***
Fyrri aukaspurning:
Konan hér að ofan hét Irma Grese. Var hún dómari í skautakeppni (og því með þetta númer á lofti) eða hvað á þetta númer að þýða? Hvert er sem sagt hennar tilkall til frægðar?
***
Aðalspurningar:
1. Hvað þýðir franska hugtakið „Coup de grâce“ sem notað er í mörgum tungumálum?
2. Hver skrifaði leikritið Dagur vonar sem frumsýnt var árið 1987?
3. Vestfjarðagöng tengja kaupstaðinn Ísafjörð við tvo firði fyrir vestan. Hvaða firðir eru það?
4. Skáldkonan Rósa Guðmundsdóttir (1795-1855) gekk bæði meðan hún lifði og síðan undir tveim viðurnefnum. Hver voru þau? Og já, þið þurfið að þekkja bæði.
5. Hvaða álfur gengur ljósum logum um leiksvið á Akureyri um þessar mundir?
6. Árið 1987 átti að slátra kúnni Hörpu fyrir vestan en hún stökk út í sjó og komst undan á sundi. Hún fékk þá að lifa og fékk í leiðinni nýtt nafn. Hvað var hún kölluð eftir þennan atburð?
7. Hvað hét fyrsti gervihnöttur Sovétríkjanna?
8. En fyrsti gervihnöttur Bandaríkjanna?
9. Frá hvaða landi kemur hið vinsæla súkkulaði Prins Póló?
10. Hvað heitir víðáttumikill flóinn út í Atlantshafið milli Frakklands og Spánar?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða eldfjall gýs á myndinni hér að neðan?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Náðarhögg — yfirleitt notað um síðasta höggið sem einhver aðframkominn fær og bindur í raun endi á þjáningar viðkomandi.
2. Birgir Sigurðsson.
3. Önundarfjörð og Súgandafjörð.
4. Vatnsenda-Rósa og Skáld-Rósa.
5. Benedikt búálfur. Samnefnt barnaleikrit er nú sýnt af Leikfélagi Akureyrar.
6. Sæunn.
7. Sputnik.
8. Explorer.
9. Póllandi.
10. Biscaya-flói.
***
Svör við aukaspurningum:
Irma Grese var fangavörður í fangabúðunum Ravensbrück, Auschwitz og Bergen-Belsen í síðari heimsstyrjöld. Myndin er tekin þegar hún var leidd fyrir rétt eftir stríðið. Hún var tekin af lífi fyrir margvíslega glæpi og ofbeldi gegn föngum. Ekki þarf að nefna réttar fangabúðir, en „þýskar fangabúðir“ verður að koma fram í svarinu.
Á neðri myndinni gýs Hekla. Þetta er mynd af gosinu 1947 en ekki er nauðsynlegt að ártalið fylgi.
***
Athugasemdir