Öflugir jarðskjálftar finnast nú á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesinu. 43 skjálftar yfir 3 að stærð hafa fundist síðan í morgun og enn heldur hrinan áfram.
Fyrsti skjálftinn er staðfestur 5,7 að stærð, staðsettur 3,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili. Óttast er að enn stærri skjálfti sé ókominn.
Skjálftahrinan teygir sig til höfuðborgarsvæðisins. Þannig er einn þeirra, 3,6 að stærð á slaginu hálfellefu, samkvæmt frumniðurstöðum staðsettur 4,6 kílómetra aust-suðaustur af Straumsvík.
Vefur Veðurstofunnar liggur niðri með hléum. Samkvæmt vef Veðurstofunnar dreifast stórir skjálftar yfir Reykjanesið. Staðsetning þeirra er í kringum Keili og Fagradalsfjall, þar sem órói hefur verið undanfarin misseri.
Fregnir eru af því að myndir hafi dottið niður í Vesturbænum. Í Hlíðunum þótti íbúa sem bíll hefði keyrt á húsið. Skjálftarnir fundust vel á Seltjarnarnesi og í Hveragerði. Mest finna þó íbúar í Grindavík og nágrenni fyrir skjálftunum.
Enn annar jarðskjálfti reið yfir klukkan 10.16. Samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar voru þeir tveir með mínútu millibili, 3,5 á Richter.
Fyrstu tveir sjálftarnir eru metnir 4,5 og 4,7 að stærð klukkan 10.05 með fimmtán sekúndna millibili.
Klukkan 10.20 mældist skjálfti upp á 4,9, samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar. Annar kom mínútu síðar, 4,3 og enn annar 10.23, 4,6 að stærð. Enn halda skjálftarnir áfram og eru þeir samkvæmt frumniðurstöðum staðsettir í kringum Fagradalsfjall.
Athugasemdir