Lítil eða engin virkni var í gosgígnum í Geldingadölum frá því eftir hádegi í dag og órói minnkaði. Gosið náði þó fyrri krafti að nýju eftir klukkan tíu í kvöld.
„Nú seinnipartinn í dag hefur órói við Fagradalsfjall minnkað töluvert. Um sama leyti rofaði til á gosstöðvunum og vefmyndavélar sýna litla sem enga virkni í gígnum,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar í dag.
Of snemmt var talið að segja til um hvort um tímabundið goshlé væri að ræða, eða hvort eldgosið væri þar með yfirstaðið. Þegar gosið stöðvast eða kvikustreymi og hraunrennsli minnkar aukast líkurnar á því að kvika storkni í gosrásinni og hefti frekara streymi. Ekki er þó útilokað að önnur gosop myndist og mikil óvissa er viðloðandi þróunina. Svo virðist sem annað gosop hafi opnast við hlið gígsins í kvöld.
Á vefmyndavél RÚV sást að það rauk úr gígnum en engin hreyfing var á hrauni þar til aftur seint í kvöld. Á öðrum vefmyndavélum sáust drónar, ferðafólk og stórvirkar vinnuvélar, en ekkert hraunstreymi.
Um kvöldmatarleytið varð örlítil aukning á óróa og sást hraun malla við gosopið.
Gosið stöðvaðist síðast á mánudagskvöld en hófst aftur að nýju af miklum krafti á þriðjudagskvöld. Því var talið hugsanlegt að það hæfist á ný með sama sniði eða í breyttri mynd.
Fyrir áhugasama má sjá óróagröf Veðurstofunnar á Fagradalsfjalli á meðfylgjandi slóð.
Á sama tíma og eldgosið hafðist nánast stöðvast stóðu yfir deilur landeigenda við rekstraraðila í ferðaþjónustu. Landeigendur fengu samþykkt lögbann á lendingar þyrlna Norðurflugs og krefjast 20 þúsund króna fyrir hverja lendingu. Þá standa yfir framkvæmdir við Nátthaga sem hindra eiga rennsli hrauns yfir Suðurstrandarveg.
Athugasemdir