Rúmlega sex milljarða króna sektargreiðsla norska ríkisbankans DNB vegna brota á lögum um varnir gegn peningaþvætti í viðskiptasambandi hans við Samherja er orðin að pólitísku hitamáli í Noregi. Greint var frá sektargreiðslunni í morgun. Það er norska fjármálaeftirlitið sem leggur sektina á DNB-bankann en hann er að hluta til í eigu norska ríkisins.
Samhliða var birt skýrsla um viðskiptasamband DNB við Samherja þar sem fjármálaeftirlitð fettir fingur út í fjölmörg atriði í viðskiptum Samherja og bankans, meðal annars það hvernig félagið Cape Cod í skattaskjólinu Marshall-eyjum gat verið viðskiptavinur bankans í áraraðir án þess að bankinn hefði staðfestar upplýsingar um eignarhald félagsins.
Inntakið í gagnrýni fjármálaeftirlitsins er að DNB hafi í mörgum tilfellum - ekki bara í Samherjamálinu - brotið gegn lögum um eftirlit með peningaþvætti með því að krefja viðskiptavini bankans ekki um fullnægjandi upplýsingar um eignarhald félaga sem stunduðu viðskipti í gegnum bankann.
Ráðuneytið vill fund með DNB
Nú hefur viðskiptaráðherra Noregs, Iselin Nybø, kallað eftir fundi með stjórn DNB vegna málsins. „Það er eðlilegt að ríkið sem eigandi setji sig inn í þá gagnrýni sem komið hefur fram. Ráðuneytið hefur farið fram á fund með stjórnarmönnum í DNB til að fá upplýsingar um málið.“ Þetta er haft eftir Nybø í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv.
„Ráðuneytið hefur farið fram á fund með stjórnarmönnum í DNB til að fá upplýsingar um málið“
Í frétt norska blaðsins er haft eftir fleiri aðilum í norsku stjórnmálalífi að málið sé alvarlegt og að það kunni að hafa afleiðingar. „Þetta er mjög alvarlegt,“ er haft talsmanni stjórnmálaflokksins SV í efnahagsmálum, Kari Elisabeth Kaski.
Hvar liggur ábyrgðin?
Blaðamenn í Noregi eru farnir að spyrja spurninga um hver það er sem á endanum ber ábyrgð á því að þessi stærsti banki Noregs gat klúðrað eftirliti sínu með viðskiptavinum sínum með þessum hætti. Í skýrslum fjármálaeftirlitsins norska er fullyrt að bankinn hafi brotið lög um eftirlit með peningaþvætti. Svo virðist sem kallað sé eftir því að einhver innan DNB taki ábyrgð í málinu.
Tekið skal fram að ekki er fullyrt að Samherji hafi sjálfur stundað peningaþvætti í gegnum bankann. En þetta er eitt af þeim atriðum sem er til rannsóknar í Samherjamálinu á Íslandi og í Namibíu. DNB er því sagður hafi brotið lög með eftirlitsleysi sínu gagnvart félögum Samherja og þess vegna er bankinn sektaður um rúma sex milljarða.
Í viðtali við Dagens Næringsliv segir Kjerstin Braathen að það sé hún sem á endanum beri ábyrgð á málinu. Braathen tók samt bara við sem forstjóri DNB í september 2019, tveimur mánuðum áður en Samherjamálið í Namibíu kom fram í dagsljósið. „Sumir af þessum hlutum, eins og Samherjamálið, eru gömul mál.[…] En það er ég sem forstjóri samstæðunnar og það er ég sem á endanum ber æðstu ábyrgðina fyrir hönd DNB og við tökum gagnrýnina mjög alvarlega,“ segir Braathen.
Aðspurð hvort hún hafi íhugað stöðu sína vegna Samherjamálsins segir Braathen að spyrja þurf stjórn bankans að því. Í frétt Dagens Næringsliv staðfestir stjórnarformaður DNB, Olaug Svarva, að Braathen njóti trausts stjórnarinnar.
Eins og er hefur því enginn innan DNB verið látinn sæta ábyrgð vegna Samherjamálsins í DNB og staðfestir Braathen þetta í samtali við Dagens Næringsliv. Miðað við viðbrögð norskra stjórnmálamanna þá gæti þetta hins vegar breyst.
Athugasemdir