Þann 18. mars síðastliðinn opnuðu myndlistarmennirnir Almar Steinn Atlason og Hákon Bragason dyrnar upp á gátt, Drop in húsgögn, engar tímapantanir, smíðaverkstæði staðsett í Gunnfríðargryfju í Ásmundarsal. Saman mynda þeir listatvíeykið Brjálað að gera og hafa síðustu vikur framið praktískan gjörning í gryfjunni og smíðað húsgögn/skúlptúra eftir pöntunum, gegn vægu gjaldi. „Við setjum þetta upp sem skemmtilega upplifun, að koma á verkstæði listamanna þar sem ríkjandi er stemning, viðarilmur og kaffibrúsar,“ lýsa Almar og Hákon.
Dúóið hefur unnið mikið saman í gegnum tíðina og hafa alltaf tekið ríkan þátt í sköpunarferli verka hvors annars, en þetta er í annað skiptið sem þeir setja upp sýningu saman. Verkstæðið verður opið fram til 1. apríl svo það er enn tími til að komast í hóp ánægðra viðskiptavina. Opnunartími er frá níu til fimm alla virka daga og frá tíu til fimm um helgar.
Engar tímapantanir leyfðar
Verkefnið lýsir sér þannig að fólk getur komið og pantað sérsmíðuð húsgögn, sérsniðin að þeirra þörfum, sem framleidd eru samstundis og afhent klukkustund síðar. Almar og Hákon þurfa að hafa hraðar hendur og klára húsgögnin á meðan fólk hoppar í búð eða fær sér kaffibolla. En það myndast góð stemning og kjöraðstæður til heitaportsumræðna. „Við erum líka með biðstofu þar sem hægt er að bíða eftir næsta lausa tíma.“ Hillbilly hefur einmitt dálæti af biðstofum og mikill plús að skúlptúr eða húsgagn bíði manns að bið lokinni en ekki tunguspaði í koki. „Við höfum báðir alltaf verið heillaðir af fegurðinni á dekkjaverkstæðum, í nördavöruverslunum og þesslags menningarkimum. Okkur langaði að sýna slíka fegurð á safni.“
Hugmyndin að verkefninu kviknaði vegna söfnunaráráttu myndlistarmannanna tveggja og fannst þeim þeir þurfa á einhvern hátt að réttlæta öll plássfreku verkfærin sem þeir höfðu sankað að sér í gegnum tíðina. Þeir fóru rakleiðis á Youtube og kenndu sjálfum sér á öll þessi verkfæri. „Svo höfum við heyrt að það sé næstum jafn lítið að hafa uppúr húsgagnasmíði og myndlist svo við ákváðum að færa okkur upp um tekjuþrep í hægaganginum,“ útskýra þeir. „Úthald, praktískir gjörningar og trésmíði eru líka allt bara svo dásamlegir hlutir.“
Ekkert ábyrgðarskírteini
Verðlagningu er haldið í lágmarki svo sem flestir geti orðið sér úti um sérsmíðuð húsgögn á methraða. Húsgögnin eru öll framleidd án ábyrgðarskírteinis en myndlistarmennirnir tveir setja sér og viðskiptavinum sínum reglur um framkvæmd húsgagnanna og áskilja sér heimild til að túlka pöntun, teikningu, mælieiningar og efni eftir eigin hentisemi. „Efniviðurinn er meira og minna timbur, aðallega ódýrt timbur nema annað sé sérstaklega tekið fram.“ Varðandi hvers lags húsgögn sé hægt að panta segjast þeir vera opnir fyrir öllu. „Við höfnum engri pöntum, gerum alltaf eitthvað,“ útskýra þeir og er Hillbilly forvitin um hvort dúóið hafi reynslu af húsgagnasmíði og svarið er einfalt: „Ef við hefðum einhverja haldbæra reynslu af húsgagnasmíði hefðum við aldrei vaðið svona kátir út í þetta verkefni.“ Hákon smíðaði að vísu einu sinni kaffiborð en Almar segist verða feiminn og fá aðsvif í nálægð sandpappírs. Hillbilly glottir að tilhugsuninni.
Hratt, flott og ódýrt
Drop in Húsgögn, engar tímapantanir er samfélagsrýninn gjörningur. Almar og Hákon vinna með mörk myndlistar og hönnunar, gjörninginn sem praktískt listform og hraðann sem við búum í í samfélaginu í dag.
Aðspurðir hvernig þeir vilja tengja verkefnið neyslusamfélaginu svara þeir: „Við elskum hratt, flott og ódýrt. Hvað er hægt að gera á klukkutíma? Við vitum það ekki en okkur langar gjarnan að prófa.“ Þeir velta upp spurningum á borð við „Afhverju er þvottavél sem þvær á hálftíma góð en þvottavél sem þvær á þremur klukkustundum léleg ef þvotturinn kemur jafnhreinn úr báðum? Hvers vegna kostar full vínflaska í ríkinu 1.800 kr. en tóm vínflaska í húsgagnaverslun 7.000 kr.? Myndum við ráða okkur í vinnu upp á 1.800 kr.- á tímann? Myndum við vinna í klukkustund í skiptum fyrir vínflösku?“ Þeir hafa engin svör en ákváðu þó að vaða blátt áfram í þetta verkefni og hafa hingað til fengið góð viðbrögð. „Við erum himinlifandi, finnum fyrir miklum meðbyr og stuðningi úr flokknum. Næstum því meira að segja þrýstingi eftir breyttri forustu úr grasrótinni.“ Það endar kannski með því að þessir ódýru hlutir endi sem rándýr uppboðsfengur í framtíðinni. Hver veit svosem?
Dúóið heldur áfram að varpa spurningum út í algleymið. „Af hverju erum við með borðstofuborð sem passar næstum því í stofunni og afhverju er helvítis skógrindin alltaf að detta? Við erum bara svona að spekúlera þetta. Værum við klukkutíma að blása glerflösku, stappa berfættir á nokkrum berjarunnum og hella svo sullinu í flöskuna? Nei maður bara spyr sig svona af og til.“
Í Covid fréttum segir dúóið það vera dásamlegan tíma fyrir unga myndlistarmenn og kvarta ekki. „Meiri tími fyrir stúdíóvinnu, minni aðsókn á sýningar og aukið umburðarlyndi fyrir óvinnandi auðnuleysingjum.“
Athugasemdir