Veraldarvinir eru samtök sem fá til landsins sjálfboðaliða og hafa markmið sem ættu að vera ríkjandi í hugsun okkar allra. Þessi markmið snúa öll að því að bæta líf einstaklinganna í flóknu samspili manns og náttúru. Sjálfboðaliðarnir gegna hér hlutverki sem jaðrar við að skapa fullkomnun, því þeir vinna verk sem ekki er unnt að bjóða öðrum að vinna. Sjálfboðaliðarnir sinna hlutverkum sem eru nauðsynleg en eru oft látin sitja á hakanum.
Þórarinn Ívarsson, stofnandi og aðal hvatamaður að framgangi Veraldarvina, hefur nú í tuttugu ár fengið til landsins nær 2000 einstaklinga á ári hverju. Sjálfboðaliðarnir koma hingað til að vinna verk í þágu náttúrunnar. Þeir eru oftast í einhvers konar hreinsunarstörfum. Að hreinsa strandlengjuna, að dreifa hrossataði og fræi á gróðursnauða jörð, að merkja göngustíga, að safna rusli við þjóðveginn, að hreinsa til á ýmsum stöðum, að fjarlægja ónýtar girðingar, að virkja eitt og annað sem talið er úr sér gengið, og svona mætti lengi telja. Umfram allt er hér á ferð fólk sem vill vernda náttúruna og gefa fólki kost á að þiggja mikið fyrir lítið.
Í samvinnu við sveitarfélög hafa Veraldarvinir staðið að fjölda verkefna sem snúa að hreinsun, ræktun, uppgræðslu, náttúruvernd og uppbyggilegu starfi. En einnig hafa samtökin um langa hríð verið með fræðslustarf og nýsköpun innan sinna vébanda. Sjálfboðaliðarnir hafa farið í gegnum námskeið og notið fræðsluefnis sem ætlað er að stuðla að endurvinnslu, nýsköpun og sjálfbærni. Hér má enn lyfta grettistaki því áhuginn er gríðarlega mikill og erfitt að sinna öllum sem vilja sækja okkur heim.
Lengst af hafa samtökin notið lítils stuðnings íslenska ríkisins. Mörg verkefni hljóta hreina synjun, önnur fá einungis ögn af því sem óskað er. Engu að síður er hér um stórkostlegt tækifæri fyrir land og þjóð. Hér er á ferðinni vinnuafl sem sinnir því sem landsmenn forðast að vinna. Auðvitað er það svo að ólík samtök og jafnvel hinar smæstu einingar hljóta styrki frá ríkinu. En það er einfaldlega vitlaust gefið þegar við getum bent á litlar einingar sem með herkænsku eru áskrifendur að styrkjum á meðan fjöldahreyfing, einsog Veraldarvinir, þarf að berjast til að láta enda ná saman.
Sjálfboðaliðarnir koma víða að. Oft er þetta ungt fólk frá Evrópu en Veraldarvinir hafa þó fengið fólk frá öllum heimshornum. Samtökin þurfa jafnan að fá u.þ.b. 1000 krónur fyrir hvern einstakling í matarpening fyrir hvern unninn starfsdag. Um flutninga starfsmanna til og frá vinnusvæði sjá samtökin. Húsnæði sem samtökin notast við, má oft vera lélegt og þarfnast endurbóta. Sjálfboðaliðarnir eru ávallt með nægjusemi að leiðarljósi. Þessir gestir okkar dvelja í margs konar húsnæði og eru viljugir að taka til hendinni við endurbætur. Það merkilega við þetta starf er sú staðreynd að nær allir sem koma hingað á vegum samtakanna, koma aftur til landsins sem ferðamenn, sem námsmenn eða hreinlega aftur sem sjálfboðaliðar.
Verkefni sem til greina kemur að Veraldarvinir vinni fyrir ríki og sveitafélög eru af ýmsum toga en ávallt er hugsunin sú að verið sé að vinna verk sem annars yrði erfitt að fá fólk til að vinna. Alltaf er hugað að því að ekki megi störf þau sem unnin eru af sjálfboðaliðum skarast við það sem annars væri hægt og eðlilegt að vinna í launavinnu. Þannig er vinnan ávallt í þágu samfélagsins sem heildar en ekki hugsuð sem hagur einstaklinga eða hagnaður fyrirtækja. Störf sem þykja afar óhagkvæm á peningalega sviðinu og krefjast þess að fólk vinni með höndum þar sem aðkoma vélarafls er nær óhugsandi, slík störf falla vel undir þá samfélagsþjónustu sem Veraldarvinir sinna.
Mér er ljúft og skylt að vekja athygli á þessum merku samtökum. Ég hef sjálfur unnið fyrir þessi samtök og hef í raun komið að sjálfboðaliðastarfi í u.þ.b. 20 ár. Ég hika ekki við að benda á það sem vel er gert og ég hika ekki við að benda á það sem misfarist hefur. Ég hef fylgst vel með, hef séð hvernig samtökum á Íslandi er mismunað, hef séð hvernig sum samtök skila mikilli vinnu og miklum arði til þjóðarbúsins á meðan þykjustuleikur virðist vera aðalsmerki annarra. Veraldarvinir hafa skilað stórkostlegu starfi. Ég hef starfað lengi á þessum vettvangi, hef skoðað vandlega það sem gert hefur verið og get því stoltur óskað Veraldarvinum til hamingju með 20 ára afmælið.
Veraldarvinir biðja um að vel verði hugsaður sá kostur og ígrundaður í þaula, að hlúa að sjálfboðaliðastarfi, að hugað verði að endurbyggingu og nýtingu vannýtts húsakosts, að styrkt verði nám og gerð fræðsluefnis fyrir sjálfboðaliða, að því verði sinnt að veita styrki til starfsemi sem er unnin af erlendum sjálfboðaliðum í þágu lands og þjóðar. Betri kostur er vart í boði.
Athugasemdir