Allar spurningarnar snúast um hunda, á einn eða annan hátt.
***
Fyrri aukaspurning:
Hvað heitir hundategundin á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Hvað hét fyrsti hundurinn sem fór út í geim?
2. Frægur teiknimyndasöguhundur heitir Scoobie-Doo sem birtist fyrst í teiknimynd Hanna og Barbera árið 1969. Hann er frægur fyrir gott skap og herópið: „Scoobie-Dooby-Doo!“ Af hvaða hundategund er Scoobie-Doo?
3. Annar teiknimyndasöguhundur er persóna í teiknimyndunum um Peanuts eða Smáfólkið, þar sem hann skyggir oft á eiganda sinn Charlie Brown. Hvað heitir þessi hundur?
4. Fyrrnefndur hundur lætur sig oft dreyma um að vera frægur flugkappi. Hvað notar hann sem flugvél?
5. Hvað heitir hundur Mikka músar?
6. Þýskur fjárhundur — eða schäfer-hundur — var nefndur Blondi. Hver var eigandi Blondi?
7. Árið 1974 var frumsýnd kvikmynd þar sem lítill og loðinn og glaðlyndur blendingshundur fór með aðalhlutverkið, flækingshund sem laðast að barnahópi í amerískum smábæ og hjálpar svo til að frelsa þau úr klóm mannræningja. Síðan hefur svipaður hundur með sama nafni troðið upp í hátt í tíu bíómyndum og fjölda sjónvarpsþátta. Söguþráðurinn er yfirleitt svipaður og myndirnar njóta ævinlega vinsælda hjá börnum. En hvað nefnist hundurinn?
8. Hvað hét fyrri hundur Dorritar Moussaieff og Ólafs Ragnars Grímssonar?
9. Lady and the Tramp hét fræg Disney-teiknimynd þar sem hvuttarnir Lady og Tramp kynnast og fella hugi saman. Í frægu atriði eru þau bæði að snæða tiltekinn mat og enda á því að bíta í sama stykkið svo úr verður óvæntur en hugljúfur „koss“ hvuttanna tveggja. Hvað eru þau að borða?
10. Hvaða hundategund hefur orðið tilefni hljómsveitarnafns á Íslandi?
***
Seinni aukaspurning:
Á myndinni hér að neðan er karl sem vann ákveðið afrek fyrir rúmri öld og hundar spiluðu stóra rullu við að honum tókst ætlunarverk sitt. Hvaða maður er þetta?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Laíka.
2. Stór-Dani.
3. Snoopy eða Snati.
4. Hundahúsið sitt.
5. Plútó.
6. Hitler.
7. Benji.
8. Sámur.
9. Spagetti.
10. Rottweiler.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er Pomeraníuhundur.
Á neðri myndinni er norski pólfarinn Amundsen sem komst á suðurpólinn, ekki síst af því hann nýtti sér sleðahunda sem helsti keppinautur hans hafði ekki vit á að gera.
Athugasemdir