Í dag eigum við því óláni að fagna að netmiðlaumræðu er nánast allri stýrt af fámennum kjarna netheimastjarna – afar þröngsýnu fólki sem er hokið af fáfræði. Netmiðlastjörnur skreyta sig ryki fávísinnar og bergmála oftar en ekki innantómt gjálfur. Svokallaðar umræður eru í raun fátt annað en blammeringar, ásakanir, barlómur, fórnarlambakúltúr og móðgunarkeppni. Yfirborðsmennska, plebbaháttur og lýðskrum ráða öllu. Staðreyndir eru settar til hliðar á meðan fólk þráttar um skoðanir sem ekki eru byggðar á neinu öðru en persónulegu mati. Ályktanir eru dregnar af skoðunum líkt og um staðreyndir sé að ræða. Skoðanaveldið er ríki hins nýja sannleika þar sem allur valdastrúktúrinn lýtur að því að lýsa persónulegri skoðun, tala um hve allar hinar skoðanirnar eru heimskulegar og ráðast að þeim sem hafa hugsanlega móðgað einhvern með tilvist sinni eða tilvitnun í staðreyndir. Fólk virðist í fáfræði sinni hreinlega ruglast á skoðunum og staðreyndum. En með því að ráðast að skoðunum og halda því fram að ein sé betri en einhver önnur, er ekki verið að gera annað en slást við ímyndaðar vindmyllur.
Allar skoðanir eiga vissulega sinn tilverurétt og allar skoðanir eru jafn réttháar. En gallinn við skoðanir er sá, að sumar eru með einhverjum hætti reistar á staðreyndum en aðrar ekki. Þetta veit hinn fáfróði múgur ekki. Bolurinn bullar bara út í eitt og bíður eftir því að segja eitthvað gáfulegt. Og biðin verður endalaus ef ekki er annað gert en þrátta um skoðanir. Ein staðreynd er nefnilega sú að við getum dæmt skoðanir. Við getum dæmt þær og tekið tillit til staðreynda og við getum dæmt þær með því að kasta fram öðrum skoðunum. Gallinn er sá – þegar svokallaðar umræður í netheimum eru skoðaðar – að þar er ein skoðun sögð röng og önnur sögð rétt jafnvel þótt hvorug hafi nokkra tengingu við raunveruleikann.
Ekki á ég minnstu von um að hinn fáfróði galgopaher hætti að leggja sig í gapastokk heimskunnar. Netheimum verður áfram stjórnað af áunninni fáfræði, beturvitum sjálfsupphafningar og vanvitum skoðanadýrkunar. En það er rétt að benda fólki á að u.þ.b. 1% af öllu argaþrasinu sem er að finna í netheimi er efni reist á rökum. En u.þ.b. 99% alls sem þar er að finna er kjaftavaðall sem ekki á við nein rök að styðjast – önnur en þau að fólk segir að ein skoðun sé rétt og að önnur sé röng. En þau rök eru jafnan falsrök.
Að gefnu tilefni vil ég taka hér dæmi sem ég tel að varði alla Íslendinga. Og þetta er mín skoðum byggð á staðreyndum. Ég tel að ný stjórnarskrá geti breytt íslensku samfélagi til batnaðar, aukið jöfnuð og stuðlað að almennri farsæld. Rök mín fyrir fullyrðingu minni eru þau að í þeirri stjórnarskrá sem stjórnlagaþing lagði fram árið 2012 er að finna ákvæði sem bókstaflega tryggja jöfnuð og taka af allan vafa um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum. Gamla stjórnarskráin býður aftur á móti upp á margs konar túlkun og er af þeim sökum ónýt sem stjórnarskrá lýðveldis.
Svokallaðar umræður um stjórnarskrármálið hafa verið litaðar af gamanlausum vitleysisgangi, tilbúnum þversögnum, útúrsnúningi, andúð, eiginhagsmunapoti og öðru sem jafnan er reist á persónulegum ávinningi en stuðlar síst að betri afkomu heildarinnar. Þeir eru nokkrir gasprararnir sem gapa og geipa. En einkum hefur fólk úr röðum útgerðarmafíunnar fengist við að drepa málum á dreif með orðræðu sem í besta falli er reist á misskilningi eða hreinni fávisku. Oftast er hún þó reist á slóttugum leiðum fram hjá kjarna málsins.
Hér kemur skýrt dæmi um það hvernig skoðunum og staðreyndum er ruglað saman: Um nokkra hríð hefur Kristrún Heimisdóttir farið mikinn í baráttu sinni gegn nýrri stjórnarskrá. Ekki ætla ég hér að væna Kristrúnu þessa um óheilindi eða lygar. Rangfærslur hennar eru þó svo margar að það sem er rétt í málflutningi hennar týnist í innantómu óráðsþrugli. Í leit sinni að leiðum framhjá kjarna málsins fellur Kristrún Heimisdóttir í þá gryfju að þvæla um lög og reglur sem ekkert hafa með staðreyndir málsins að gera. Samtímis virðist Kristrún gleyma því vísvitandi að hið löglega á það oft til að verða siðlaust. Mál þetta snýst ekki um skoðun á því hvað telst fullgerð stjórnarskrá. Það snýst ekki um skoðanir á því hvað einhverjum finnst rétt og hvað einhverjum finnst rangt. Það snýst akkúrat ekkert um það hvað hverjum og einum finnst. Málið er komið úr þeim fasa sem er opinn fyrir því hvað okkur kann að finnast. Þetta mál snýst um staðreyndir. Ein meginstaðreyndin er sú að íslenska þjóðin samþykkti með 2/3 atkvæða að Alþingi bæri að samþykkja hugmyndir stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Önnur staðreynd er sú að Alþingi ber að virða vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu er einfaldlega ekki hægt að hunsa.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 var stuðst við vönduð drög og spurt út í efnisatriði sem ber að innleiða. Þar er til grunnurinn að nýrri stjórnarskrá. Ein staðreyndin er því sú að þar er talað um nýja stjórnarskrá. Spurt var: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Þar með er litið á drögin sem grunn að stjórnarskrá sem eftir á að samþykkja. Ef einhver er á móti nýrri stjórnarskrá, þá er það skoðun hvers og eins. En hráskinnaleikur og hártoganir duga ekki. Staðreyndin er sú að hingað til hefur Alþingi hunsað vilja þjóðarinnar í þessu efni. Ef Kristrúnu Heimisdóttur finnst það í lagi þá verður hún að fá að hafa þá skoðun í friði. En sem betur fer snýst þetta mál ekki um skoðanir Kristrúnar Heimisdóttur. Enda eru skoðanir hennar ekki reistar á staðreyndum. Þær brjóta bókstaflega í bága við lög og góða siði. Nýja stjórnarskráin er til... sem drög. En engu að síður er hún til sem ósamþykkt stjórnarskrá. Hún er til sem nýja stjórnarskráin sem Íslendingar samþykktu sem grunn að lögum landsins. Þetta gerðist í þjóðaratkvæðagreiðslu á því herrans ári 2012.
Athugasemdir