Afbrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði í flest öllum flokkum í maí mánuði, borið saman við fyrri mánuð, samkvæmt tölfræði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningum um hegningarlagabrot fjölgaði þannig um ríflega 90 á milli mánaða og fjölgar mikið miðað við tólf mánaða meðaltal, um 20 prósent. Alls voru tilkynnt 896 hegningarlagabrot í maí mánuði. Þeim fjölgar einnig sé horft á sex mánaða meðaltal, um 13 prósent. Það sem af er ári hafa borist 3.846 tilkynningar um hegningarlagabrot, um tvö prósent fleiri en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.
Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði milli mánaða en í maí var tilkynnt um 75 tilvik heimilisofbeldis borið saman við 66 tilkynningar mánuðinn á undan. Miðað við sex mánaða meðaltal jukust tilkynningar um heimilisofbeldi um 4 prósent og um 9 prósent miðað við meðaltal síðustu tólf mánaða. Mikil aukning er á heimilisofbeldi miðað við sama tíma í fyrra en alls hefur verið tilkynnt um 378 tilvik heimilisofbeldis í ár á móti 336 tilvikum á sama tímabili á síðasta ári. Þá hafa borist um 21 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi í ár en bárust að meðaltali ásama tímabili síðastliðin þrjú ár.
40 prósent aukning á tilynntum kynferðisbrotum
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 25 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í maí. Það er sjö tilkynningum meira en í apríl mánuði og átta tilkynningum meira en í mars. Engu að síður fækkar slíkum tilkynningum sé miðað við meðaltal síðustu sex mánaða um tólf prósent. Ástæðan er fyrst og fremst sú að gríðarlegur fjöldi kynferðisbrota var tilkynntur til lögreglu í desember mánuði síðastliðnum, alls 79 tilkynningar. Sé horft til meðaltals síðustu tólf mánaða er breytingin engin, og aftur vegur þessi mikli fjöldi tilkynninga í desember hæst þar. Það sem af er ári hafa verið tilkynnt jafn mörg kynferðisbrot og voru tilkynnt á sama tíma síðasta ár, 105 talsins.
Hins vegar varð veruleg aukning á skráðum kynferðisbrotum í maí mánuði, og er þá átt við þau brot sem skráð voru óháð því hvenær brotin voru framin. Í maí mánuði voru tilkynnt 48 kynferðisbrot, 25 fleiri en mánuðinn á undan. Tilkynningum um um kynferðisbrot hefur fjölgað um 40 prósent sé miðað við meðaltal síðustu tólf mánaða, en breytingin er engu að síður innan útreiknaðra tölfræðimarka. Vegur þar mest mikill fjöldi tilkynninga í nóvember, desember og janúar síðastliðnum. Í þeim mánuðum var tilkynnt um 63, 44 og 70 kynferðisbrot. Það sem af er ári hafa verið skráð 201 kynferðisbrot, 69 fleiri brot en á sama tíma á síðasta ári. Fjöldinn er svipaður og árið 2019 en þá var búið að tilkynna 203 kynferðisbrot á sama tíma.
Fleiri ofbeldisbrot og meira um þjófnaði
Í maí voru skráðar 126 tilkynningar um ofbeldisbrot og fjölgar um 31 milli mánaða. Í flestum tilfellum var um minniháttar líkamsárásir að ræða en þó vou tilkynntar 18 stórfelldar líkamsárásir í mánuðinum. Tilkynningum fjölgaði bæði miðað við sex mánaða meðaltal og tólf mánaða, um 23 prósent í fyrra tilvikinu og 21 prósent í því síðara.
Tilkynningum um þjófnaði fjöglaði um ríflega 60 milli mánaða en 408 þjófnaðir voru tilkynntir í maí. Þjófnuðum fjölgaði mikið miðað við meðaltal síðustu sex mánaða, um 43 prósent og um fjórðung miðað við síðustu tólf mánuði. Fjöldi tilkynninga um innbrot stóð því sem næst í stað, 89 slík voru tilkynnt í maí. Miðað við meðaltal síðustu sex mánaða fjölgaði tilkynningum um innbrot um 26 prósent og um 17 prósent miðað við síðustu tólf mánuði.
Skráðum fíkinefnabrotum fjölgaði milli mánaða og er þau einnig fleiri sé miðað við bæði sex og tólf mánaða meðaltal. Hið sama má segja um umferðarlagabrot, um akstur undir áhrifum og eignaspjöll.
Athugasemdir