Tenging krónu við evru væri til þess fallin að auka gengisstöðugleika og auka fyrirsjáanleika í íslensku efnahagslífi. Þetta er mat Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, sem segir að nú séu tækifæri til að ráðast í þá aðgerð.
„Við erum að benda á leiðir til að gera matarkörfuna ódýrari, til að gera húsnæðislánin þannig að þau slygi ekki fólk,“ segir Þorgerður og segir jafnframt að ef Viðreisn komist í þá stöðu að taka þátt í viðræðum um ríkisstjórnarmyndun að afloknum kosningum muni flokkurinn ekki gefa eftir í Evrópusambandsmálum með sama hætti og gerðist við myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar eftir kosningarnar 2016.
Í viðtali í Kosningastundinni leggur Þorgerður Katrín jafnframt mikla áherslu á að kerfisbreytingar í sjávarútvegi, uppboðsleið og auðlindaákvæði í stjórnarskrá séu mál sem flokkurinn muni leggja höfuðáherslu á.
Þorgerður Katrín lýsir því jafnframt að sú gagnrýni sem hún mátti sæta eftir hrun hafi að mörgu leyti verið réttmæt. Hins vegar hafi þar verið gengið yfir strikið þegar setið var um heimili hennar og fjölskylda henna, börnin, sett í uppnám. „Mér fannst það erfitt, ég held að það sé það sem situr mest í mér.“
Gagnrýnir meðalmennsku ríkisstjórnarinnar
Þorgerður Katrín gagnrýnir sinn gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn, harðlega fyrir að vera flokkur kyrrstöðu og að hann taki stöðu með sérhagsmunum fram yfir almannahagsmuni. Sitjandi ríkisstjórn fær sömu einkunn. Sorglegt sé að horfa upp á jafn einstakan stjórnmálamann og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, sem Þorgerður Katrín segist bera ómælda virðingu fyrir, nota ekki sína pólitísku inneign sterkar en hún hafi gert. „Meira að segja í loftslagsmálum erum við að horfa upp á meðalmennsku.“
Spurð hvort hún útiloki í þessu ljósi að Viðreisn gangi til liðs við núverandi ríkisstjórnarflokka að loknum kosningum segir Þorgerður Katrín að hún útiloki ekki samstarf við neinn en muni beita sér fyrir að stjórnmálin færist inn á hina frjálslyndu miðju. „Með fullri virðingu þá eru Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn hvað fjærst okkur á hinu pólitíska litrófi,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að þó verið sé að vara við vinstri stjórn nú um stundir gjaldi hún varhug við að fara í hina áttina. „Ég vil vara sérstaklega við íhalds-hægri stjórn. Það er eitthvað sem er jafnvont og últra vinstristjórn.“
Glerþak yfir öllum málaflokkum í Sjálfstæðisflokknum
Í nýlegri skoðanakönnun mældist Viðreisn með 11,7 prósenta stuðning sem myndi skila flokknum um sjö þingmönnum í alþingiskosningunum undir lok þessa mánaðar. Í síðustu kosningum 2017 fenguð þið 6,9 prósent greiddra atkvæða og fjóra þingmenn kjörna. Hver eru þín viðbrögð við þessari og þeim könnunum sem hafa verið að koma Þorgerður?
„Þetta eru skoðanakannanir, það sem skiptir mestu máli er hvað kemur upp úr kössunum 25. september. Við stefnum að því að reyna að fá það mikið fylgi til að vera það afl sem þarf að okkar mati til að breyta í íslenskum stjórnmálum, að við förum frá þessari kyrrstöðu.“
Hvers vegna snerir þú aftur á þing?
„Það er kannski að pólitíkin hverfur aldrei úr manni. Ég þurfti að hætta 2013, ég taldi það rétt, þurfti að stíga til hliðar og endurmeta og endurskoða sjálfa mig. Ég fann að ég var ekki alveg tilbúinn á endanum til þess að hætta. En ég vildi samt ekki fara aftur inn án þess að skynja það að ég gæti ekki orðið afl til að breyta. Ég hef oft lýst því þannig að mér finnst ég vera frjálsari í dag heldur en ég hef verið áður í pólitík.“
Þér fannst þú þá ekki hafa þetta frelsi á meðan þú varst í Sjálfstæðisflokknum?
„Ég hef stundum lýst því þannig að glerþakið er ekki bara í jafnréttismálum í þeim flokki heldur glerþakið er yfir alla málaflokkana. Þú færð frelsi upp að þessu glerþaki. Ég fann fyrir þessu glerþaki og ég skynjaði að það var ekkert mikið að breytast.“
„Þú færð frelsi upp að þessu glerþaki“
Þorgerður Katrín sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins í apríl 2010, eftir umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um lántöku hennar og eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar, og fór í tímabundið leyfi frá þingstörfum. Hún gaf ekki kost á sér í kosningunum 2013.
„Krafan er sú að fólk hætti og segja af sér. Þá gerir maður það og ég hætti 2013 en ég ætla samt að vona að við séum þannig samfélag að þegar fólk stígur til hliðar og fer í svona ákveðna sjálfsrýni að fólk fái þá svigrúm, sveigjanleika, til að byrja aftur. Annars er það mjög skrýtið samfélag ef það er ekki þannig. Það verður þá til að að fólk í pólitík munu ekki axla ábyrgð. Það mætti kannski fleiri gera það þá.“
Sorglegt að fólk noti ekki sína pólitísku inneign betur
Nú var umræðan samt mjög óvægin á sínum tíma, bæði sættir þú harðri gagnrýni, fjölmiðla og almennings og svo varðst þú líka fyrir uppnefnum, ljótum nöfnum. Þurftir þú ekki að hugsa það vel og vandlega hvort þú værir tilbúin að snúa aftur inn á þetta svið?
„Gagnrýnin var með réttu að mörgu leyti, maður verður bara að horfast í augu við það. Sumt var ekki endilega réttlátt en annað var bara eitthvað sem við þurftum að horfast í augu við. Þetta var hluti af því sem maður íhugaði þegar ég kom inn aftur: Er ég að leggja meira álag á börnin, sem náttúrlega urðu fyrir ákveðnu aðkasti á sínum tíma. En um leið þá hugsaði ég: Ef ég geri þetta þá er verið að stjórna mér með óttanum og það er hluti af því, hvort sem er ég eða aðrir, að fólk í pólitík láti ekki hræða sig frá því sem sannfæringin er.
Ég hef ómælda ánægju af pólitík. Ég finn að ég hef kraftinn og ég finn líka að það er hægt að breyta og það er það sem mér finnst svo sorglegt þegar við horfum upp á pólitíkinni í dag og við horfum upp á jafn einstakan stjórnmálamann, sem ég ber mjög mikla virðingu, ómælda virðingu fyrir, eins og Katrínu Jakobsdóttir, þegar hún notar ekki sína pólitísku inneign betur og sterkar en hún gerir núna. Meira að segja í loftslagsmálum erum við að horfa upp á meðalmennsku.“
Þú segir að gagnrýni sem þú fékkst hafi að hluta til verið réttmæt,þannig að þú hefur væntanlega gert einhver mistök í þinni framgöngu á þessum árum?
„Ég er búinn að fara margfara yfir þetta í viðtölum og geri það að sjálfsögðu áfram. Ég held að það hafi verið ákveðin meðvirkni almennt í stjórnkerfinu og það er það sem ég hef sagt áður og farið yfir og er að reyna að nýta mér einmitt núna þegar maður hugsar um alls konar hluti sem eru núna að gerast.
Ég sagði einhvern tímann í einhverju yfirlætiskasti að einhver maður þyrfti að fara í endurmenntun. Ég held að ég hafi þurft, og hef sagt það við sjálfa mig, ég þurfti bara svolítið á henni sjálf að halda.“
Þannig að allt þetta er lærdómur?
„Ég held það. Fólki verða á mistök og það er í lagi svo lengi sem þú reynir að læra af því og horfast í augu við það og ekki hvítþvo sjálfan þig. Var sumt erfitt og óvægið? Já, mér fannst það erfitt þegar fólk var fyrir utan heimili mitt og setti fjölskyldu mína í ákveðið uppnám, ekki síst dóttur mína sem er varnarlaus. Mér fannst það erfitt, ég held að það sé það sem situr mest í mér.“
Krafan er réttlæti
Þú hefur tekið upp umræðu á Alþingi um vægi sérhagsmuna fram yfir almannahagsmuni og talað um að þessari ríkisstjórn sem situr núna hafi ekki aðeins mistekist að koma í veg fyrir að þessir hópar væru við völd, heldur að þeim hafi verið veitt þeim skjól. Hvað áttu við með því?
Er það ekki nokkuð ljóst? Eigum við að nefna auðlindaákvæði? Ég studdi eindregið þá vinnu sem sem Katrín Jakobsdóttir leiddi á meðal formanna. Síðan kemur í ljós að íhaldsflokkarnir sem eru með henni, sem sagt Framsókn og Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur, vilja ekki tímabindingu samninga.
Viljum við í Viðreisn kollvarpa kerfinu? Nei, það viljum við ekki af því að við erum þeirrar skoðunar, ólíkt til dæmis Pírötum og Samfylkingu, að kerfið sé hluti af því að auka hagkvæmni og skilvirkni innan sjávarútvegsins. En það verður ekki sundur skilið frá kröfunni um réttlæti, frá kröfunni um sanngirni, um það að þjóðin fái aukið gjald fyrir einkaafnot til útgerðanna af auðlindinni.
Við sjáum að hið opinbera fiskverð er 30 til 40 prósentum lægra heldur en það sem sjávarútvegsfyrirtækin eru að greiða. Það þýðir að núna er gjaldið eitthvað um 4,8 eða 4,9 milljarðar. Það er minna heldur en tóbaksgjaldið sem er greitt í ríkissjóð. Því er ekkert ólíklegt að þjóðin og ríkið geti fengið um níu milljarða í staðinn fyrir þessa 4,5 eða 5 milljarða.
Þið boðið að það verði gert með uppboðsleiðinni. Hver er ávinningurinn af henni?
„Við viljum veita fyrirsjáanleika fyrir greinina. Það er algjört lykilatriði. Tökum sem dæmi að við tökum fjögur prósent á hverju ári og það þýðir samningar til 25 ára. Þá ertu tryggður með að minnsta kosti 96 prósent og þú bara bíður í á hverju ári.“
„Það er einn flokkur sem er að fá eitthvað 20 til 25 prósent sem er að stjórna því hvernig þetta er. Mér finnst það ekki boðlegt“
En hvers vegna á þá aðeins að bjóða hluta kvótans upp? Snýst það þá um þennan fyrirsjáanleika?
„Já, ef þetta er allt kallað inn í einu, eins og eins og aðrir flokkar vilja, þá teljum við að það geti gengið af greininni dauðri og við viljum það ekki. Við viljum halda skilvirkni, við viljum halda hagkvæmni en við viljum fá réttlæti. Við viljum sanngirni og það er það sem við erum að fara með þessari leið.
Þegar ég var sjávarútvegsráðherra, beitti ég mér fyrir því að koma á þverpólitískri nefnd sem hóf vinnu í þessum málaflokki. Allir flokkar, allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn, ljáðu máls á því að setja á tímabundna samninga, að það yrðu gerðir samningar um auðlindina okkar. Og hvað gerist, enn og aftur? Það er einn flokkur sem er að fá eitthvað 20, 25 prósent sem er að stjórna því hvernig þetta er. Mér finnst það ekki boðlegt.“
Sjálfstæðisflokkurinn stoppar sátt um fiskveiðikerfið
Þannig að það er þessi skortur á frelsi sem þú varst að lýsa áðan í Sjálfstæðisflokknum, sem líka kemur í veg fyrir að það sé gengið til verks í því að ganga frá málum í sátt við þjóðina um fiskveiðiauðlindina?
„Mér finnst það nokkuð nokkuð einboðið að meðan að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki tilbúinn til þess að stíga eitt eða neitt skref til að reyna að ná þessari sátt í staðinn fyrir að fara alltaf í gaggið um það að auðlindagjaldið sé alltof hátt og sé að sliga allar útgerðir. Við sjáum að það er ekki rétt.“
En hvers vegna haldið þið að þið getið náð fram þessum breytingum núna?
„Það er kannski af því að við þorum að tala fyrir þessu. Hugsunin á bak við kerfið, sjálfbærni, kvótakerfið, framsal á milli, líka veðsetningarheimildir, þetta er allt saman af hinu góða. En þú getur ekki skilið hinn hlutann eftir. Við treystum okkur til að tala fyrir því að með núverandi kerfi er hægt að vinna. Það er hægt að gera það sanngjarnara og það er hægt að gera það þannig að bæði sjómenn og þjóðin fái hlut.“
Er þetta grundvallaratriði fyrir ykkur, upp á stjórnarþátttöku til dæmis?
„Já, þetta mun vega mjög þungt í okkar viðræðum, ef og þegar við komumst í stjórnarmyndunarviðræður. Það verður mjög erfitt að hvika frá þessari afstöðu okkar um að við verðum að sjá sterk og stór skref tekin í þessa veru.“
Segir Sósílistaflokkinn vera að draga flokkana til vinstri
Þú ert búin að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir skort á frelsi og framsýni. Þú ert búinn að gagnrýna sitjandi stjórn fyrir að hún sé kyrrstöðustjórn og sé ekki tilbúinn til að ráðast í breytingar. Útilokar þú það að starfa með þessum flokkum, að verða fjórði aðili í ríkisstjórn þessar flokka?
„Ég hef sagt það ítrekað að ég útiloka ekki samstarf við neinn. Ég hins vegar mun beita mér fyrir því, hvort sem það eru Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkur eða aðrir flokkar sem eru á jaðrinum, að það verði meiri þungi inn á hina frjálslyndu miði. Þessi ríkisstjórn starfar á jöðrunum.“
„Þessi ríkisstjórn starfar á jöðrunum“
En tökum til dæmis Sósíalistaflokkinn, sem boðar að brjóta eigi upp stórútgerðirnar. Sérðu fyrir þér að þið getið unnið saman?
„Nei. Það liggur alveg ljóst fyrir og við Gunnar Smári erum búin að hittast nokkrum sinnum í samtali eða kappræðum og það er alveg ljóst að við erum flokkur sem við erum á öndverðum meiði. Með fullri virðingu þá eru Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn hvað fjærst okkur á hinu pólitíska litrófi.
Mér finnst vinstrið að verða meira til vinstri og svo bara getið þið giskað á hvaða flokkar það eru sem mér finnst vera meira til vinstri. Sósíalistaflokkurinn er að draga flokkanna til vinstri meira til vinstri. En ég er algerlega á móti þeirri nálgun sem þau eru að boða í sjávarútvegskerfinu.“
En ef Sósíalistaflokkur Íslands er að draga vinstrið til vinstri, þrengir það þá ekki í raun og veru að ykkar valkostum eftir kosningar?
„Við höfum oft talað um hægri hagstjórn, vinstri velferð og við vorum að reyna að samþætta það. Það er verið að vara við vinstri stjórn. Já, það er alveg hægt, miðað við þá flokkasenu sem við erum að horfa upp á núna, að taka undir þá gagnrýni. En ég vil líka halda um leið uppi þeirri gagnrýni að ég vil vara sérstaklega við íhalds hægri stjórn. Það er eitthvað sem er jafnvont og últra vinstristjórn. Þunginn á hina frjálslyndu miðju, það er þangað sem sem við erum að beina okkar kröftum.“
Evrópumálin verða ekki gefin eftir
Árið 2016 myndaði Viðreisn ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð þar sem ykkar helstu mál voru gefin eftir, það er að segja aðildarumsókn að Evrópusambandinu og markaðsverð fyrir fiskveiðiauðlindina. Hversu líklegt er að Viðreisn fari aftur inn í ríkisstjórn og gefi sín lykilmál eftir?
„Ég held að við lærum einmitt svolítið af þeim ríkisstjórnarviðræðum en við verðum líka að átta okkur á því að þetta var eftir mjög mikið þóf. Þetta var mjög erfið stjórnarmyndun og hún var bara með eins manns meirihluta. Það er alltaf erfitt. Ég held einmitt að við lærum af því að það kann að vera að þessi eftirgjöf sem fólki fannst vera til dæmis varðandi Evrópumálin í því stjórnarsamstarfi hafi verið einfaldlega of mikil.“
Hversu mikilvægt er Evrópusambandið fyrir Viðreisn? Mynduð setja það fyrir ykkur við stjórnarmyndun.
„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta er stórt og mikið mál. Það tekur tíma. Við erum að leggja áherslu á núna einfaldlega ódýrara Ísland, einfaldlega það að við getum gert ríkissjóð sem fyrst sjálfbæran. Það er verið að skila ríkissjóði núna samkvæmt fjármálaáætlun með meira en fimmtíu milljarða halla. Við erum að benda á leiðir til að gera matarkörfuna ódýrari, til að gera húsnæðislánin þannig að þau slygi ekki fólk og við höfum miklar áhyggjur núna af þeim vaxtahækkunum sem eru strax farnar af stað, hvaða áhrif það muni hafa á unga fólkið, sérstaklega sem var að kaupa sér íbúðir núna bara á síðasta ári og síðustu tveimur árum. Við erum að einblína á það og það gerum við með því að gera gagnvirka samninga við Evrópusambandið um að tengja krónuna við evru, reyna að leita í smiðju Dana. Það sem skiptir okkur mestu máli er gengisstöðugleikinn og fyrirsjáanleikinn.“
Segir Viðreisn ekki skila auðu
Þarna ertu farin að tala um efnahagsstefnuna og sumsé Evrópusamvinnuna sem kannski stærsta bitann í efnahagsstefnu ykkar. Þið leggið mikla áherslu á að í kaflanum í ykkar stefnuskrá en það tekur tíma að fara í tvíhliða samninga við Evrópusambandið um að tengja gengi krónu við evru...
„Minni tíma heldur en að taka upp evru. Þess vegna leggjum við áherslu á þetta.“
En finnst þér þá ósanngjarnt að draga þá ályktun að í efnahagsstefnu ykkar sé því sem næst skilað auðu, eða alla vega að fáar handfastar aðrar aðgerðir séu kynntar til sögunnar?
„Þetta tekur minni tíma en að við förum í miklar skattahækkanir eða niðurskurð og þær afleiðingar sem eru af miklum niðurskurði, til að mynda í velferðarmálum og fara í skattahækkunarferli eða fara í það að flækja skattkerfið núna akkúrat á þessum tímapunkti. Nei, við erum ekki að skila auðu. Við erum náttúrulega búin að segja það sem við ætlum að gera varðandi sjávarútveg og teljum að það sé hægt að auka þar. En við teljum líka að það sé hægt að gera betur varðandi nýtingu fjármuna ríkisins.“
Nú hafði þið talað um að draga úr ríkisumsvifum og að auka einkarekstur. Á hvaða sviðum mynduð þið vilja draga úr og hvar viljið þið auka einkarekstur?
„Ef við tökum heilbrigðiskerfið sem dæmi, þar erum við eiginlega næstum því á öndverðum meiði við ríkisstjórnina og þá stefnu sem ríkisstjórnin öll rekur. Það þýðir ekki að benda bara á Svandísi Svavarsdóttur, Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt eindregið þessa stefnu, bæði með samþykkt í fjárlögum en líka alls konar breytingar í ríkisstjórninni sem slíkri. Við viljum sterkt opinbert heilbrigðiskerfi samhliða einkarekstri. Við viljum miklu frekar vera áfram í norræna módelinu en ekki fara frá því og við óttumst það ekki að segja: Við viljum ekki tala um einkavæðingu eða ríkisæðingu, við viljum þjónustuvæðingu.“
„Ég heyri það að til að mynda Sjálfstæðisflokknum finnst rosalega erfitt að allt í einu sé hann líka látinn bera ábyrgð á þessum ólestri í heilbrigðismálum“
En nú er þetta miklu lengri saga, varðandi geðheilbrigðismálin, Landspítalann, niðurgreidda sálfræðiþjónustu til að mynda. Þetta er búið að vera í ólestri til lengri tíma. Hver ber ábyrgð á því?
„Já, já, þetta er alveg réttmæt spurning og ég heyri það að til að mynda Sjálfstæðisflokknum finnst rosalega erfitt að allt í einu sé hann líka látinn bera ábyrgð á þessum ólestri í heilbrigðismálum. En Sjálfstæðisflokkurinn er í undanfarin átta ár meira og minna búinn að vera með fjármálaráðuneytið. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér við ríkisstjórnarborðið eða í samþykkt nýrrar heilbrigðisáætlunar til 2030 eða í öðrum áætlunum varðandi heilbrigðismál, að það eigi að nálgast þetta með öðrum mætti? Nei, hann hefur ekki gert neitt í þessu.
Þess vegna er þetta hlálegt, ekki korteri fyrir kosningar heldur fimm mínútum fyrir kosningar, að allt í einu hvítþvo sig af þeim ólestri sem er að vissu leyti í íslensku heilbrigðiskerfi. Vel að merkja, í grunninn er það auðvitað sterkt en það er alveg óþolandi að horfa upp á óþarfa biðlista af því það er kergja í kerfinu.“
Vilja einfalda skattkerfið
Ein þau vandræði sem íslenska heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir eru vanfjármögnun. Þið hafið talað um að þið viljið lækka skuldir ríkissjóðs. Hvernig á að afla ríkissjóði tekna?
„Með því að veita fyrirtækjunum svigrúm. Meginverkefni okkar til að ríkissjóður geti staðið undir velferðarkerfinu er að atvinnulífinu gangi vel. Atvinnulífið verður að fá viðspyrnu, fá svigrúm til að geta hlaupið hraðar. Hvernig gerum við það best? Það gerum við best með því að vera hér meðal annars með gengisstöðugleika. Það er algjört lykilatriði að að fyrirtæki komi hingað, erlend fyrirtæki geti komið hingað og fjárfest, að fjárfestar hér heima geti farið í það að fjárfesta meira í íslensku atvinnulífi, með það í huga að vera ekki með í með mikinn ófyrirsjáanleika og óróa á markaði. Við getum látið atvinnulífið hlaupa hraðar þannig að hagvöxtur verði meiri heldur en vextirnir.“
Þið talið um að þið ætlið að beita hóflegri og sanngjarnri skattlagningu. Hvað eigið þið við með því? Hvað er hóflegt og hvað er réttlátt?
„Ég held að við notum þennan alþjóðlega samanburð bara. Við erum ekki ekki lágskatta land en við erum heldur ekki háskattaland. Ég held að við séum með kerfi sem að mínu mati mætti einfalda. En í stóru myndinni þá höfum við ekki farið þær leiðir sem til dæmis aðrar þjóðir hafa farið, til að mynda á Norðurlöndunum. Við erum með prógressít skattkerfi. Já, það er ágætt upp að einhverju vissu marki, ég myndi samt eins og ég segi vilja sjá það einfaldara. Norðurlandaþjóðirnar eru með kannski einfaldara skattkerfi en eru um leið með meiri styrki og stuðning við þá sem á þurfa að halda.“
„Ef það er eitthvað sem við þurfum núna er það að einfalda kerfið“
Þú ert á því að einfaldara skattkerfi væri til bóta. En hvað með til dæmis skatt á fjármagnstekjur? Sérðu fyrir þér þrepaskiptinu á þeirri skattheimtu?
„Ég get séð fyrir mér ýmsar breytingar á skattkerfinu. Það sem ég vil ekki gera er að að við tökum ekki heildstætt á málinu. Ef það er eitthvað sem við þurfum núna er það að einfalda kerfið, gera það einfaldara þannig að það verði auðveldara fyrir fólk og fyrirtæki að starfa í landinu.“
En er eitthvað flókið að starfa í þrepaskiptu kerfi skattalega?
„Nei, nei, ég er ekki að segja það. En ég vil ekki taka þátt í þessari umræðu, að flækja skattkerfið enn frekar með ýmsum tillögum sem geta verið settar fram með góðum hug ef það er til að flækja skattkerfið og ég man ekki eftir einhverjum skattstofni sem er lagður á sem hefur á endanum bitnað á neinum öðrum heldur en meðaltekjufólki.“
En finnst þér þá ástæða til að skattleggja fjármagnstekjur hærra?
„Eins og ég segi, ég myndi vilja taka þátt í því að skoða þetta heildstætt, ég reiðubúin í það. Ég er reiðubúinn til að skoða heildstætt þannig að ríkissjóður geti orðið sjálfbær.“
Mikilvægast að koma ríkissjóði á réttan kjöl
Ef þú kemst til valda, hvað er það allra brýnasta sem þú vilt leggja áherslu á?
„Að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Að auka viðspyrnu í atvinnulífinu, þannig að við aukum svigrúm og öryggi fólks, meðal annars fjárhagslegt öryggi fólks. Ég vil sjá fleiri fyrirtæki verða að veruleika og ég vil sjá það verða betra að búa á Íslandi, að við horfum upp á samkeppnishæf lífskjör. Það er svona stóra þunga áherslan
Ef á að nefna eitthvað eitt mál, bara strax, kviss búmm bang, þá segi ég bara það sem ég hef sagt áður. Strax að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það tekur ekki langan tíma og við eigum að keyra það í gegn. En það er einn ríkisstjórnarflokkur sem hefur staðið gegn því. Það er eitthvað sem við gætum gert fljótt og hratt og kerfið ætti ekki að vera að þvælast fyrir.“
Athugasemdir