okkur, hvað er eðlilegt fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Ég er búinn að vera í 18 ár. Hann hefur aldrei fengið 40 prósent í 18 ár, á meðan ég hef verið. Og á meðan ég hef verið, í tólf ár, þá höfum við verið á þessu bili. 23,6 upp í 29. Og við erum þar í þessari könnun, þannig að það er engin dramatík, það er ekkert stórkostlegt að gerast. Og þessi mál sem þú nefnir. Ég hef mætt hingað nógu oft og svarað fyrir þau og ég hef gengið undir dóm kjósenda mjög oft. Við erum stærsti flokkurinn. Við eigum fyrsta þingmann í hverju einasta kjördæmi í dag. Og við erum bjartsýn fyrir morgundaginn. Þannig að ég hélt ekki að ég væri að fara að koma hingað til þess að ræða mál sem við töluðum um fyrir kosningarnar 2013. Við erum að tala hér um framtíðina. Uppgjör á þessu kjörtímabili og horfa til framtíðar, og við erum spennt fyrir framtíðinni. Og það eru kjósendur líka.“
Í nýjustu könnun Gallup, sem kynnt var í kvöld, hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn 23,4% stuðning.
Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar vilja 12,5% að Bjarni verði næsti forsætisráðherra, þótt Sjáfstæðisflokkurinn mælist með 22% stuðning í sömu könnun. 42% að Katrín Jakobsdóttir haldi stöðunni. Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að Katrín verði forsætisráðherra en Bjarni, samkvæmt könnuninni.
Athugasemdir