Nýráðinn fjármálastjóri Orkusölunnar, Elísabet Ýr Sveinsdóttir, var meðal þeirra Íslendinga sem namibíska lögreglan freistaði að hafa uppi á með aðstoð alþjóðalögreglunnar Interpol. Þetta sýna gögn sem lögð hafa verið fram fyrir namibískum dómstólum. Í beiðninni til Interpol, sem lögð var fram síðastliðið sumar, sagðist lögreglan gruna hana og níu aðra nafngreinda starfsmenn Samherja um lögbrot. Hún er þó ekki meðal þeirra þriggja sem saksóknari í Namibíu hefur viljað ákæra í því máli sem nú er til meðferðar fyrir dómstólum.
Tilkynnt var um ráðningu Elísabetar Ýrar til Orkusölunnar í dag. Það er fyrirtæki sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins í gegnum opinbera hlutafélagið Rarik.
Elísabet Ýr var um árabil starfsmaður Samherja í Evrópu og kom sem slík að millifærslum frá kýpverskum dótturfélögum útgerðarinnar til Dúbaí-félagsins Tundavala Investment, félags í eigu James Hatuikulipi, stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar Fischor. Nafn hennar hefur lítið sem ekkert verið nefnt í fréttum af Namibíumálinu, en hún hefur engu að síður verið einn af lykilstarfsmönnum Samherja um árabil.
Í gögnum sem lögð voru fyrir dóm í Namibíu á síðasta ári kemur fram að hún hafi samþykkt millifærslur til Dúbaí-félagsins ásamt Ingvari Júlíussyni, fjármálastjóra Samherja á Kýpur. Hann er einn þriggja Íslendinga og Samherjamanna sem namibíski saksóknarinnar hefur sagst vilja ákæra. Saksóknarinn hefur farið fram á að hann verði framseldur til Namibíu svo hægt sé að birta honum ákæruna og rétta yfir honum.
Í yfirlýsingu sem Ingvar sendi dómnum í síðasta mánuði vísaði hann allri ábyrgð á millifærslunum á Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara Namibíumálsins. Millifærslurnar sem um ræðir voru þó á milli félaga sem Jóhannes stýrði ekki og af reikningum sem hann hafði ekki aðgang að. Stór hluti millifærslnanna átti sér líka stað eftir að Jóhannes hætti störfum hjá Samherja árið 2016. Til að mynda þær greiðslur sem Elísabet Ýr samþykkti.
Athugasemdir