Á árabilinu 2018 til 2020 sneri Landsréttur sakfellingu héraðsdóms í kynferðisbrotamálum í sýknu í tíu tilfellum. Í einu tilfelli var sýknu í héraðsdómi snúið í sakfellingu fyrir Landsrétti. Á sama árabili mildaði Landsréttur refsingu í kynferðisbrotamálum í átján tilvikum en þyngdi refsingu í sjö tilvikum.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata. Andrés lagði fram fyrirspurn þar sem hann spurði um afdrif dóma Landsréttar í kynferðisbrotamálum á nefndu árabili.
Á þessum þremur árum féll 71 dómur í Landsrétti í kynferðisbrotamálum. Af þeim voru tveir síðar ómerktir með dómum Hæstaréttar og eru þeir dómar ekki hluti af tölfræðinni sem birt er í svari ráðherra. Þá var og eitt kynferðisbrotamál fellt niður þar eð áfrýjun þess var afturkölluð. Enginn dómur héraðsdóms í kynferðisbrotamáli var ómerktur á tímabilinu en í tveimur tilfellum var málum vísað frá, í öðru tilvikinu í heild en í hinu að hluta.
Í 31 einu máli var fyrri dómur héraðsdóms staðfestur að öllu leyti, eða í 45 prósent mála. Í 25 tilvikum var dómi héraðsdóms hins vegar breytt þegar kom að mati á refsingu vegna brotsins. Sem fyrr segir var refsing hinna dæmdu milduð í átján tilvikum en þyngd í sjö tilvikum. Það þýðir að refsing var milduð í 26 prósentum þeirra kynferðisbrotamála sem Landsréttur fjallaði um en þyngd í tíu prósent tilvika.
Þá var dómum héraðsdóms snúið í ellefu tilvikum. Í tíu skipti var sakfellingu snúið í sýknu, sem jafngildir fimmtán prósentum allra kynferðisbrotamála sem komu til kasta Landsréttar. Í einu tilviki var sýknu snúið í sakfellingu, sem samsvarar 1,5 prósentum allra málanna.
Athugasemdir