Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja og uppljóstrari í Namibíumálinu svokallaða, hefur lagt fram kvörtun vegna Örnu Bryndísar Baldvins McClure, innanhúslögfræðings Samherja, og Jóns Óttars Ólafssonar, rannsakanda útgerðarinnar. Kvörtunin snýr að því hvernig þau tvö, sem starfsmenn Samherja, fóru inn á persónulegan Dropbox-reikning Jóhannesar árið 2016 og svo aftur eftir að uppljóstranir hans birtust.
Eins og Stundin fjallaði um í byrjun júní viðurkenna bæði Arna og Jón Óttar háttsemina í yfirlýsingum sínum til namibískra dómstóla, þar sem ákæra á hendur tveimur fyrrvearndi ráðherraum og mönnum þeim tengdum fyrir spillingu og mútuþægni er til meðferðar. „Í janúar 2020 mundum við eftir Dropbox reikningi sem hafði verið lokaður síðan 21. júlí 2016 og endurræstum það. Fram að því hafði Dropboxið verið lokað og gleymt. Enginn hafði aðgang að því síðan því var lokað í júlí 2016,“ segir Arna í sinni yfirlýsingu.
„Það þarf að loka netfanginu hans og endurstilla lykilorðið á dropbox reikningnum til að læsa hann úti af því þegar þetta hefur verið klárað.“
Fyrir dóminn voru líka lagðir tölvupóstar sem sýna samskipti Örnu við þá Aðalstein Helgason, starfsmann Samherja, og Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra útgerðarinnar á Kýpur, frá árinu 2016, um það leyti sem Jóhannes var að láta af störfum hjá útgerðinni. „Það þarf að loka netfanginu hans og endurstilla lykilorðið á dropbox reikningnum til að læsa hann úti af því þegar þetta hefur verið klárað,“ skrifaði Ingvar í tölvupósti til Örnu og Aðalsteins.
Í kvörtuninni eru þessar yfirlýsingar raktar, sem og frétt Stundarinnar frá 21. maí þar sem fjallað var um greinargerð sem Arna hafði skrifað. Það er annað skjal en það sem lagt var fyrir dóm í Namibíu.
Lögmaður Jóhannesar, sem sendi kvörtunina hans hönd, segir að meðferð starfsmanna Samherja á Dropbox-reikningi Jóhannesar, sem og vinnsla á fyrirtækisins á gögnum úr pósthólfi hans frá þeim tíma sem hann var starfsmaður. Hann hafi ekki verið látinn vita að opna ætti pósthólfið, líkt og reglur um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga geri ráð fyrir.
Í kvörtuninni fer Jóhannes fram á að Samherja verði sektaður fyrir brot á persónuverndarlögum og verði gert að eyða gögnunum sem fengin voru án samþykkis hans úr bæði Dropboxinu og tölvupósthólfi hans.
Athugasemdir