Alþingi fundaði langt fram á nótt til þess að ræða fjölda mála, meðal annars frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um sóttvarnarhús og för yfir landamæri. Frumvarpið var samþykkt á fimmta tímanum og gefur ráðherra heimild til að skylda ferðamenn frá hááhættusvæðum í sóttkví eða einangrun í sóttvarnarhúsi.
Þingmenn stjórnarmeirihlutans studdu frumvarpið, en flestir aðrir þingmenn sátu hjá. Tveir kusu á móti, Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata.
Með lögunum fær heilbrigðisráðherra heimild til þess, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.
Ferðamenn þurfa að óska undanþágu tveimur sólarhringum fyrir komu þeirra til landsins. Þá skal ráðherra skilgreina hááhættusvæði í reglugerð, að tillögu sóttvarnarlæknis, birta listann og endurskoða hann á tveggja vikna fresti.
Athugasemdir