Fjögur framboð til Alþingis af tíu mæla gegn spillingu: Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Hin framboðin sex ýmist þræta fyrir spillinguna eða þegja um hana. Aðeins 22% fylgismanna Sjálfstæðisflokksins telja spillingu vera frekar mikið eða mjög mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum borið saman við 53% til 94% stuðningsmanna annarra flokka (Framsókn 53%, Píratar 94%). Nýju stjórnarskránni er ætlað að skera upp herör gegn spillingu. Ráðumst gegn spillingunni í kosningunum 25. september.
Tökum tólf dæmi. Stiklum á stóru.
1„Með hörðum stálhnefa“
Þegar bankarnir hrundu stóð skuld Óla Björns Kárasonar, nú alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, við þá í 478 mkr. samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA, 2. bindi, bls. 201). Ekki hefur verið greint frá því hvort eða hvernig þessi skuld þingmannsins var gerð upp. „Við eigum að mæta þeim með hörðum stálhnefa,“ sagði Óli Björn um hælisleitendur sem „ætla að misnota velferðarkerfið“. Hvað ætli þingflokki sjálfstæðismanna finnist um þá sem misnota bankakerfið? Þau gerðu Óla Björn að formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 2017–2021.
2Panama, Panama
Af þeim tíu flokkum sem bjóða nú fram til Alþingis er tveim, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum, stýrt af mönnum sem voru afhjúpaðir í Panamaskjölunum. Hvorki Bjarni Benediktsson né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur birt reikninga sína í Panama (eða Sviss). Hvers vegna ekki? Yfirvöldin hafa ekki heldur greint frá hreyfingum á þessum reikningum þótt fimm ár séu liðin frá birtingu Panamaskjalanna. Meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra ráðherra og annarra urðu til þess að þeir hafa setið í gæzluvarðhaldi í meira en hálft annað ár og bíða dóms í Namibíu. Nú spyrja frambjóðendur til Alþingis í fyrsta sinn: Hvar eru múturnar?
3Leynilegar afskriftir
Formenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar skulduðu bönkunum þegar þeir hrundu samtals 1.857 mkr. Ekki hefur enn verið greint frá því hvort eða hvernig skuldir Bjarna Benediktssonar voru gerðar upp. Skuldir Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og bónda hennar voru afskrifaðar og skullu því af fullum þunga á saklausa vegfarendur innan lands og utan. Þetta liggur fyrir þar eð skuldir Þorgerðar Katrínar komu til kasta dómstóla. Afskriftir skulda í bönkunum eru annars leynilegar og má af því ráða hvers vegna sumir sækjast svo mjög eftir því að eignast banka – aftur. Eignarhaldið veitir þeim færi á að veita völdum viðskiptavinum lán og afskrifa þau eftir hentugleikum með gamla laginu. Hvað skyldu bankarnir hafa þurft að bera margar fjölskyldur út af heimilum sínum til að jafna metin vegna viðskipta sinna við Bjarna og Þorgerði Katrínu?
4 Rekinn með hagnaði
Þegar átta af níu lögreglustjórum í landinu og Landssamband lögreglumanna höfðu lýst yfir vantrausti á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra var hann leystur frá störfum með starfslokasamningi sem kostaði skattgreiðendur 57 mkr. Á embættisferli hans hafði gengið á ýmsu. Hliðstætt mál er nú til rannsóknar í Finnlandi þar sem saksóknari íhugar að lokinni lögreglurannsókn að höfða sakamál gegn ríkisendurskoðanda vegna starfslokasamnings sem hann gerði við undirmann sinn. Samkvæmt samningnum fær undirmaðurinn full laun í tvö ár fram að eftirlaunaaldri án þess að hann þurfi að sinna starfi sínu. Finnska þingið hefur leyst ríkisendurskoðanda frá störfum vegna málsins.
5 Árangurstengingarviðmið
Skýrsla RNA (7. bindi, bls. 314-321) og skýrsla sérstakrar þingnefndar lýsa berum orðum vanrækslu í skilningi laga af hálfu fjögurra ráðherra og fjögurra embættismanna í aðdraganda hrunsins. Hvað varð um þessa átta hirðuleysingja? Fjögur þeirra drógu sig í hlé og hreiðruðu um sig í útlöndum, hinn óskammfeilnasti í hópnum lagðist í faðm útvegsmanna á ritstjórn Morgunblaðsins, einn varð ríkisforstjóri, einn fór í meðferð og einn dó. Og hvað varð um þingforsetann sem braut þingsköp með því að slíta Alþingi í marz 2013 án þess að bera frumvarpið að nýrri stjórnarskrá undir atkvæði? Hún var gerð að formanni siðanefndar Alþingis. Nú birta blöðin vangaveltur um hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eigi að hreiðra um sig hjá Sameinuðu þjóðunum, helzt í París, þegar hún hverfur af Alþingi. Hugdettan vitnar um árangurstengingarviðmið stjórnmálastéttarinnar.
6 Hvar eru múturnar?
Fyrst núna 2021 birtast frambjóðendur til Alþingis sem vilja svipta hulunni af meintum mútum til stjórnmálamanna og annarra. Þetta gerist fyrst núna vegna þess að Samherji var ekki afhjúpaður í Namibíu fyrr en 2019. Kristján Pétursson tollvörður lýsir því undir rós í sjálfsævisögu sinni, Margir vildu hann feigan (1990), hvernig reynt var að múta honum til að fella niður rannsókn olíumálsins, mesta efnahagsbrotamáls sem hafði þá komið til kasta yfirvalda. Áður en hann dó kom Kristján heim til mín til að setja mig inn í óuppgerð efnahagsbrotamál sem hann þekkti til varðandi fjársvik og annað. Ég get ekki leyft mér að taka þessi mál með mér í gröfina, sagði Kristján við mig. Ég gerði bæði dómsmálaráðherra og saksóknara viðvart í samráði við Kristján eins og ég hef áður greint frá opinberlega.
7 Hæstiréttur og Seðlabankinn
Hvað sem allri spillingu líður í stjórnmálum og viðskiptum þurfa Hæstiréttur og Seðlabankinn helzt að hafa sitt á þurru. Hæstaréttardómarar hafa þó sakað hver annan um lögbrot og eiga í málaferlum innbyrðis. Fjárfestingar sumra þeirra hafa komið til kasta erlends dómstóls. Siðaráð Dómarafélagsins víkur sér undan að fjalla um meint vanhæfi einstakra hæstaréttardómara í dómum um fiskveiðistjórnarkerfið með þeim rökum að „eins og endranær gætir dómari að hæfi sínu til meðferðar hvers máls“. Seðlabankinn greiddi götu hrunþýfis aftur heim án þess að spyrja um uppruna fjárins. Bankinn neitar að birta nöfn þeirra sem fluttu féð heim. Svein Harald Øygard, sem var seðlabankastjóri í nokkra mánuði 2009, lagði til að slóð hrunþýfisins yrði rakin og segir í bók sinni Í víglínu íslenskra fjármála: „Þegar ég mætti mótspyrnu lét ég bókfæra álit mitt í fundargerð.“ Fundargerðir bankaráðs Seðlabankans eru leyniskjöl. „Það hefði ekki verið hægt að skálda þennan skít“, skrifaði Svein Harald um reynslu sína af íslenzkum fjármálum.
8 Mokstur út úr bönkum í miðju hruni
Lögbrot voru framin í hruninu langt umfram þau sem komu til kasta dómstóla. Guðmundur Gunnarsson, rafvirki og fv. stjórnlagaráðsmaður, lýsti málinu svo hér í Stundinni 27. nóvember 2017: „… Í gagnaleka ... kom ... fram að áhrifamenn úr fjármála- og stjórnmálaheiminum fengu aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans … frestað fram á mánudagseftirmiðdag. Á mánudagsmorguninn hófust strax við opnun bankanna umfangsmiklir flutningar fjármagns út úr íslenska krónuhagkerfinu yfir á erlenda bankareikninga, eins og til dæmis var opinberað í gögnum sem sett voru í fjölmiðlabann. Þar var staðfest að þröngur hópur bjó yfir innherjaupplýsingum og náði að taka út lausafé í skiptum fyrir hlutabréf í bönkunum og koma því úr landi inn á leynireikninga á aflandseyjum. Í þetta var nýttur allur fáanlegur gjaldeyrir í landinu á mánudagsmorgun. Hlutabréf í bönkunum urðu skömmu síðar einskis virði …“ Þennan sama mánudag 6. október 2008 rann þriðjungur þeirra 500 milljóna evra sem Seðlabankinn lánaði Kaupþingi beint til Tortólu. Þarna var þverbrotin sú grundvallarregla sem gildir um viðbrögð stjórnvalda í bankakreppum að miða allar aðgerðir við að bönkum sé lokað í dagslok á föstudegi og öllu sem gera þarf sé lokið fyrir opnun banka á mánudegi. Um þessa atburði er ekkert að finna í skýrslu RNA þótt gögnin sem var lekið úr Glitni til Stundarinnar og lögbann var sett á hljóti að hafa verið í fórum RNA.
9 Brottkast
Margir sjómenn og aðrir hafa árum saman vitnað, jafnvel í sjónvarpi, um brottkast og annað svindl í kvótakerfinu. Glæpastarfsemi hefur samkvæmt þessum upplýsingum grafið um sig í sjávarútveginum og væntanlega smitað út frá sér. Lögregla og saksóknarar láta vitnisburði um slík lögbrot eins og vind um eyru þjóta. Slík vanræksla varðar einnig við lög. Nú loksins er einn angi meintra brota, meintar mútugreiðslur í skiptum fyrir kvóta, kominn til kasta saksóknara í Namibíu og á Íslandi og styttist í að dómur falli þar suður frá. Kannski armur laganna nái að endingu frá Namibíu heim til Íslands.
10 Misvægi atkvæða
Kosningarnar 25. september verða ólögmætar í þriðja skiptið í röð þar eð þær munu fara fram samkvæmt kosningalögum sem 67% kjósenda höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána 2012. Kosningalögin draga taum dreifbýlis á kostnað þéttbýlis. Við bætist að reglan sem er notuð til að telja upp úr kjörkössunum magnar hlutdrægnina. Vandinn er ekki bundinn við Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn bar einnig oftast úr býtum hærra hlutfall þingsæta en atkvæða í alþingiskosningum 1978-2017. Einfaldur hlutfallsreikningur sýnir að þessi slagsíða veitti Sjálfstæðisflokknum samtals 13 þingsæti í forgjöf á þessu tímabili og Framsókn 16 sæti í forgjöf, eða tvö sæti samanlagt í hverjum kosningum að jafnaði, sé miðað við þær reglur sem notaðar eru við úthlutun þingsæta í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Reglur Dana, Norðmanna og Svía duga vel til að tryggja jafnt vægi atkvæða.
11 Látum þau ekki ræna okkur áfram
Auðlindin í sjónum er sameign þjóðarinnar samkvæmt lögum svo sem hnykkt er á með enn skýrara móti í nýju stjórnarskránni. Hún kveður á um að útvegsmenn greiði fullt gjald fyrir kvótann. Alþingi heldur samt áfram að búa svo um hnútana að útvegsmenn fá áfram að hirða um 90% af sjávarrentunni. Réttum eiganda, fólkinu í landinu, er gert að sætta sig við 10% af tekjunum af eign sinni. Ef þú ættir leiguíbúð, lesandi minn góður, myndir þú láta tengdamóður þína komast upp með að leigja vinum sínum íbúðina fyrir 10% af fullu gjaldi, markaðsgjaldi? Auðvitað ekki. Þess vegna skaltu hafna kvótaflokkunum í kosningunum 25. september. Láttu þá ekki komast upp með að ræna þig áfram. Nú er komið nóg. Segjum hingað og ekki lengra.
12 Lögfestum þjóðarviljann
Lögfesting nýju stjórnarskrárinnar sem 67% kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og hafa ítrekað lýst óbilugum stuðningi við í skoðanakönnunum æ síðan myndi slá margar flugur í einu höggi. Hún myndi eins og hendi væri veifað tryggja jafnt vægi atkvæða og fullt gjald fyrir kvótann og jafnframt skapa skilyrði til að ráðast gegn rótum spillingarinnar ásamt ýmsum öðrum réttarbótum og aukinni umhverfisvernd. Fimm framboð af tíu mæla fyrir nýju stjórnarskránni: Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Hin framboðin fimm eru ýmist andvíg nýju stjórnarskránni eins og útgerðin hafi gleypt þau með húð og hári eða þau slá úr og í. Tryggjum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar í kjörklefanum 25. september. Setjum spillingaröflin til hliðar.
Athugasemdir