Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari
„Hamingjan er eins og hlýtt hreiður í brjóstinu. Minningar þar sem þú gafst af þér; þar sem þér var gefið. Þegar þú hvíldir í náð hins æðsta.
Leiftur úr æsku; að reka kýrnar út í Salthöfða, leggjast milli þúfna og horfa á skýin, naga strá, spila Bach á fótstigna orgelið. Fá að sjá heiminn, þvælast um ókunnar slóðir í sólskini með bakpoka, verða ástfangin, eignast fjölskyldu, sjá börnin vaxa. Og allt í einu toga litlir fingur: Amma, komdu að kubba. Finna aftur ilm af ungbarni. Hjóla á nagladekkjum í sund, heitur pottur, kaldur pottur, stjörnurnar fyrir ofan gufustrókana. Læða lófa í annan, gamalkunnan, hlýjan, traustan.“
Embla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands
„Hérna áður fyrr stóð ég í þeirri trú að hamingjan væri áfangastaður en það er orðið langt síðan ég gerði mér grein fyrir því að svo er ekki. Það fylgdi þeirri uppljómun ákveðið frelsi. Í mínum huga er hamingjan augnablik sem verða til þegar þú gefur þér tíma til að staldra við og njóta. Það getur verið morgunkaffið á laugardegi, þegar ég er að elda mat með syni mínum, kvöldsólin á Möðrudalsöræfum, vel unnið verk, hugleiðsla, gönguferð á fjöllum eða meðfram sjónum eða góð bók. Ég held að það sé undir hverjum og einum komið að finna þessa litlu hamingjuvasa og nýta þá til að búa til innra jafnvægi þannig að hægt sé að halda áfram að takast á við lífið og tilveruna.
Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði HÍ
„Hamingjan ræðst af verðmætamati, viðmiðum og reynslu. Hún mótast af viðhorfum, svo sem trausti og þakklæti til þess sem hver og einn telur jákvætt fyrir sjálfa(n) sig, umhverfi sitt og/eða samfélag. Hún mótast í öruggum aðstæðum. Öryggi barnsins gagnvart þeim sem ala því önn, unga fólksins frammi fyrir leiðbeinendum sínum og fullorðna fólksins til þeirra aðstæðna sem það býr við – hvort heldur eru félagslegar, fjárhagslegar eða menningarlegar. Orðatiltækið „hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst“ stuðlar að auknu æðruleysi og virkar sem lóð á vogarskál hamingjunnar.“
Páll Palomares fiðluleikari
„Hamingja er sú vellíðunartilfinning sem á sér stað þegar maður horfir á eitthvað sem manni þykir vera fallegt, upplifir eitthvað sem snertir í manni hjartað eða framkvæmir eitthvað sem er manni einhvers virði. En hamingja er líka val, að velja að vilja vera hamingjusamur. Þeir sem kjósa þann lífshátt geta fundið fyrir hamingju út frá hinum minnstu hlutum og aðstæðum á meðan aðrir eiga kannski margt en finna sjaldan fyrir hamingjunni. Því hamingja er í smáhlutunum, í ilminum sem maður finnur þegar maður vaknar við hliðina á makanum sem maður elskar, í fallegu blómunum sem maður sér þegar fer að vora og í þakklætinu sem maður fær frá manneskju sem maður hefur getað hjálpað.
Athugasemdir