Konur eru í miklum minnihluta á lista yfir eitt prósent tekjuhæstu Íslendinganna fyrir árið 2020. Listinn nær yfir 3125 einstaklinga sem, samkvæmt álagningarskrá Skattsins, höfðu hæstar tekjur að teknu tilliti til bæði launatekna og fjármagnstekna.
Aðeins 524 konur komast á listann eða sem nemur 17 prósentum. Með öðrum orðum eru aðeins 0,17 prósent kvenna á meðal tekjuhæsta 1 prósentsins.
Á toppnum vegna sameiginlegra tekna
Sú er situr á toppi listans er kona að nafni Inga Dóra Sigurðardóttir en hún og eiginmaður hennar, Börkur Arnviðarson, fengu myndarlegan arð út úr dönsku tæknifyrirtæki sem þau eiga hlut í ásamt sonum sínum tveimur, Unnsteini og Ásgeiri.
Fyrirtækið, sem Börkur tók þátt í að stofna, hefur stórgrætt á COVID-19 faraldrinum en það framleiðir búnað sem notaður er til nákvæmra mælinga í heilbrigðisgeiranum. Meðal annars við þróun á bóluefnum. Jafnvel þó að fjármagnstekjunum sem þau hjónin höfðu árið 2020 sé skipt í tvennt er Inga Dóra enn meðal allra tekjuhæstu Íslendingunum.
Þessar miklu fjármagnstekjur, sem er ástæðan fyrir því að tekjudrottningin fær krúnu sína, eru sameign þeirra hjóna. Þau eru bæði skráðir eigendur að dönsku eignarhaldsfélagi sem greiddi þeim þessa peninga í arð. Fjármagnstekjurnar eru hinsvegar aðeins skráðar á hana vegna viðmiða skattsins um að gjaldfæra fjármagnstekjuskatt á þann einstakling í hjónabandi sem hefur hærri tekjur. Sömu sögu er að segja um aðra sem hafa fjármagnstekjur; í einhverjum tilvikum eru það ekki sértekjur þeirra heldur hlutdeild í fjármagnstekjum hjóna. Stundin miðar þó við upplýsingarnar eins og Skatturinn skráir þær en hafa verður í huga þessa augljósu annamarka sem eru á gagnasafninu.
Tekjuháu konurnar tekjuhærri
Konurnar sem komast á listann eru þó að jafnaði með hærri heildarárstekjur en karlarnir. Konurnar 524 eru að meðaltali með 47,7 milljónir í árstekjur en karlarnir 46 milljónir. Ef heildartekjur eru skoðaðar, óháð fjölda einstaklinga af hvoru kyni sést hversu mikið meira karlarnir hafa fengið í sinn hlut. Karlarnir þénuðu 120 milljarða króna á síðasta ári á meðan tekjuhæstu konurnar þénuðu 25 milljarða. Munurinn á körlum og konum er því 95 milljarðar króna.
En hvaða konur eru þær tekjuhæstu? Engin kona að Ingu Dóru frátalinni kemst á topp tíu listann - ekki einu sinni topp 20.
Efstu konurnar á hátekjulistanum
2Birna Loftsdóttir, hluthafi í Hval hf, er næst efsta kona á lista og situr í 21. sæti. Bróðir hennar, Kristján Loftsson, sem stýrir Hval hf. er líka á listanum, bara fimmtán sætum ofar í því sjöunda. Fjölskylda þeirra Kristjáns og Birnu auðgaðist fyrst á rekstri Hvals sem, eins og nafnið gefur til kynna, stundaði hvalveiðar og vinnslu. Þau áttu líka um árabil frystitogarann Venus sem síðar rann í útgerðina Granda, sem seinna varð HB Grandi og loks Brim eftir síðustu vendingar. Árið 2018 seldu þau Birna og Kristján og félög í þeirra eigu í Brimi fyrir 21,7 milljarða króna.
Athugasemdir