Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Ætla að sækja 70 milljarða í lífeyrissjóðskerfið

Inga Sæ­land svar­ar fyr­ir stefnu Flokks fólks­ins í Kosn­inga­stund­inni. Hún seg­ir flokk­inn ætla að láta líf­eyr­is­sjóði greiða stað­greiðslu­skatta af ið­gjöld­um í sjóð­inn frek­ar en við út­greiðslu, líkt og er gert í dag. Þannig sér hún fyr­ir sér að færa 70 millj­arða tekj­ur úr fram­tíð­inni og til notk­un­ar strax í dag.

Inga Sæland, formaður flokks fólksins og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir það ófrávíkjanlega kröfu flokksins að færa skattleysismörk upp í 350 þúsund krónur með tilfærslu á skattbyrði til tekjuhærri einstaklinga. Það sem upp á vatnar í fjármögnun á að sækja til banka og útgerða en líka með því að rukka staðgreiðslu á iðgjöldum fólks í lífeyrissjóði. 

Hún trúir því ekki að það muni skerða fjárfestingagetu sjóðanna, þeir séu svo stórir fyrir, en jafnvel þó að það væri raunin, telur hún eldri borgara dagsins í dag eiga skilið að fá þá þjónustu og úrræði sem hún ætlar að fjármagna með tilfærslunni.

Flokkur gegn fátækt

Inga stofnaði Flokk fólksins árið 2016 en í kosningum það ár fengu þau 3,5 prósent atkvæða og engan þingmann. Ári síðar, þegar boðað hafði verið til kosninga eftir að upp úr slitnaði í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, jókst fylgi Flokks fólksins í 6,9 prósent sem tryggði fjóra þingmenn. Nú mælist flokkurinn þó í fallhættu. 

„Já, en samt sem áður með meira fylgi heldur en við höfum nokkurn tímann séð fyrir kosningar. Við vorum með 3,4 prósenta fylgi fyrir kjördag 2017 og upp úr kjörkössunum fengum við tæp 7 prósent, 6,9 að mig minnir og 4 þingmenn.

Nú ef að okkar góðu áhorfendur eru ekki búnir að gleyma þá rákum við helminginn af þingflokknum snemma á kjörtímabilinu. Auðvitað var það áfall fyrir svona nýjan, ungan og smávaxinn stjórnmálaflokk en þar réðu í rauninni okkar hugsjónir og prinsipp. Við líðum ekki svona framkomu eins og átti sér stað á Klaustur bar.“

Hefur fyrirgefið Klaustur

Talandi um Klaustur bar, er þetta mál sem er er búið að gera upp? 

„Ja, sko. Ég er til dæmis sú sem fékk titilinn húrrandi klikkuð kunta eins og kannski allir ættu að muna. En jú, þetta er komið aftur fyrir. Það er bara áfram veginn hjá Flokki fólksins. Við erfum ekkert svona eitt eða neitt og bara eiginlega, ég segi þetta bara núna, en almenna reglan er sú að við erum ekki að leiða hugann að þessum tíma, hann er liðinn, og við erum sátt við hvernig við brugðumst við, hvernig við tókum að málum. Þannig er nú það,“ svarar hún.

En eins og þú nefndir, þið settuð niður eitthvað svona prinsipp, þið dróguð einhverja línu í sandinn. Það hlýtur að fylgja ykkur samt áfram, er það ekki? Þetta er eitthvað prinsipp sem þið eru hörð á, hvernig fólk talar og hvernig það kemur fram?

„Alla vega að þessu leyti til erum við með tvo kjörna fulltrúa inni á Alþingi með okkur sem voru í rauninni að fara líka, ekki bara tala illa um okkur heldur voru þeir að tala illa um aðra samstarfsmenn og fólk sem átti bágt í samfélaginu, öryrkja, og fólk sem við erum að berjast fyrir. Það væri eiginlega bara allt of mikið og svo sýndu þeir enga iðrun, það var engin afsökunartónn í því. Og meira að segja fóru yfir í annan stjórnmálaflokk og við vissum að þeir voru á leiðinni þangað allan tímann. Þetta fór bara eins og það fór.“

Hóf ferilinn eftir útvarpsfréttir

Þingkosningarnar nú eru þær þriðju sem Flokkur fólksins býður fram í en auk þess á flokkurinn fulltrúa í borgarstjórn. Inga hefur sjálf leitt flokkinn frá upphafi og er að mörgu leyti andlit hans og holdgervingur. En hvar var hennar innkoma í pólitík? Hver var leiðin Ingu í þessa stöðu?

„Leið mín er í rauninni í janúar 2016. Þegar ég kem heim úr skólanum, þá er ég í háskólanum að læra lögfræði, og aldrei þessu vant var kveikt á hádegisfréttunum. Þá heyri ég að UNICEF er að kynna skýrslu sína varðandi stöðu íslenskra barna sem þá benti til og sýnir fram á að 9,1 prósent íslenskra barna líða mismikinn skort. Og svona þér að segja í einlægni sagt: þá bara trúði ég þessu varla. Þetta var svo hræðilegt.

Inga þekkir fátækt af eigin raun og segir þjóðfélag sem líði fátækt vera vont þjóðfélag. Hún segir að flokkurinn hafi þegar lagt fram fjölda mála sem sýni hvernig eigi að útrýma fátæktinni. Fyrir þessar kosningar er loforð um 350 þúsund króna skatta- og skerðingamörk fyrirferðarmest. Slegið hefur verið á að það myndi kosta á annað hundrað milljarða króna í framkvæmd. 

Fallandi persónuafsláttur á móti

Inga segir að misskilningi hafi verið haldið á lofti varðandi kostnaðinn við skattaloforð flokksins.

„Það er ekki það sem við höfum verið að mæla fyrir okkar frumvörpum að ætla að setja ríkissjóð á hausinn og koma skattleysismörkum fyrir alla í 350 þúsund krónur. Þvert á móti erum við að tala fyrir fallandi persónuafslætti þannig að þeir sem eru ríkir og eru komnir í hæstu skattþrep, þeir einfaldlega verði af sínum persónuafslætti.

Hann verður fluttur í kerfinu til þeirra sem þurfa meira á honum að halda, sem er fátæka fólkið sem við erum að berjast fyrir, sem er hér múrað inni í alveg hrikalegum fátæktargildrum og ég hefði bara ekki trúa því, ég hefði ekki trúað því fyrr en eftir að ég kem á þing hversu ofboðslega stórt þetta verkefni er. Hversu mikil bágindi eru úti í samfélaginu. Hversu illa stjórnvöld hafa komið fram við fólkið sitt en það er staðreynd.“

Jafnvel að teknu tilliti til tilfærslu á skattbyrði á milli tekjuhópa, líkt og flokkurinn reiknar með, vantar enn tugi milljarða til að fjármagna loforðið. Á að skera niður?

„Nei, í fyrsta lagi þegar ég hef verið að tala um bankaskattinn. Það er búið að lækka bankaskattinn núna á kjörtímabilinu um ríflega fjóra milljarða. Í stað þess að hann væri 15 komma eitthvað milljarðar. Þá var hann 11 rúmlega. Það er búið að lækka veiðigjöldin úr ríflega 11 milljörðum króna í upphafi kjörtímabils, núna í 4,7. Bara þarna er þessi ríkisstjórn búin að skerða tekjurnar um ríflega ellefu milljarða króna með því að hygla þeim sem hafa akkúrat ekkert með það að gera; stórútgerð og bankakerfinu.“

Sækja í lífeyrissjóðina

Þá standa samt eftir, bara með ykkar eigin tölur og meira að segja um lægri skattleysismörk, tuttugu milljarðar.

„Við erum með miklu fleiri milljarða heldur en þetta,“ segir hún og vísar á lífeyrissjóðina, sem hún vill að greiði staðgreiðsluskatta af iðgjöldum. „Lífeyrissjóðir sem eiga tæplega 6.200 milljarða króna. Lífeyrissjóði sem eru að taka inn ríflega 200 milljarða króna á ári, lífeyrissjóði sem þurfa að fjárfesta við 17 milljarða króna á mánuði, lífeyrissjóði sem eiga orðið um 48 prósent af öllum hlutabréfaeignum inn í Kauphöll Íslands, lífeyrissjóði sem fara með þína fjármuni sem þú ert lögþvingaður til að greiða í hvort sem þér líka betur eða verr, fara með það eins og sína eigin.“

Í dag er staðgreiðsla tekin af útgreiðslu úr lífeyrissjóðum og segir Inga það skila um 30 milljörðum í skatttekjur árlega. „Ef við myndum hins vegar afnema undanþágureglu þannig að við tækjum staðgreiðsluna við innborgun þá myndum við fá viðbótar 70 milljarða króna inn í ríkissjóð,“ segir hún.

„Á gamla fólkið og eldri borgarar í dag að blæða fyrir komandi kynslóðir? Við höfum hingað til staðið okkar plikt sjálf bara á staðtíma, ekki satt?“

Og að hlusta á rökin sem er verið að segja að þá séum við jafnvel að skerða mögulega réttindi komandi kynslóða, það sé verið að fjölga hér öldruðum og fækka höndunum sem eru að vinna fyrir velferðinni, þá segjum við á móti: Hvers vegna? Á gamla fólkið og eldri borgarar í dag að blæða fyrir komandi kynslóðir? Við höfum hingað til staðið okkar plikt sjálf bara á staðtíma, ekki satt? Fullorðna fólkið okkar sem er hér hneppt í fátækt hefur ekki einu sinni búsetuúrræði. Ég held að það séu um 140 eldri borgarar sem eru tilbúnir að fara heim og útskrifast af Landspítala háskólasjúkrahúsi sem liggja þar í mismunandi þægilegu úrræði,“ segir hún.

„Flokkur fólksins segir einfaldlega þetta: ef það er virkilega það sem ríkisstjórnin, og ríkisstjórnir undanfarinna áratuga, vill leggja áherslu á, að þeir sem hafi bognu bökin eigi að halda hér samfélaginu uppi með því að vera ekki bara píndir þegar þeir eiga ekki fyrir salti í grautinn, heldur að horfa á raðirnar lengjast fyrir utan hjálparstofnanir, ef þeir eru að senda þau skilaboð út í samfélagið að við getum ekki fjármagnað því annars muni þjóðarskútan fara á hausinn, þá segir Flokkur fólksins, mikið ofboðslega eigum við bágt og mikið ofboðslega eru þetta vond stjórnvöld sem taka illa utan um þá sem þeir eiga fyrst og síðast að halda utan um og vernda almannahagsmuni alla í landinu, ekki bara suma, alla.“

Tilfærsla á tekjum í tíma

En milljarðarnir sem ná á í með þessum hætti eru eðli málsins samkvæmt ekki nýjar og auknar tekjur. Þetta er tilfærsla á tekjum í tíma.

„Þetta er ekki einungis tilfærsla á tekjum í tíma. Þetta er tilfærsla á tekjum í staðtíma þannig að þegar við þurfum á þessu fjármagni að halda, núna, frekar en kannski einhvern tímann seinna, þá er það vel þegið fyrir þá sem eru að hokra hérna. Það segir sig alveg sjálft, þetta eru eigendur lífeyrissjóðanna. Eldri borgararnir okkar sem eru hérna núna í fátækt.“

Þú ert beinlínis að tala um að taka peninga sem kerfið gerir ráð fyrir að skili sér seinna meir, taka það út núna, þú ert að seilast aðeins fram í tímann og taka peninga af framtíðarkynslóðum.

„Ég er að gera það og til þess að rökstyðja það enn þá frekar þá get ég líka sagt þér það: Ég veit ekki töluna á þeim lífeyrissjóðseigendum sem ég hef tjáð mig við og talað við og spurt út í þetta, hvort hefði ykkur þótt betra þegar þið voruð ung, fersk og starfandi, að greiða staðgreiðsluna eða núna þegar þið eruð að fá nánast ekkert útborgað og samt er tekin af því staðgreiðsla?“

Inga vill líka að lífeyrissjóðsgreiðslur verði skilgreindar sem eign samkvæmt 72. grein stjórnarskrárinnar sem fæli í sér að lífeyrissjóðseign erfðist á milli kynslóða. Hún hafnar því einfaldlega að þessar aðgerðir hefðu afgerandi áhrif á rekstur sjóðanna. 

„Að ætla að halda því fram að af sjóði sem er á sjöunda þúsund milljarða – margföld íslensku fjárlögin – halda því fram að 70 milljarðar á ári við staðgreiðslu við innborgun muni gera eitthvað sem skerði í rauninni lífeyrisréttindin eða hvaðeina annað sem er.

Nei, það er rangt. Það er bara okkar sannfæring. Og þó svo væri, skulum bara gefa okkur það að það væri allt rétt, þó svo væri þá teljum við það þess virði vegna þess að þetta fé mun hjálpa þúsundum og aftur þúsundum Íslendinga út úr þessum rammgerðu múrum fátæktargildrunnar sem er búið að múra þá inn í,“ segir hún. 

Til í að leysa kerfið upp

Miðað við málflutninginn, ertu þá ekki alveg eins til í að leggja það til að leysa þetta kerfi upp? Það virðist vera margt gagnrýnivert við þetta í þínum huga?

„Jú, akkúrat, ég væri afskaplega mikið til í að leysa þetta kerfi upp. Ég væri afskaplega mikið til í að hafa það þannig að það fengi ígildi eignarréttar að þegar löggjafinn kemur og þvingar því til að gera eitthvað gegn þínum vilja og þú verður að fara að lögum og þar með að greiða í lífeyrissjóði, þá vil ég absalútt að þetta sé þinn eignarréttur, enda líka er þetta í gegnum kjarasamninga.

Þetta eru launin sem þú ert að vinna þér inn og ef þú deyrð frá þeim áður en þú færð útborgað þá eru þau ekki einu sinni erfanleg af því að þeir eru búnir að setja þetta form samtryggingarsjóðs sem þarf þar af leiðandi ekki að setja undir hatt 72. greinar um eignarrétt stjórnarskrár. Þannig að jú, mér finnst þetta kerfi mjög gallað og ég tel að það geti nýst okkur eigendum sínum miklu betur en það gerir. Ég tel að það sé það risavaxið og svo stórt að það eigi að geta hjálpað til, ekki bara við að fjárfesta í byggingum á húsnæði fyrir eigendur sína og til að koma þeim í öruggt skjól, heldur líka til að hjálpa okkur að útrýma fátækt.“

Reynslutími til að hvetja öryrkja

Flokkurinn leggur áherslu á að hækka frítekjumark eldri borgara og draga úr skerðingum til þeirra til að hvetja þá til þátttöku á vinnumarkaði. Einnig er lagt til að öryrkjar fái að vinna á vinnumarkaði án þess að örorkubætur skerðist eða örorkulífeyrir skerðist í tvö ár.

„Það er stórkostlegt mál. Sem ég veit það á eftir að taka utan um. Ég hef fulla trú á að það verði tekið utan um það einmitt á næsta kjörtímabili,“ segir Inga og bætir við að þau hafi fengið ítarleg gögn frá sænskum og hollenskum sérfræðingum.

„En til að gera langa sögu stutta: Það voru yfir þrjátíu prósent af sænskum öryrkjum sem reyndu fyrir sér og fengu aðlögun í þessu kerfi, sem skiluðu sér ekki aftur inn á almannatryggingakerfið eftir að þessum aðlögunartíma lauk.

Þetta kostar ekki krónu. Þessi aðgerð kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu vegna þess að allt þetta fólk er á örorkubótum eða réttara sagt með þessi laun almannatrygginga, hvort heldur sem er. Eini munurinn er að við erum að hvetja þau til að reyna fyrir sér, reyna að efla þau til dáða, reyna að virkja þennan mannauð og í rauninni verðlauna þau fyrir það með því að vera ekki að skerða almannatryggingarnar á meðan þau eru að koma aftur undir sig fótunum.“

Engin umhverfisstefna

Annað mál sem er fyrirferðarmikið í umræðunni, en ekki svo á stefnuskrá Flokks fólksins, eru umhverfismálin. Inga er þó gagnrýnin á aðgerðir núverandi stjórnvalda og segir holan hljóm í málflutningi Vinstri grænna og nefnir í því samhengi að kol séu brennd á Bakka til orkuframleiðslu. 

En geturðu nefnt mér bara tillögur sem þið leggið til til þess að bregðast við loftslagshlýnun, þessum umhverfisvanda? Hvað ætlið þið að gera, ekki hvað hinir eru að gera, heldur hvað ætlið þið að gera?

„Við höfum ekkert myndað okkur neina sérstaka fasta stefnu. Við höfum hins vegar bara einfaldlega sagt þetta: á meðan það eru engar betri lausnir í boðinu heldur en að taka núna 50 milljarða á næstu fimm árum inn í fjármálaáætlun á meðan þeir eru að selja frá okkur hreina kvótann okkar, hreina loftslagskvótann okkar og við lítum út fyrir að menga mest per haus í Evrópu út af því að við erum að brenna hér, á ímyndaðri kjarnorku og helling af kolum, á meðan þeir eru að selja í rauninni sál okkar, þá  þá finnst mér rosalega erfitt, og okkur í Flokki fólksins, að teikna upp einhverja stefnu sem þeir eru ekki tilbúnir að fylgja sjálfir og við segjum; fólkið fyrst og svo allt hitt.

Verum dugleg að moka ofan í skurðina, verum dugleg að planta trjám, verum dugleg að hjálpa jörðinni okkar, landinu okkar að hreinsa sig. Við erum ekki þau sem eru að menga mest en við viljum ganga á undan með því góða fordæmi sem við eigum að gera og sem við getum gert á alþjóðavettvangi með okkar grænu hreinu orku. En við gerum það ekki. Við göngum ekki á undan með góðu fordæmi.

Í boði þessara stjórnvalda erum við að selja frá okkur upprunavottorðin okkar, hreinu orku okkar til samfélaga og sem menga einmitt vegna kjarnorku og kola. Ég vildi gjarnan að við fengjum að standa uppi í stafni eins hrein og tær og við erum og sýna þannig fordæmi fyrir heiminn, hvernig við raunverulega erum.“

En Ísland er búið að skuldbinda sig til að draga úr losun líka. Hvernig ætlum við að gera það?

„Til dæmis myndi ég byrja á því að setja rafmagn í skemmtiferðaskip. Hvað með það? Eru ekki hundrað og fjörutíu kannski að koma á ári. Það er engin smá mengun. Við erum að moka ofan í skurði og við eigum að planta trjám og við í raun og veru, mér líst ekki á 66.000 tonn af kolum á Bakka. Ég held það ætti að breyta aðeins mengunarvaldinu þar og stjórnvöld ættu fyrir langa, löngu, sem er svona ofboðslega um að breyta ástandinu til batnaðar, þeir ættu þá að sýna það í verki með því einmitt að reyna að girða fyrir þá mengun til þess að byrja með. En í stóra samhenginu þá erum við eins og þú veist lítil en við verðum að standa við okkar skuldbindingar. Það er þannig.“

Ekki á móti útlendingum

Nýlega birtist könnun MMR um afstöðu Íslendinga til flóttamannamála. Þar kom í ljós að tveir flokkar sem bjóða fram skera sig verulega úr, stuðningsmenn þeirra – þessara tveggja flokka – telja að við séum að taka á móti of mörgum flóttamönnum. Það er afgerandi meirihluti á þeirri skoðun á meðal stuðningsmanna Flokks fólksins. Hver er afstaða flokksins og þín í þessum málum?

„Flokkur fólksins hefur aldrei nokkurn tíma verið á móti því að taka á móti fólki í neyð, aldrei nokkurn tímann. Ég veit ekki eiginlega hvernig í ósköpunum mér tókst hérna í byrjun kosningabaráttunnar held ég 2016 eða 17, þetta  er nú búið að vera ótrúlega mikið ævintýri hjá okkur á skömmum tíma, að klína því á okkur að við værum með einhverja útlendingaandúð.

Við höfum hins vegar stigið niður og sagt í sambandi við hælisleitendur: Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki að tala um flóttamenn þegar við erum að tala um það að vera að stíga niður fæti í sambandi við útlendinga. Það er ekki það sem við erum að segja og það er ekki það sem við erum að segja til dæmis eins og þegar maður er að gráta yfir því að sjá fólkið sem sleppur undan hryllingnum sem er í Afganistan, dettur í hug að maður sé ekki gjörsamlega niðurbrotinn og gjörsamlega miður sín að þurfa að skilja barnið sitt eftir annað eins? Ég vil bara sækja þetta fólk. Ég vildi sækja barnið og móður konunnar, þau eru grátandi og hrædd um hana og vita ekki hvað verður um hana. Ég meina, að halda það að við séum á móti því að taka á móti fólki á flótta, fólki í neyð, það er bara ljótt. Það er bara verið að klína á okkur einhverju sem pólitískir andstæðingar hafa gert frá degi eitt.

En í sambandi við hælisleitendur, já, ég vil ekki, við höfum talað um að við viljum koma með skýrar reglur hvað varðar það að hælisleitendur sem hingað koma, að þeir fái úrlausn sinna mála á sem skemmstum tíma. Þannig að við séum ekki, jafnvel, eins og ítrekað hefur komið í ljós, að ætla að fara að vísa fólki úr landi sem er búið að festa hér rætur, með börn í skóla, talandi íslensku, farin að vinna hér og allt, þá allt í einu sprettur upp einhver frá stjórnvöldum og segir: þið megi ekki vera hér lengur.

„Stjórnvöld eiga að vera með ókeypis íslenskunám fyrir alla sem þeir taka á móti og stjórnvöld eiga að sýna það í verki að þau séu að meina það að þau séu að taka á móti þessu fólki.“

Þetta er bara ljótt og þetta er mannvonska og á aldrei að eiga sér stað og þetta er í boði stjórnvalda. Það á að fjalla um mál þeirra sem eru velkomnir, það á að fjalla um það skýrt og skorinort og strax. Og það á að bjóða fólk velkomið. En ég efast um að þið áttið ykkur á því að meira að segja þeir sem stjórnvöld segjast vera að taka utan um og vera góðir við, þeir eru það ekki.

Meira að segja börnin okkar, nýbúarnir okkar, sem er í námi hér, fá tvo klukkutíma í viku til að læra íslensku. Þeim er fleygt inn í bekk, þar sem þau skilja ekki neitt og þegar þau eru níu ára eða tíu ára á að bæta á þau dönsku. Mörg þeirra eru meira að segja tvítyngd; tala tvö, þrjú tungumál. Þessum börnum líður illa. Stjórnvöld eiga að vera með ókeypis íslenskunám fyrir alla sem þeir taka á móti og stjórnvöld eiga að sýna það í verki að þau séu að meina það að þau séu að taka á móti þessu fólki. Hafa þetta ekki alltaf í þykjustunni eins og við erum að horfa upp á dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.

Fólkið okkar, Íslendingarnir okkar, sem eru af erlendum uppruna, er margt jaðarsett og þeim líður mörgum illa og það er ekki vegna þess að Flokkur fólksins hafa verið að mæla fyrir því, svo sannarlega ekki, heldur er það í boði stjórnvalda.“

Skattaloforðið ófrávíkjanlegt

Ein spurning að lokum: í komandi stjórnarmyndunarviðræðum, hvaða mál ætlar þú að setja á oddinn og verður ófrávíkjanleg krafa Flokks fólksins?

„350 þúsund króna lágmarksframfærsla skatta og skerðingarlaust fyrir þá sem eru hér á lægstu launum. Algerlega ófrávíkjanleg krafa. Það á enginn að þurfa að vera fátækur á Íslandi. Enginn. Og það er enginn ofrausn þegar fólk fær 350 þúsund krónur útborgað sem er að greiða hér 200 til 250 þúsund krónur í húsaleigu. Guð minn almáttugur. Það á næstum því ekkert eftir þrátt fyrir þessa upphæð, hvorki fyrir sig, börnin sín né neitt. Þannig að þetta er ekki ofris, það er lágmarkskrafa.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Kosningastundin

Guðmundur Ingi: Atkvæði greitt VG sé atkvæði greitt gegn hægri stjórn
FréttirKosningastundin

Guð­mund­ur Ingi: At­kvæði greitt VG sé at­kvæði greitt gegn hægri stjórn

Guð­mund­ur Ingi Guð­brands­son um­hverf­is­ráð­herra geng­ur sátt­ur frá borði þótt Vinstri græn hafi ekki náð mik­il­væg­um mál­efn­um í gegn. Helst sér hann eft­ir mið­há­lend­is­þjóð­garð­in­um en mun halda bar­átt­unni áfram og seg­ir lofts­lags­mál­in vera stærstu verk­efn­in á kom­andi kjör­tíma­bili. Þar þarf að grípa til að­gerða í at­vinnu­líf­inu og friða bæði hluta af landi og hafi.
Kristrún: „Það er ekki gott að hér verði einhvers konar samfélagsrof“
ViðtalKosningastundin

Kristrún: „Það er ekki gott að hér verði ein­hvers kon­ar sam­fé­lags­rof“

Kristrún Frosta­dótt­ir, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík suð­ur, seg­ir að hún hafi alltaf ver­ið jafn­að­ar­mað­ur í hjarta sínu þó hún hafi starf­að fyr­ir Við­skipta­ráð og fjár­mála­fyr­ir­tæki. Hún seg­ir að mik­il­vægt sé að efna­mik­ið fólk greiði meira til sam­fé­lags­ins og rök­styð­ur stór­eigna­skatta sem rétt­læt­is­mál og góða hag­stjórn.
Upplifði skort á heiðarleika í viðræðum við Katrínu síðast
FréttirKosningastundin

Upp­lifði skort á heið­ar­leika í við­ræð­um við Katrínu síð­ast

Þór­hild­ur Sunna Æv­ars­dótt­ir þing­mað­ur svar­ar í Kosn­inga­stund­inni fyr­ir stefnu og fer­il Pírata. Hún sér fyr­ir sér marga mögu­leika á rík­is­stjórn­ar­mynd­un, þrátt fyr­ir að úti­loka tvo flokka og setja skil­yrði um nýja stjórn­ar­skrá. Hún seg­ist hafa haft trú á Katrínu Jak­obs­dótt­ur fyr­ir síð­ustu stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur.
„Auðvaldið verður aldrei okkar samstarfsmaður“
ViðtalKosningastundin

„Auð­vald­ið verð­ur aldrei okk­ar sam­starfs­mað­ur“

Katrín Bald­urs­dótt­ir, odd­viti Sósí­al­ista­flokks­ins í Reykja­vík Suð­ur, seg­ir að Sósí­al­ista­flokk­ur­inn sé bú­inn að reikna út hversu mikl­ar tekj­ur hann þarf til þess að standa við lof­orð sín og hvernig hann ætl­ar að nálg­ast slík­ar tekj­ur en vill hins veg­ar ekki gefa upp hver upp­hæð­in er, það væri „fá­rán­legt“. Hún seg­ir Sósí­al­ista­flokk­inn ætla að byggja upp sinn eig­in fjöl­mið­il, leggja af styrki til fjöl­miðla í gegn­um rit­stjórn­ir og styrkja frek­ar blaða­menn í að fjalla um það sem flokkn­um finnst „þess virði“. Þá ætl­ar flokk­ur­inn sér einnig að setja á fót and-spill­inga­stofn­un.
Bjarni Benediktsson sem forsætisráðherra er fyrsta tilboð Sjálfstæðisflokksins
FréttirKosningastundin

Bjarni Bene­dikts­son sem for­sæt­is­ráð­herra er fyrsta til­boð Sjálf­stæð­is­flokks­ins

Birg­ir Árm­ans­son, þing­flokks­formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins, svar­ar fyr­ir stefnu og fer­il flokks­ins í Kosn­inga­stund­inni. Hann ver ráð­herra flokks­ins, heit­ir áherslu á skatta­lækk­an­ir og seg­ir kosn­ingalof­orð­in fjár­magn­ast með hag­vexti. Flokk­ur­inn mun gera upp­haf­lega kröfu um að formað­ur­inn Bjarni Bene­dikts­son verði for­sæt­is­ráð­herra í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um.
Þorgerður Katrín varar við íhalds-hægri stjórn
FréttirKosningastundin

Þor­gerð­ur Katrín var­ar við íhalds-hægri stjórn

Við­reisn tel­ur að teng­ing krónu við evru sé besta og fljót­virk­asta tæk­ið sem hægt er að beita í hag­stjórn­ar­mál­um til að bæta hag al­menn­ings og fyr­ir­tækja. Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formað­ur Við­reisn­ar, gagn­rýn­ir sitj­andi rík­is­stjórn fyr­ir kyrr­stöðu og vörð um sér­hags­muni. Hún vill færa stjórn­mál­in inn á hina frjáls­lyndu miðju.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár