Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Upplifði skort á heiðarleika í viðræðum við Katrínu síðast

Þór­hild­ur Sunna Æv­ars­dótt­ir þing­mað­ur svar­ar í Kosn­inga­stund­inni fyr­ir stefnu og fer­il Pírata. Hún sér fyr­ir sér marga mögu­leika á rík­is­stjórn­ar­mynd­un, þrátt fyr­ir að úti­loka tvo flokka og setja skil­yrði um nýja stjórn­ar­skrá. Hún seg­ist hafa haft trú á Katrínu Jak­obs­dótt­ur fyr­ir síð­ustu stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur.

Píratar eru flokkur með „félagshyggju að leiðarljósi“ og „frelsi fyrir fólk“ , eins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður orðar það í viðtali við Kosningastundina. 

Hún útskýrir í viðtalinu hver munurinn er á Pírötum og vinstri flokkunum og segir frá því sem brást, að hennar mati, í stjórnarmyndunarviðræðum við Katrínu Jakobsdóttur eftir síðustu kosningar, þegar Katrín endaði á að mynda ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni í Sjálfstæðisflokknum og Sigurði Inga Jóhannssyni í Framsóknarflokknum, eftir að Þórhildur hafði sjálf mælt með því við forseta Íslands að Katrín fengi stjórnarmyndunarumboðið.

Kostnaðarsöm og óútreiknuð kosningaloforð

Píratar lofa verulegum útgjöldum, sem mörg hver eru ekki reiknuð út. Spurð hvers vegna flokkurinn fylgi ekki boðaðri hugsjón sinni um gagnsæi með því að reikna út kostnað við ríflega 13 þúsund orða stefnuskrá sína segir Þórhildur að það verði að hluta birt fyrir kosningar en að öðrum hluta er erfitt að áætla, þar sem um sé að ræða langtímaþróun sem haldist í hendur við breytt hagkerfi.

„Við höfum nú lagt töluvert í að reyna að reikna út hvað sitt og hvað af þessum hlutum eigi eftir að kosta og erum að láta fara yfir þau gögn fyrir okkur. Það sem kannski gerir okkur erfitt fyrir í að meta til dæmis hvað skilyrðislaus grunnframfærsla mundi kosta okkur, það er eitthvað sem er þrepaskipt áætlun. Við ætlum ekki að byrja á því að koma á skilyrðislausri grunnframfærslu. Það er ekki raunhæft. Vegna þess að fyrst þarf að fara í mat á hver sé grunnframfærsla fólks. Og það er fyrsta skrefið hjá okkur. Við erum með fyrstu skrefin, svo erum við með aðeins lengri tíma og svo inn í framtíðina, hvað við viljum gera.“ 

Frelsi einstaklingsins sem frelsi frá áhyggjum

Flokkurinn á það sameiginlegt með Sjálfstæðisflokki að gera ráð fyrir því að þróun samfélagsins, í tilfelli Sjálfstæðisflokksins hagvöxtur á frjálsum markaði í skjóli frá ríkisafskiptum, og í þeirra tilfelli sjálfvirknivæðing og fjórða iðnbyltingin, muni fjármagna kostnaðarsömustu stefnumálin. Píratar sjá framtíðna færa bæði lykillausn og -vandamál. Sjálfvirknivæðingin leiðir til verulegrar auðsöfnunar og jafnframt hugsanlega fækkun starfa, sem getur leitt af sér misskiptingu og atvinnuleysi.

„Ef við tökum ekki til okkar valdið og beitum lýðræði til að ná stjórn á því hver græðir á þessu fyrirkomulagi, þá á eftir að fara illa, þá eigum við eftir að sjá miklu meiri misskiptingu, miklu meira óréttlæti,“ segir hún.

Kosningastefna Pírata er óvenju ítarleg. Hún telur rúmlega 13 þúsund orð. Síðast voruð þið með mun knappari stefnu. Hvað ræður því?

„Síðast höfðum við mjög stuttan tíma. Það var boðað til kosninga með mjög skömmum fyrirvara. Við höfðum talsvert minni tíma til að fara í þá grasrótarvinnu sem er nauðsynleg til að við getum mótað okkur stefnu. Þetta skiptið mótuðum við okkur stefnu eftir nýju fyrirkomulagi innan flokksins, nýju skipulagi sem við settum upp og þar á meðal var ákveðin stefna í málefnanefnd sem var kjörin af grasrótinni og leiddi þetta starf áfram í samstarfi við alla grasrótina og svo líka alla frambjóðendur í efstu sætum. Við kláruðum þetta svona allt í sameiningu í sumar.“

Myndirðu kalla þetta lýðræðisveislu, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað um?

„Jú, algjörlega. Þetta er kannski bara lýðræðishlaðborð. Það gátu allir verið með og allir tekið sitt út úr þessu. Þetta er kannski svona Pálínuboð.“

Velsældarsamfélag frekar en velferðarsamfélag

Píratar hafa ekki fallið með einföldum hætti að vinstri-hægri ás stjórnmálanna. Stjórnmálamenn eins og Bjarni Benediktsson hafa talað um að Píratar séu varla alvörustjórnmálaflokkur. Í nýlegum skoðanakönnunum hefur komið fram að þau sem setja Pírata í annað sætið, sem þau myndu kjósa ef þeir myndu ekki kjósa þann flokk sem þau velja, eru Sósíalistar og Samfylkingin aðallega. Finnst þér þið vera nálægt þeim í hugmyndafræði? Eruð þið vinstra megin, eða eruð þið óskilgreind?

„Okkur finnst aðalatriðið að frelsa einstaklinginn frá því að þurfa að hafa áhyggjur af sínum grunnþörfum“

„Við höfum oft verið sett á bás með vinstri flokkunum og það er vegna þess að við deilum mörgum stefnumálum með þeim og höfum félagshyggju að leiðarljósi. Við viljum að fólk hafi aðgang að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og að fólk hafi kerfi sem grípur það ef þarf á því að halda. En við nálgumst það frá aðeins öðruvísi sjónarhorni heldur en vinstri flokkarnir gera, sem tala oft um velferðarsamfélag á meðan við tölum um velsældarsamfélag. Helsti munurinn á hvernig við nálgumst þetta er að okkur finnst aðalatriðið að frelsa einstaklinginn frá því að þurfa að hafa áhyggjur af sínum grunnþörfum vegna þess að við höfum trú á því að þannig geti einstaklingar, samfélagið, skapað í rauninni framtíðina sem við vitum að er að flýta sér til okkar.“ 

Annað frelsi en Sjálfstæðisflokksins

Þannig að þið skilgreinið frelsi í rauninni með öðrum hætti heldur en ef ég horfi aftur á Sjálfstæðisflokkinn? 

„Já, mig langaði að slagorð okkar væri: „Frelsi í alvörunni“. Sem gengur út á að frelsi er miklu meira heldur en frelsi til að flytja fjármagn án þess að þurfa að borga af því skatta, sem er mjög þröng skilgreining á þessu frelsi. Við sjáum það að Sjálfstæðisflokkurinn er mjög íhaldssamur þegar kemur að mörgum frelsismálum eins og frjósemisfrelsi kvenna, þar sem við vorum fremstar í broddi fylkingar að verja það í þungunarrofsmálinu þar sem formaður flokksins kýs gegn frjósemisfrelsi kvenna. Við viljum líka frelsi fyrir fólk til að koma hingað og setjast hérna að. Við viljum frelsi fyrir fólk til að geta tekið þátt í samfélaginu á sínum forsendum án þess að þurfa að búa við skilyrði og skerðingar. Ef það ákveður að taka þátt. Þá erum við að tala um til dæmis aldraða, yngra fólk sem fær ekki aðgang að atvinnuleysisbótum og svo framvegis, að okkur finnst það ekki þannig að það þurfi að vera eitthvað sett velferðarkerfi og það þurfi bara að hækka bæturnar.

Við sjáum framtíðarsýnina þannig fyrir okkur að það eru allir með eitthvert grunnöryggisnet og þaðan geti þeir hjálpað til við að skapa þetta framtíðarsamfélag.“

Þannig að svona ákveðinn jöfnuður, jafnaðarstefna, er náttúrlega vinstri stefna í sjálfri sér, sé forsenda frelsis og valfrelsis og þess að fólk geti nýtt möguleika sína í lífinu. 

„Já, ef þú hefur ekki í þig og á hefurðu ekki frelsi til að taka þátt í lýðræðinu.“

Vilja skattalækkanir en líka aukin útgjöld

Samkvæmt hefðbundnu skilgreiningunni á hægri vinstri er yfirleitt horft til efnahagsstefnunnar og þá þrengt niður í skattastefnuna. Þið eruð svolítið mikið að tala um að í framtíðinni eigi að lækka skatta á laun og neyslu, sem er þá væntanlega virðisaukaskattur og tekjuskattur en á móti hækka skatta á þá sem hafa hæstar tekjurnar. Eruð þið meira að horfa til þess að lækka skatta heldur en vinstri flokkarnir, er það þar sem munurinn liggur?

„Ég held að munurinn á okkur liggi ekki þar, þótt að við eigum ýmislegt sameiginlegt með vinstri flokkunum þegar kemur að áherslum í skattamálum. Munurinn liggur kannski einna helst þar að við höfum alveg frá upphafi verið að einbeita okkur að þessum hlutum sem eru að gerast í samfélaginu, oft verið kallað sjálfvirknivæðingin eða fjórða iðnbyltingin og hvernig hún gerir mikið af þessum kerfum og hugmyndafræði vinstri hægri úrelta. Hún gerir það til dæmis með því að allt í einu erum við komin með fullt af einhverjum verðmætum sem eru óendanleg, eins og internetið eða afrit af tölvulesanlegum gögnum eða þá til dæmis núna með þrívíddarprenturunum og öllu þessu.

„Við erum að reyna að brjóta upp þennan vinstri hægri ás sem allur gengur samt út á skort, að það sé ekki til nóg.“

Við erum að reyna að brjóta upp þennan vinstri hægri ás sem allur gengur samt út á skort, að það sé ekki til nóg. Að  það verði að finna einhverjar leiðir til að skipta einhverri ímyndaðri köku og að til þess að svo megi verða verði að beita einhverjum hugmyndafræðilegum verkfærum sem annaðhvort eru að nota skattkerfið til aukins jöfnuðar eða að nota skattkerfið til að frelsa fjárhaginn sem einhvern veginn með einhverri furðulegri brauðmolakenningu, færist niður til fátækara fólksins. Þannig að við erum alveg sammála að það þarf að nota skattkerfið til jöfnunar. En við teljum ekki að þar sé akkúrat punkturinn, lykilatriðið. Okkar höfuðáhersla er að núna er öll framleiðslutækni að fara að breytast. Miklu fleiri störf verða úrelt, þannig að rosalega mikið af þessari baráttu, sem hafa verið að eiga sér stað um réttindi launafólks, um réttindi almennra borgara, hún er að fara að færast yfir í hver á þessi tæki og ef við tökum ekki til okkar valdið og beitum lýðræði til að ná stjórn á því hver græðir á þessu fyrirkomulagi, þá á eftir að fara illa, þá eigum við eftir að sjá miklu meiri misskiptingu, miklu meira óréttlæti.“

Þið eruð ekki að tala um að taka yfir framleiðslutækin, sem er klassískur marxismi, eða eitthvað þannig ...

„Við erum að tala um að taka höfundarréttinn af framleiðslutækjunum. Við erum að tala um að frelsa vitsmuni þessa heims til að vinna saman og við höfum séð hvað það getur gert stórkostlega hluti.“ 

Óútreiknuð, stór útgjaldaloforð

Eitt af ykkar grunnstefnumálum er gagnsæi og þið eruð sá flokkur á Alþingi sem hefur talað mest fyrir gagnsæi. En þegar maður skoðar ykkar ítarlegu stefnu, þá spyr maður sig: Hvers vegna fóruð þið ekki út í að reikna út áhrifin af tilteknum breytingum, í peningum? Hvað mundi það þýða til dæmis að þessi grunnframfærsla eða hvað annað? Væri það ekki einhver leið til þess að auka gagnsæi í stjórnmálaumræðu og varðandi stefnu ykkar?

„Jú, við höfum nú lagt töluvert í að reyna að reikna út hvað sitt og hvað af þessum hlutum eigi eftir að kosta og erum að láta fara yfir þau gögn fyrir okkur. Það sem kannski gerir okkur erfitt fyrir í að meta til dæmis hvað skilyrðislaus grunnframfærsla mundi kosta okkur, það er eitthvað sem er þrepaskipt áætlun. Við ætlum ekki að byrja á því að koma á skilyrðislausri grunnframfærslu. Það er ekki raunhæft. Vegna þess að fyrst þarf að fara í mat á hver sé grunnframfærsla fólks. Og það er fyrsta skrefið hjá okkur. Við erum með fyrstu skrefin, svo erum við með aðeins lengri tíma og svo inn í framtíðina, hvað við viljum gera.“ 

Milljón á ári í barnabætur fyrir öll börn

Þannig að þegar þið segið: Við ætlum að skilgreina samræmda lágmarksframfærslu, þá er það í rauninni loforðið að þið munið fara í þá vinnu að skilgreina lágmarksframfærslu, í staðinn fyrir að hafa bara á borðinu valmöguleikann, hver er þessi lágmarksframfærsla. En um leið þá náttúrlega komist þið hjá ákveðinni gagnrýninni umræðu um það hver heildarniðurstaðan er af ykkar loforðum. Tökum sem dæmi barnabætur, þið viljið að við förum lengra í áttina að Norðurlöndunum með því að barnabætur verði ekki með sama hætti tekjutengdar eins og er núna. Núna eru í raun fyrst og fremst þeir sem eru í lægri tekjunum að fá barnabætur. Maður spyr sig í fyrsta lagi: Hvað kostar þetta? Þið virðist ekki hafa það enn þá á borðinu. En í öðru lagi: hvers vegna ætti fólk að borga til dæmis fyrir barnabætur til handa vel stæðu fólki sem þarf í raun ekki á þeim að halda?* 

„Hvað kostar þetta? Okkur reiknast til að þetta sé kannski í kringum fimm, sex milljarðar, eða eitthvað svoleiðis, en núna eru barnabæturnar að kosta ríkissjóð fjórtán milljarða. Það er í stóru samhengi hlutanna ekkert hrikalega mikið, til að passa að millitekjufólk alveg sérstaklega verði ekki fyrir rosalegum fjárhagslegum skaða bara við það að eignast barn, vegna þess að það kostar gríðarlega mikið. Nú er ég nýbúin að eignast barn og ég veit að það kostar alveg ótrúlega mikið af peningum og ég náttúrlega vel stæð til að takast á við það. En ég held um leið og þú ert kominn niður í svona millitekjuþrepið, þá er það bara mjög dýrt og þá munar alveg um að fá þessa milljón á ári samtals sem fólk er að fá í óskertar barnabætur. Ef við værum að tala um það að aldurssamsetningin á þjóðinni er að breytast, þá skiptir alveg máli að við förum í einhverja smá svona endurnýjun til að geta haldið uppi þessu samfélagi sem við viljum halda uppi.“

* Píratar hafa boðað nánari útlistun á kostnaði við kosningaloforð þeirra fyrir kosningar.

Stíga skref í átt að borgaralaunum

Á móti kemur að það hefur verið litið á það sem sérstakt efnahagslegt vandamál að aldurspíramídinn sé að breytast þannig að það eru fleiri eldri, þar af leiðandi, samkvæmt öllu fleiri sem ekki eru starfandi fyrir samfélagið, og sem samfélagið þarf þá að greiða fyrir. Ykkar leið er þá kannski á endanum einhver lágmarksframfærsla eða einhver leið í áttina að borgaralaunum eins og þið töluðuð um áður. 

„Við erum að tala um að stíga virk skref í átt að borgaralaunum. En það sem við erum að byrja á að tala um er bara að hækka persónuafsláttinn í skrefum og vinna að því að hann verði útgreiðanlegur þannig að þeir sem eru kannski ekki virkir á vinnumarkaði akkúrat núna eða eru með það lágar tekjur að þeir geti tekið hann út og fái þessar aukatekjur sér til handa. Við erum að tala um að barnabæturnar fylgi barninu vegna þess að við viljum ekki hafa séð svona mikið fjárhagslegt högg fyrir fólk að eignast barn og við viljum að þessi viðurkenning á að það sé samfélagslega hagkvæmt að fólk sjái sér kleift að eignast börn. Það er gríðarleg pressa á konur á Íslandi. Allt í einu erum við komin undir þessa fólksfjölgun sem við erum að reiða okkur á til þess að geta staðið undir því að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast.“

Vilja hækka hátekjuskatt í 50%

Í raun þýðir þetta þá að millitekjumanneskja væri að borga skatta til að greiða auðmanni barnabætur. 

„Það sem við erum að skoða núna er til dæmis að færa hæsta tekjuþrepið í tekjuskattinum úr þar sem hann er núna í 46,25% upp í 50%. Við erum líka að tala um að fara í mengunarskatta gagnvart þeim sem menga hvað mest. Við ætlum líka að hækka veiðigjöld en ekki bara veiðigjöldin sem eru varla að duga fyrir umgjörðinni um sjávarútveginn eins og staðan er núna með 4,5 milljarða á ári í tekjur en útgjöld ríkisins eru fjórir milljarðar, bara í utanumhaldi um sjávarútveginn. Við ætlum að hækka það, alla vega tvöfalda. En þá ætlum við líka að koma á sanngjörnum leikreglum í sjávarútvegi sem ég held að eigi eftir að skila gríðarlega miklu í kassann. Eins og staðan er núna eru ekki sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegskerfinu og það þýðir að við verðum af svona tuttugu til þrjátíu prósent af virðisaukningu sem við gætum verið að sjá ef það væru sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi.“

Forsendur fyrir því að brjóta upp Samherja

Nú vilja Sósíalistar brjóta upp Samherja. Það er eitt af þeirra grundvallarkosningaloforðum, eruð þið sammála því að brjóta upp Samherja?

„Það eru forsendur fyrir hendi til að brjóta upp Samherja vegna þess að þeir hafa ekki skilað inn ársreikningi. Ef við værum með fjármálaráðherra sem hefði sinnt vinnunni sinni síðastliðin fimm ár gagnvart þessu ...“

Væri það meðalhóf að þínu mati, að gera það, á þeim grundvelli?

„Ja, þegar það er liðinn þetta langur tími þá er það eitthvað sem mér finnst allavega fullkomlega vert að skoða. En meðalhófið er auðvitað bara í fyrsta lagi að byrja að beita þeim reglum sem við þó höfum. Málið er bara: það gilda allt aðrar leikreglur um þessa stóru aðila í sjávarútvegi heldur um allt annað viðskiptalíf á Íslandi. Til dæmis bara þegar kemur að skilgreiningu á tengdum aðilum. Við vitum það, af því að við höfum talað um allan afla á markað og alla þessa hluti og það sem kemur á móti okkur er einhvern veginn, að það væri svo mikil samþjöppun. Það er vandamálið sem við búum við nú þegar. Rosalega mikil samþjöppun, risar eins og Samherji, þar sem mætti spyrja sig, hvort þeir búi við sérstaklega sterka einokunarstöðu á markaði, þar sem þeir geta bara keypt út samkeppni, geta í raun skemmt fyrir sínum samkeppnisaðilum bara með mjög afgerandi hætti.“

Þannig að þið væruð tilbúin til að standa að löggjöf sem mundi þá leiða til þess að Samherji eða önnur risastór útgerðarfyrirtæki væru brotin upp í smærri einingar og það með einhvers konar valdboði að ofan?

„Ég get ekki sagt að það sé okkar stefna. Þetta er ekki í okkar stefnu.“

Það er svona í anda stefnu Pírata í sjávarútvegsmálum. Það er valddreifing og valdefling þeirra smáu, frjálsar handfæraveiðar ... 

„Það er í okkar stefnu að taka mikið af þessum verkfærum sem Samherji hefur til að níðast á öðrum úr höndunum á þeim. Meðal annars kvótaþakið. Við erum að horfa á að Samherji er löngu farinn yfir þetta kvótaþak en það er enginn að fylgja því eftir. Það er meðal annars út af því að skilgreiningin á tengdum aðilum gagnvart risum í sjávarútvegi, er allt önnur heldur en alls staðar annars staðar í viðskiptalífinu. Þú getur átt 49,9% í Síldarvinnslunni eins og Samherji og samt ekki talist tengdur aðili og þar með telur þessi kvóti sem Síldarvinnslan er með ekki inn í þennan heildarkvóta. Ég veit að þetta er frekar leiðinlegt umræðuefni, en þetta skiptir miklu máli út af því að þessi rosalega auðsöfnun, þessi rosalegi máttur, sem Samherji hefur og Brim þannig séð líka, litast af því að það er búið að vera við stjórn fólk sem er ekki tilbúið að framfylgja þeim reglum sem þó eru til staðar, setja þær reglugerðir sem þarf til að hægt sé að framfylgja þeim lögum sem eru til staðar og er ekki til í að styrkja þær eftirlitsstofnanir sem þarf að styrkja til þess að það sé hægt að koma á alvöru leikreglum.“

Risastórt gat í veiðigjaldakerfinu

Ef við horfum bara á raunveruleikann, raunveruleika fólks á Dalvík, þar sem er nýbúið að byggja einhverja glæsilegustu fiskvinnslu landsins og Íslandssögunnar ef við viljum tala um það þannig. Mynduð þið vilja aðskilja fiskveiðihluta Samherja, sem dæmi, og síðan fiskvinnsluna, eins og Sósíalistar hafa verið að tala um, eða er það óútfært? 

„Aðskilnaður veiða og vinnslu er vissulega eitthvað sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það er eitthvað sem við styðjum heils hugar, sérstaklega þegar kemur að til dæmis álagningu veiðigjalda. Við sáum það bara þegar það var verið að breyta þessu veiðigjaldakerfi núna á síðasta kjörtímabili, þá var skilið eftir risastórt gat fyrir það sem kallast samþættar útgerðir eins og Samherji, sem eru með bæði veiðar og vinnslu undir sama hatti, það var skilið eftir risastórt gat fyrir þær að færa allan sinn hagnað yfir í vinnslurnar, skilja allt tapið eftir í veiðunum, til þess að geta borgað sjómönnum lægri laun, til þess að þurfa að borga lægri veiðigjöld og til þess að geta tekið út meiri hagnað. Og þetta var núverandi stjórnvöldum bent á af Samkeppniseftirlitinu, af skattinum, ríkisendurskoðanda, alla vega mörgum svona virðulegum batteríum sem sögðu þeim: Þið eruð að skilja eftir bakdyraleið fyrir fólk til að komast hjá gjaldtöku. Og þetta benti ég líka meira að segja á í langri ræðu um sjávarútveg og þetta var samt gert, vitandi vits um að þetta þýddi að þetta mundi auðvelda Samherja að greiða ekki tilskilin gjöld.“

Vilja bjóða upp kvótann á löngum tíma

En þið viljið bjóða upp kvóta, og þar af leiðandi kvóta Samherja og Brims. Á hversu löngum tíma sjáið þið fyrir ykkur að gera það og um leið, hverjir eru líklegastir til að kaupa kvóta á uppboði aðrir en fjársterkustu aðilarnir í sjávarútvegi?

„Við höfum komið með ýmsar tillögur að því hvernig væri hægt að fara þessa fyrningarleið. Ég myndi segja að þumalputtareglan sé sú að við þurfum að passa að það sé nægilega mikill fyrirsjáanleiki fyrir útgerðirnar til þess að þær hafi ekki rétt á að fara í mál við ríkið. Og þetta er eitthvað sem ég myndi vilja fá færari lögfræðinga heldur en ég í íslenskum rétti til þess að fara með mér í gegnum hversu hratt við getum farið í þetta, en við myndum reyna að fara í þetta eins hratt og við mögulega getum án þess að baka skaðabótaskyldu á ríkið upp á einhverja hundruð milljarða.“

Ný stjórnarskrá er skilyrði

Píratar setja sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að stjórnin styðji nýja stjórnarskrá „á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs“. 

Ef maður fer yfir sviðið voru Vinstri grænir nýlega að boða nýja stefnu, breyttu stefnu sinni gagnvart stjórnarskránni, hættu að tala um tillögur stjórnlagaráðs og eru núna að tala um þessa bútasaumsleið, að uppfæra einstaka liði eða einstakar greinar. Þið eruð ekki að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þið eruð ekki að fara í ríkisstjórn með Miðflokknum, Vinstri græn eru með þetta loðna orðalag og styðja ekki lengur þessa róttæku endurskoðun. Framsóknarflokkurinn lýsir „fullum stuðningi“ við gildandi stjórnarskrá segja þeir. Hvernig getið þið myndað ríkisstjórnarmeirihluta út frá þessu? 

„Við eigum alla vega ýmislegt sameiginlegt með Samfylkingunni sem leggur mikla áherslu á þetta og síðan verðum við auðvitað bara að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum, hvort þessir flokkar séu til í að láta sér það lynda að þjóðin fái stjórnarskrána sem hún kaus um. Ástæðan fyrir því að við setjum þetta sem skilyrði er vegna þess að okkur finnst ekki líðandi að í lýðræðisríki hafi verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, þjóðin hafi sagt sína skoðun, tveir þriðju meirihluta þeirra sem mættu, komu og sögðu: Þetta viljum við að verði nýja stjórnarskráin okkar, að þessi þjóðarvilji sé bara hunsaður. Það er kannski á brattann að sækja fyrir okkur. Þetta er alveg áhættusöm yfirlýsing. En við meinum hana vegna þess að fyrir okkur er þetta svo hættulegt lýðræðinu.“

„Fyrir okkur er þetta svo hættulegt lýðræðinu“

Þórhildur útskýrir að þetta skilyrði sé sveigjanlegt. „Auðvitað erum við alltaf á leiðinni í eitthvert samstarf. Það er alveg opið fyrir því að þetta plan hliðrist. Það sem við erum að segja að sé forsenda fyrir okkar þátttöku í ríkisstjórn, það sem við gerðum líka 2017 og 2016, þegar við tókum þátt í ríkisstjórnarmyndunarviðræðum, er að við þurfum að vinna að því allt kjörtímabilið að í lok þess kjörtímabils verði greidd atkvæði um stjórnarskrána í þingsal. Það þýðir að þá strax í kjölfarið, þarf að rjúfa þing. Og það þarf að boða til nýrra kosninga og þetta nýja þing þarf að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá.“

Geturðu skilgreint eitthvað eitt sem þú myndir segja að væri það mikilvægasta sem þú og þið gætuð áorkað með því að vera kosin í þessum kosningum?

„Nýja stjórnarskráin, tvímælalaust þar. Það er hún. Hún er lykillinn að eiginlega öllu hinu.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Kosningastundin

Guðmundur Ingi: Atkvæði greitt VG sé atkvæði greitt gegn hægri stjórn
FréttirKosningastundin

Guð­mund­ur Ingi: At­kvæði greitt VG sé at­kvæði greitt gegn hægri stjórn

Guð­mund­ur Ingi Guð­brands­son um­hverf­is­ráð­herra geng­ur sátt­ur frá borði þótt Vinstri græn hafi ekki náð mik­il­væg­um mál­efn­um í gegn. Helst sér hann eft­ir mið­há­lend­is­þjóð­garð­in­um en mun halda bar­átt­unni áfram og seg­ir lofts­lags­mál­in vera stærstu verk­efn­in á kom­andi kjör­tíma­bili. Þar þarf að grípa til að­gerða í at­vinnu­líf­inu og friða bæði hluta af landi og hafi.
Kristrún: „Það er ekki gott að hér verði einhvers konar samfélagsrof“
ViðtalKosningastundin

Kristrún: „Það er ekki gott að hér verði ein­hvers kon­ar sam­fé­lags­rof“

Kristrún Frosta­dótt­ir, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík suð­ur, seg­ir að hún hafi alltaf ver­ið jafn­að­ar­mað­ur í hjarta sínu þó hún hafi starf­að fyr­ir Við­skipta­ráð og fjár­mála­fyr­ir­tæki. Hún seg­ir að mik­il­vægt sé að efna­mik­ið fólk greiði meira til sam­fé­lags­ins og rök­styð­ur stór­eigna­skatta sem rétt­læt­is­mál og góða hag­stjórn.
„Auðvaldið verður aldrei okkar samstarfsmaður“
ViðtalKosningastundin

„Auð­vald­ið verð­ur aldrei okk­ar sam­starfs­mað­ur“

Katrín Bald­urs­dótt­ir, odd­viti Sósí­al­ista­flokks­ins í Reykja­vík Suð­ur, seg­ir að Sósí­al­ista­flokk­ur­inn sé bú­inn að reikna út hversu mikl­ar tekj­ur hann þarf til þess að standa við lof­orð sín og hvernig hann ætl­ar að nálg­ast slík­ar tekj­ur en vill hins veg­ar ekki gefa upp hver upp­hæð­in er, það væri „fá­rán­legt“. Hún seg­ir Sósí­al­ista­flokk­inn ætla að byggja upp sinn eig­in fjöl­mið­il, leggja af styrki til fjöl­miðla í gegn­um rit­stjórn­ir og styrkja frek­ar blaða­menn í að fjalla um það sem flokkn­um finnst „þess virði“. Þá ætl­ar flokk­ur­inn sér einnig að setja á fót and-spill­inga­stofn­un.
Bjarni Benediktsson sem forsætisráðherra er fyrsta tilboð Sjálfstæðisflokksins
FréttirKosningastundin

Bjarni Bene­dikts­son sem for­sæt­is­ráð­herra er fyrsta til­boð Sjálf­stæð­is­flokks­ins

Birg­ir Árm­ans­son, þing­flokks­formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins, svar­ar fyr­ir stefnu og fer­il flokks­ins í Kosn­inga­stund­inni. Hann ver ráð­herra flokks­ins, heit­ir áherslu á skatta­lækk­an­ir og seg­ir kosn­ingalof­orð­in fjár­magn­ast með hag­vexti. Flokk­ur­inn mun gera upp­haf­lega kröfu um að formað­ur­inn Bjarni Bene­dikts­son verði for­sæt­is­ráð­herra í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um.
Þorgerður Katrín varar við íhalds-hægri stjórn
FréttirKosningastundin

Þor­gerð­ur Katrín var­ar við íhalds-hægri stjórn

Við­reisn tel­ur að teng­ing krónu við evru sé besta og fljót­virk­asta tæk­ið sem hægt er að beita í hag­stjórn­ar­mál­um til að bæta hag al­menn­ings og fyr­ir­tækja. Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formað­ur Við­reisn­ar, gagn­rýn­ir sitj­andi rík­is­stjórn fyr­ir kyrr­stöðu og vörð um sér­hags­muni. Hún vill færa stjórn­mál­in inn á hina frjáls­lyndu miðju.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár