Forsvarsmenn hópsins Öfgar hyggjast tilkynna morðhótun til lögreglu. Konurnar segjast hafa búist við hörðum viðbrögðum þegar þær birtu sögur um ónefndan tónlistarmann, en að vinir og ættingjar hafi gert þeim ljóst að hótanir um nauðganir og að vera leiddar fyrir aftökusveit væru alvarlegar.
Tiktok-hópurinn Öfgar samanstendur af átta konum á mismunandi aldri og með ólíkan bakgrunn sem ætluðu að taka sig saman um að fræða fólk um femínisma, meðal annars með léttu gríni. Hópurinn birti 20 sögur af ónafngreindum tónlistarmanni sem nú hefur fjölgað í 32. Enginn var nafngreindur í sögunum, en fjölmiðlar greindu frá því að um Ingólf Þórarinsson væri að ræða, Ingó Veðurguð, sem átti að leiða brekkusönginn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar. Fallið hefur frá þeirri bókun, en Ingólfur hefur sagt ásakanirnar „fáránlegar“. Hann hefur sagst ætla að leita réttar síns í málinu, bregðast við af fullum þunga og að hann sé með nokkra lögfræðinga sér innan handar í málinu.
Hulda Hrund Sigmundsdóttir úr Öfgum segir að ýmislegt misjafnt hafi verið skrifað um þær á netinu síðan þær birtu sögurnar fyrir rúmri viku, enda hafi verið við því að búast. Sumt sé þó alvarlegra en annað. „Það er aðili sem bloggar undir nafni og hann skrifaði að það ætti að taka okkur allar út fyrir skotsveit og taka okkur af lífi. Fyrst fannst okkur þetta ekki vera neitt neitt af því að athugasemdirnar sem við erum að fá eru margar svo mikill viðbjóður, þangað til við fórum að ræða þetta við vini og ættingja. Þau sögðu að þetta væri hótun og að við ættum að tilkynna þetta til lögreglu,“ segir Hulda.
„Við höfum ekki verið að átta okkur á alvarleika þess sem hefur verið skrifað um okkur“
Þá hafi þeim ýmist verið líkt við haturssamtökin Ku Klux Klan eða verið kallaðar nornir. „Við höfum ekki verið að átta okkur á alvarleika þess sem hefur verið skrifað um okkur. Annar bloggari kallar okkur KKK og segir að við séum með sömu aðferðir og hryðjuverkamenn. Sami aðili vildi að við yrðum kærðar fyrir að birta sögurnar.“
Hulda segir að í farvegi sé að tilkynna hótunina til lögreglunnar. „Við erum búin að tala við lögfræðinga sem við þekkjum og það er smá ferli sem við þurfum að fara í fyrst,“ segir hún en bætir því við að mikið hafi einnig verið um jákvæð skilaboð. „Við erum að fá miklu betri viðtökur en okkur óraði fyrir. Miðað við reynsluna af svona aktívisma hingað til finnst okkur þetta mikill meðbyr. Hann gefur okkur orku til að halda áfram.“
Fékk tvö nafnlaus símtöl
Ólöf Tara Harðardóttir, sem einnig er í hópnum, greindi í maí frá því á samfélagsmiðlum að sögur gengju um ofbeldi ákveðins manns gegn konu, en nafngreindi engan í færslum sínum. Í kjölfarið steig Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður fram og hafnaði sögunum. Síðar kom í ljós að tvær konur höfðu kært Sölva til lögreglu.
Ólöf segist hafa sætt miklu áreiti eftir færslurnar. „Ég fékk tvö símtöl úr óskráðum númerum,“ segir hún. „Í öðru var mér hótað nauðgun og líkamsárás í hinu. Að ef ég léti sjá mig út á götu yrði ég lamin í stöppu. Ég fékk líka skilaboð þar sem ég var hvött til að fremja sjálfsvíg.“
„Í öðru var mér hótað nauðgun og líkamsárás í hinu“
Hún leggur áherslu á að hún hafi aldrei nafngreint neinn, ekki frekar en að hópurinn Öfgar hafi tengt sögurnar við Ingólf. „Það er ekki mitt að nafngreina einn né neinn,“ segir hún. „Ég fékk alveg nett sjokk við símtölin, en við vissum alveg að svona mundi gerast. Við viljum undirstrika að þó við séum kallaðar „öfgafemínistar“ þá hefur verið mjög öfgafull orðræða og hótanir gegn okkur.“
Athugasemdir