Mannshugurinn gerir okkur kleift að geta hugsað langt fram í tímann sem kemur oft að góðum notum. Fólk getur þannig reynt að tryggja örugga framtíð fyrir sig og sína. En þegar óvissan er mikil og framtíðin óljós getur það valdið óhóflegum kvíða. Þó flestum finnist erfitt að takast á við mikla óvissu og hafa ekki stjórn á aðstæðum sínum reynist það sumum erfiðara en öðrum. Segja má að sumir séu með hálfgert óþol fyrir óvissu.
Ástandið sem nú hefur varað lengi getur verið sérlega erfitt fyrir þá sem hneigjast til þess að hafa áhyggjur af ýmsum hlutum, að sjá fyrir hvað getur gerst og búa sig sífellt undir það sem lífið getur hugsanlega boðið upp á. Þegar fólk reynir í sífellu að sjá fyrir öll „hvað ef-in“ í lífinu, getur það valdið miklum og óhóflegum áhyggjum. Eitt „hvað ef ...“ leiðir hæglega að tveimur öðrum „hvað ef-um ...“ sem leiða kannski bæði að öðru og enn alvarlegra „hvað ef-i ....“. Tökum dæmi: Hvað ef það kemur ný bylgja Covid? Hvað ef ég þarf að fara í sóttkví? Hvað ef ég veikist? Hvað ef ég fæ mikil eftirköst? Hvað ef ég get ekki unnið? Hvað ef ég missi vinnuna? Hvað ef ég get ekki borgað leiguna? Hvað ef við missum íbúðina? Hvað ef við þurfum að flytja? Hvað ef við lendum á götunni? Hvað ef 8 ára sonur okkar þarf að skipta um skóla? Hvað ef honum mun líða illa í nýjum skóla og ekki eignast vini? Hvað ef hann lendir í slæmum félagsskap? Hvað ef hann hættir í skóla? Hvað er hann fer að nota eiturlyf ... Svona væri eflaust hægt að halda endalaust áfram og sjá fyrir sér ýmsar hörmungar sem hugsanlega gætu dunið yfir mig og fjölskyldu mína vegna Covid. Það er kannski auðvelt að sjá að þetta eru óhóflegar áhyggjur af hlutum sem verða trúlega aldrei að raunveruleika þegar búið er að skrifa þær svona niður eða segja þær upphátt. En þegar hugsanir og áhyggjur eru á fleygiferð í einum hrærigraut í höfðinu getur verið erfitt að koma auga á hversu langt maður er kominn fram úr sér. Fólki finnst það kannski bara vera samviskusamt, að passa að allt verði í lagi hjá sér og sínum og áttar sig ekki á að það er með miklar og óhjálplegar áhyggjur sem leiða af sér kvíða. Þegar þeytivinda hugsana fer svona af stað er hætt við að líkaminn bregðist við með miklum líkamlegum kvíðaeinkennum. Hraður hjarsláttur, ör og grunn öndun, vöðvaspenna og óþægindi í maga eru dæmi um líkamleg einkenni óhóflegra áhyggna. Þegar líkaminn bregst við á þennan hátt, er líklegt að áhyggjurnar virki enn sennilegri og þá aukast einnig líkur á að fólki finnist það þurfa að bregðast við þeim, gera eitthvað til að tryggja að allt verði í lagi. Fólk grípur þá til alls kyns öryggisráðstafana, til að koma í veg fyrir að það sem það óttast rætist eða undirbúa sig til að geta tekist á við hugsanlegar hörmungar. Slíkar aðgerðir geta svo aftur aukið á streitu og álag í lífinu og ýtt þannig undir kvíða og áhyggjur.
Það er meira en að segja það að koma sér út úr slíkum vítahring áhyggna, kvíðaeinkenna og öryggisráðstafana. En hér eru þrjú ráð sem hægt er að byrja á að skoða.
1.Prófaðu að fylgjast með áhyggjum þínum og jafnvel skrifa þær niður. Líta þær allar út fyrir að vera jafn sennilegar þegar þú ert búinn að skrifa þær niður? Getur verið að þú sért kominn langt fram úr þér í mörgum tilfellum, að þú sért að ofhugsa hlutina? Getur verið að það sé hreinlega óhjálplegt að ofhugsa hlutina svona? Eru aðrar og hjálplegri leiðir til að hugsa? Skrifaðu þær niður.
2. Reyndu að koma auga á óhóflegar og óhjálplegar öryggisráðstafanir. Oft eru óhjálplegar öryggisráðstafanir eitthvað sem fólki finnst að hljóti að vera algerlega nauðsynlegt til þess að allt gangi upp. En staldraðu við, getur verið að þú sért með óhóflegt skipulag? Að þú sért of mikið að tékka og passa upp á að allt sé alltaf í lagi alls staðar? Prófaðu síðan að sleppa óhóflegum öryggisráðstöfunum í nokkra daga. Getur verið að það fari ekki allt fjandans til þó að þú slakir örlítið á? Dæmi gæti verið að leyfa 8 ára barni að bera ábyrgð á því að pakka sundfötunum sínum eða leyfa tölvupóstunum að bíða þar til á morgun. Hér ber að athuga að kvíði getur aukist tímabundið á meðan verið er að prófa að sleppa öryggisráðstöfunum. En ekki gefast upp, prófaðu til þess að læra. Athugaðu hvort þú getur aukið þol þitt fyrir óvissu.
3. Frestaðu áhyggjum þínum og öryggishegðun. Taktu frá smá tíma á hverjum degi þar sem þú mátt hafa áhyggjur en geymdu áhyggjur sem þú tekur eftir fram að þeim tíma. Hvað gerist? Fer allt úr böndunum þó að þú sért ekki með eilífar áhyggjur og aðgerðir til þess að passa að allt sé alltaf í lagi? Í öllum þessum leiðum er lykilatriði að prófa sig áfram í þeim tilgangi að læra af því. Við viljum ekki vera að pína okkur áfram bara til þess að þvinga sig til að slaka á. Það sem við viljum ná fram er aukið þol fyrir óvissu. Auknu þoli fyrir óvissu er hægt að ná með því að staldra við og prófa sig áfram til þess að læra að óvissa er óhjákvæmilegur partur af lífinu og það að ætla alltaf að koma í veg fyrir óvissu með því að sjá hana fyrir og með öryggisráðstöfunum getur hreinlega verið að auka kvíða og streitu í lífinu.
Að lokum vil ég benda á að þegar áhyggjur eru orðnar verulega hamlandi og hafa mikil áhrif á líðan og virkni fólks er mikilvægt að leita sér faglegrar aðstoðar. Ég bendi sérstaklega á heilsugæslustöðvar, bráðageðdeild Landspítala, BUGL, Píeta-samtökin og sjálfstætt starfandi sálfræðinga.
Athugasemdir