Útgerðarfélagið Samherji hefur beðist afsökunar á framgöngu stjórnenda þess í viðbrögðum við fréttaflutningi um fyrirtækið. Í yfirlýsingu þess frá því í gær er umfjöllun sögð „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum“. Er þar vísað í umfjöllun um Namibíumálið og viðbrögð við henni.
Í yfirlýsingu útgerðarinnar er beðist afsökunar á framgöngu stjórnendur fyrirtækisins í viðbrögðum við það sem kallað er neikvæð umfjöllun um félagið og „ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum.“
Bregðast við afhjúpun
Yfirlýsingin frá Samherji var viðbragð við fréttum Stundarinnar og Kjarnans um „skæruliðadeild“ fyrirtækisins. Í umfjöllun miðlanna voru brot úr samskiptum starfsmanna og ráðgjafa Samherja afhjúpuð en þar var meðal annars rætt um hvernig koma ætti í veg fyrir að Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í Namibíumálinu, myndi bera vitni fyrir dómi í Namibíu.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber“
Árásir á blaðamenn og þá sem gagnrýnt hafa framferði fyrirtækisins voru einnig til umræðu á milli þessara starfsmanna; til að mynda fjölda greina sem innanhúslögmaður Samherja og utanaðkomandi almannatengslaráðgjafi sömdu en birtu í nafni skipstjóra hjá félaginu.
Samherji segir þessi samskipti hafi verið persónuleg og ekki átt að verða opinber.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg,“ segir í yfirlýsingunni.
Einstaka starfsmenn og fyrirtækið sjálft hafa hins vegar ekki svarað spurningum um málið.
Gerir athugasemdir við afsökunina
Helgi Seljan fréttamaður, sem einna helst hefur orðið fyrir barðinu á skæruliðadeild fyrirtækisins sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hann túlkaði yfirlýsingu Samherja sem einlæga. „Að því sögðu þá eru auðvitað hlutir sem hafa gerst á þessu einu og hálfa ári sem þetta slær ekkert striki yfir,“ sagði hann.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV, segir að þó kveði við nýjan tón frá Samherja sé ýmislegt sem vanti. „Í fyrsta lagi er ekki mjög skýrt hver er að biðjast afsökunar,“ skrifar hann á Facebook og bendir á að enginn sé skrifaður fyrir afsökunarbeiðninni. Hann spyr af hverju stjórnendurnir sjálfir hafi ekki beðist afsökunar á framferði sínu.
Heiðar spyr einnig hvern sé verið að biðja afsökunar. Enginn er nefndur á nafn í afsökunarbeiðninni. Fyrir liggur að fyrirtækið hefur ekki beðið Helga sjálfan afsökunar á framgöngu sinni.
„Kannski hefði þessi afsökunarbeiðni verið betri ef það væri skýrara hver væri að biðja hvern afsökunar og á hverju“
Þá segir Heiðar óljóst á hverju sé verið að biðjast afsökunar á. Hann nefnir að fyrirtækið hafi sakað fréttamenn Kveiks um að falsa skjöl, reynt að hafa af fjölmiðlafólki æruna og sent „spæjara“ á eftir Helga Seljan, sem sendi honum ógnandi sms-skilaboð og sat fyrir honum á kaffihúsi, og njósnað um aðra fjölmiðlamenn og listamenn.
„Er það kannski allt þetta eða eitthvað annað sem ekki hefur komið fram í opinberri umræðu?“ spyr Heiðar.
„Kannski hefði þessi afsökunarbeiðni verið betri ef það væri skýrara hver væri að biðja hvern afsökunar og á hverju. Eins og fram kom í frétt RÚV í kvöld þá vildi forstjóri Samherja ekki veita viðtal til að skýra það. Ekki frekar en hann hefur viljað veita viðtöl til að svara þeim ásökunum sem settar hafa verið fram,“ segir varafréttastjórinn.
Athugasemdir