Anton Kristinn Þórarinsson hefur nú verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn en hefur þó enn stöðu sakbornings og var því úrskurðaður í fjögurra vikna farbann.
„Hann er enn grunaður um eitthvað,“ segir Steinbergur Finnbogason, lögmaður Antons í samtali við Stundina og bætir því að alls tólf manns hafi réttarstöðu sakbornings í málinu.
„Rökstuddi grunurinn hefur eitthvað rýrnað,“ segir Steinbergur um það af hverju Antoni var sleppt úr haldi eftir að hafa setið yfirheyrslur af hálfu lögreglu seinnipartinn í gær. Anton hafði þá verið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur.
Eins og áður segir sætir Anton fjögurra vikna farbanni að beiðni lögreglunnar og má því ekki yfirgefa land á þeim tíma eða allt til 30. mars næstkomandi. „Það er nú ekki oft sem Íslendingar eru settir í farbann en til upplýsinga lagði lögreglan fram farbann og hann samþykkti það bara,“ segir Steinbergur.
Í gær var litháenskum manni einnig sleppt úr gæsluvarðhaldi og sömuleiðis úrskurðaður í farbann sem var þó styttra en farbann Antons eða átta dagar.
Athugasemdir