Saksóknari hefur ákært fjóra, þrjá karla og eina konu, fyrir aðild að morðinu á Armando Beqiri í Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn. Meðal þeirra er Angelin Sterkaj sem hefur játað að hafa orðið Armando Beqiri að bana með því að skjóta hann níu sinnum í bæði búk og höfuð. Anton Kristinn Þórarinsson, eini Íslendingurinn sem hafði stöðu sakbornings var ekki ákærður.
Anton sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins og sætti í kjölfarið farbanni. Lögmaður hans, Steinbergur Finnbogason, var vikið úr stöðu verjanda eftir að hann var kallaður til skýrslutöku vegna málsins að ósk lögreglu. Fjórtán manns höfðu réttarstöðu sakborninga í rannsókn lögreglunnar á morðinu í Rauðagerði.
Anton mun leita réttar síns
Steinbergur sagði í samtali við Vísi að Anton muni leita réttar síns vegna rannsókn lögreglu. „Þetta er enn eitt augljósa dæmið um hvernig lögreglan fer stundum offari í rannsóknum sínum og yfirlýsingum,“ segir hann við Vísi.
Þá sagði hann einnig að forsenda fyrir gæsluvarðhaldi, húsleit, farbanni og „alls kyns fjölmiðlayfirlýsingum dögum og vikum saman“ yrði að vera rökstuddur grunur um saknæmt athæfi og slíkur grunur hafi ekki fundist. „Umbjóðandi minn var með fjölskyldu sinni úti á landi þegar atburðurinn átti sér stað og kom þar einfaldlega hvergi nærri,“ sagði Steinbergur.
Hann segir lögreglu hafa haldið uppi „leiktjöldum“ löngu eftir að rannsóknin hafði veikt grunsemdir til muna og að lögregla hafi beitt „bellibrögðum“ með því að fara fram á að víkja Steinbergi úr stöðu verjanda „fullkomlega að ástæðulausu eins og ljóst var allan tímann“.
Steinbergur vildi ekki tjá sig um málið við Stundina þegar eftir því var leitað.
Athugasemdir