Þegar fyrst var greint frá vafasömu framferði manns sem rak vistheimili fyrir unglingsstúlkur í fjölmiðlum voru viðbrögðin afgerandi. Forstjóri Barnaverndarstofu lýsti afstöðu og maður var dreginn fyrir dóm. Ekki maðurinn sem fjallað var um, heldur blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina. Upplýsingarnar sem komu fram í fréttinni þóttu ekki ástæða til rannsóknar á aðstæðum barna á vistheimilinu en blaðamaðurinn hlaut dóm fyrir meiðyrði.
Afstaða forstjóra Barnaverndarstofu var líka sú að alvarlegar ásakanir á hendur manninum, persónulega og faglega, væri „ekkert sem við höfum áhyggjur af og lítum ekki alvarlegum augum“, Barnaverndarstofa bæri „fullt traust“ til meðferðarfulltrúans sem rak vistheimili, fyrst á Varpholti og síðar á Laugalandi fyrir unglinga á aldrinum 13 til 18 ára. Eftir sat ung stúlka furðu lostin sem segist hafa farið sérstaklega á fund forstjórans til að greina frá slæmri reynslu sinni af vistheimilinu. Fleiri höfðu farið með sömu sögu á fund umboðsmanns barna.
Eins og svo oft áður brást viðfangsefni umfjöllunarinnar, meðferðarfulltrúinn, við með því að skella sökinni á blóraböggul. Í þetta sinn var skotspónninn bróðir meðferðarfulltrúans, sem hafði gert viðvart.
Fjölskylduharmleikurinn
Nú er mál rekið fyrir dómstólum þar sem fyrrverandi utanríkisráðherra stefndi bæði fjölmiðlamanni og dóttur sinni fyrir dóm vegna meiðyrða, eftir að hún veitti viðtal þar sem hún lýsti slæmri reynslu af föður sínum. Í því tilviki var það dóttirin sem varð blóraböggull fjölskyldunnar. Þegar bréf föðurins til barnungrar frænku eiginkonu sinnar rötuðu í fjölmiðla var málsvörnin meðal annars sú að dóttirin væri svo geðveik. Aftur, þegar sjö konur sökuðu manninn um vafasama háttsemi, var svarið enn á ný að rót vandans mætti rekja til geðrænna erfiðleika dótturinnar. Talað er um fjölskylduharmleik.
Alveg eins og meðferðarfulltrúinn fyrrverandi talar um fjölskylduharmleik þegar hann reynir enn að rekja rót sinna vandamála til bróður síns, nú þegar sjö konur stigu fram í fjölmiðlum til að lýsa framferði hans sem forstöðumaður vistheimilis.
Blóraböggullinn
Til að afsala sér ábyrgð á eigin gjörðum getur verið gott að finna blóraböggul, einhvern til að skella skuldinni á. Vandinn er bara hversu ótrúverðugt það er að fjöldi fólks sé tilbúið til að leggja eigið orðspor, orku og líf að veði til að undirgangast ranghugmyndir eða illan ásetning annarrar manneskju. Líklegra er að sökudólginn sé að finna í spegilmyndinni, að þegar fólk lendir í vanda vegna fjölda frásagna af vafasamri háttsemi megi ástæðuna rekja til þess hvernig það hefur komið fram.
„Þegar fólk lendir í vanda vegna fjölda frásagna af vafasamri háttsemi megi ástæðuna rekja til þess hvernig það hefur komið fram“
Engu að síður er þetta aðferð sem er stöðugt verið að beita, að varpa ábyrgðinni frá sér og vísa á aðra, gera fólki upp annarlegan ásetning eða grafa undan trúverðugleika þess. Það er þekkt aðferð ofbeldismanna að stimpla konur geðveikar til að rýra trúverðugleika þeirra þegar og ef þær segja frá ofbeldinu. Það má vel vera að dóttir mannsins hafi verið, sé eða verði einhvern tímann veik á geði. Það gerir það ekki sjálfkrafa að verkum að hún sé ótrúverðug og geti ekki sagt sína sögu sjálf.
Geðhvarfasýkin
Geðhvarfasýki lýsir sér þannig að fólk veikist af tímabundnum geðhæðum og -lægðum, en einkennin hverfa um leið og jafnvægi er náð. Sem þýðir að þegar fólk með geðhvarfasýki er ekki í geðhæð er það jafn veruleikatengt og trúverðugt og hver annar. Fólk sem glímir við geðrænar áskoranir er ekkert hættulegra en annað fólk. Orðræða sem viðheldur fordómum og ýtir undir ranghugmyndir gagnvart veiku fólki er hins vegar meiðandi, skaðleg og ótrúverðug.
Svo er ágætt að hafa í huga að dæmi eru um að fólk hafi verið greint með geðsjúkdóm þegar það var í raun með áfallastreituröskun, jafnvel af völdum ofbeldis. Eins getur fólk hreinlega veikst á geði af völdum ofbeldis og þöggunar. Það getur farið illa með geðheilsuna þegar fólk upplifir misrétti, er ekki trúað og getur ekki sótt réttlæti. En það er tilhneiging til að samþykkja slíka orðræðu og jafnvel að stimpla fólk sem hefur átt erfitt uppdráttar annars flokks, og samþykkja um leið verri framkomu gagnvart því.
Afskiptaleysið
Þessi viðhorf endurspeglast í hverju málinu á fætur öðru. Fólk sem samfélagið lítur niður á fær ekki sömu aðstoð þegar á reynir.
Gleymum því aldrei þegar konan lá nakin í blóði sínu nær dauða en lífi í Vestmannaeyjum án þess að nokkur kæmi henni til aðstoðar eftir alvarlega líkamsárás, því lögreglan var upptekin.
Eða því þegar ung kona lést eftir að lögreglan elti hana uppi og sneri hana niður í handtöku eftir að hún veiktist af völdum vímuefna og kallað var eftir aðstoð læknis.
Eða hvernig lögreglunni láðist að rannsaka andlát ungrar stúlku sem lést eftir að tífaldur skammtur af MDMA fannst í líkama hennar. Í umfjöllun Kveiks var kærastinn hennar sagður hafa notið þess að byrla fólki ólyfjan, en aldrei var rannsakað hvernig dauða stúlkunnar bar að.
Ekki frekar en það var rannsakað hvort ung kona sem var myrt í Engihjalla hefði líka orðið fyrir kynferðisbroti, líkt og gögn benda til, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir móður hennar til að fá svör við því.
Fundurinn
Nú þegar fjöldi ungra kvenna hefur stigið fram og kvartað undan slæmri meðferð á vistheimili, er sláandi að skoða hver viðbrögðin voru á sínum tíma.
Allt frá árinu 2000 bárust ítrekaðar tilkynningar, bæði til umboðsmanns barna og eins barnaverndaryfirvalda, um ástandið á vistheimilinu. Ein þessara kvenna lýsir því hvernig hún, þá sautján ára gömul, safnaði kjarki og fann hugrekki til að fara sjálf á fund forstjóra Barnaverndarstofu til að lýsa fyrir honum reynslu sinni af vistheimilinu.
Henni var því brugðið að sjá forstjórann stíga seinna fram í fjölmiðlum til að lýsa fullu trausti til meðferðarfulltrúans, með þeim orðum að engar athugasemdir um hans störf hefðu borist Barnaverndarstofu. Ekki aðeins þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða hjá honum heldur líka í aðsendri grein frá honum, til varnar meðferðarheimilinu og Barnaverndarstofu sem fór með eftirlitshlutverk. Hún sem hafði setið hjá honum – og hinar sem höfðu leitað til umboðsmanns barna, auk fleiri ábendinga sem bárust. Hún segir að á fundinum hafi ekkert verið skrifað niður og ekkert gerst í kjölfarið. Heyrðist ekki í henni?
Spurningum blaðamanns svarar hann nú: „Ertu að halda því fram að ég hafi vanrækt að bregðast við, eða mín stofnun undir minni stjórn?“
Svari hver fyrir sig.
Tilnefningin
Seinna, þegar hann var enn starfandi forstjóri Barnaverndarstofu, beitti hann sér fyrir því að prestssonur fengi að umgangast dætur sem hann var grunaður um að misnota. Forstjórinn viðurkenndi síðar að hann hefði hvorkið vitað, né viljað vita, neitt um sekt eða sakleysi mannsins áður en hann beitti sér fyrir umgengninni, þvert á ráðleggingar barnaverndarnefndar, sem byggðu á leiðbeiningum frá lögmanni Barnaverndarstofu.
Seinna áttu formenn barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs eftir að funda með ráðherra til að kvarta undan afskiptum hans af barnaverndarmálum og slæmum samskiptum við barnaverndarnefndir. Hann var sendur í ársleyfi frá störfum og skipaður fulltrúi Íslands í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.
Viðhorfið
Kerfið hefur bjargað börnum og það hefur brugðist börnum.
Kerfið er fólkið sem starfar innan þess og lagaramminn í kringum það, byggt upp, mótað og rekið áfram af fólki sem gerir fleira gott en slæmt, en á meðan það gerir margt gott gerir það líka mistök. Enginn er óskeikull. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að vinna með svo viðkvæman málaflokk til lengri tíma án þess að það hafi áhrif á fólk. Þess vegna skiptir máli að undirliggjandi fordómar séu ekki innbyggðir í kerfið.
Eins og þegar það er vinnuregla neyðarlínunnar að senda lögreglu en ekki lækni á fólk í geðrofi og þarf á læknisaðstoð að halda. Eða þegar Barnaverndarstofa telur ekki hjá því komist að skjólstæðingar upplifi dvöl á meðferðarheimili með mismunandi hætti, þar sem um er að ræða „börn sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota. Mörg barnanna hafa búið við bágar uppeldisaðstæður og þau eru misviljug til þess að horfast í augu við og taka á vandamálunum í lífi sínu.“ Eins og börn sem hafa verið með hegðunarvanda, í vímuefnaneyslu eða búið við bágar aðstæður séu síður marktæk eða eigi frekar að undirgangast eða þola slæmar aðstæður en önnur börn.
Ofangreind tilvitnun er úr bréfi Barnaverndarstofu til umboðsmanns barna þar sem greint var frá niðurstöðum úttektar á vistheimilinu sem nú er óskað eftir rannsókn á. Ástæður stúlknanna fyrir dvölinni þar voru misjafnar. Systur sem nú segja sögu sína voru vistaðar þar eftir að fjölskyldan varð fyrir því áfalli að bróðir þeirra lést. Önnur átti erfitt uppdráttar eftir kynferðisbrot. Sú þriðja hafði reynt sjálfsvíg. Þetta voru ekki óalandi og óferjandi börn, þótt þær hafi átt erfitt.
Niðurlægingin
Úttektin fólst í því að sérfræðingur var sendur á vettvang til að ræða við börnin, inni á heimili þar sem þau segjast hafa búið við ógnarstjórn og óttast afleiðingar þess að segja sannleikann um dvölina þar. Ef fólk metur frásagnir ellefu kvenna trúverðugar var rík ástæða til að óttast afleiðingarnar.
„Við vorum tíkur, druslur, við yrðum ekkert, við vorum heimskar“
Í gögnum frá umboðsmanni barna er því lýst að stúlkurnar hafi daglega verið kallaðar ljótum nöfnum, druslur og hórur. Alveg eins og þær lýsa því nú, segjast hafa búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi, verið niðurlægðar og meiddar með margvíslegum hætti. „Við vorum tíkur, druslur, við yrðum ekkert, við vorum heimskar,“ rifjar ein upp. Önnur segir frá refsiaðgerðum vegna þess að hún fékk skilaboð frá strák. Margar segja frá því hvernig þær voru látnar undirgangast skoðun kvensjúkdómalæknis til að ganga úr skugga um að þær væru hvorki þungaðar né með kynsjúkdóm, án þess að hafa óskað eftir því sjálfar eða fá á því skýringar. Staðfest er í ársskýrslu að nær allar stúlkurnar hafi þurft að hitta heimilislækni og kvensjúkdómalækni. Ein greindi frá kynferðisbroti sem hún hafði orðið fyrir í ofbeldissambandi þar sem hún var gerð út fyrir fíkniefnum, en meðferðarfulltrúanum þótti saga hennar svo ótrúverðug að fólk sem lygi svona ætti bara að sitja inni, sagði hann, og hún neyddist til að biðja meðferðarfulltrúann, barnaverndaryfirvöld og foreldra sína afsökunar á frásögninni. „Ég lærði að gráta í þögn,“ segir hún sem situr nú uppi með sárin. Og tárin.
Samtímasögur
Sama ár og fyrstu frásagnir komu fram af aðstæðum stúlknanna var greint frá aðbúnaði drengjanna sem vistaðir voru á Breiðavík við skelfilegar aðstæður. Frásagnir af dvölinni á Breiðavík voru þess eðlis að árið 2009 baðst þáverandi forsætisráðherra afsökunar og lög voru sett um sanngirnisbætur. Fleiri frásagnir komu fram, frásagnir af fleiri vistheimilum, fleiri börnum sem bjuggu við ótta, ógn og ofbeldi í barnæsku, vistuðum á stofnunum á vegum ríkisins hér á árum áður.
Erfitt var að ímynda sér að slíkt gæti átt sér stað í dag, nú þegar tímarnir hafa breyst og vitneskjan aukist. En frásagnir þessara kvenna sem nú stíga fram eru samtímasögur, af vistheimili sem var rekið á árunum 1997 til 2007.
Hátt í þriðjungur barna sem voru vistuð á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000 til 2009 sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns heimilanna. Þrjátíu prósent þeirra sögðust ekki hafa greint frá ofbeldinu á meðan dvölinni stóð, væntanlega vegna þess að þau upplifðu sig valdalaus gagnvart aðstæðunum.
Svipað hlutfall, ríflega þriðjungur, sagði að dvölin hefði ekki gagnast þeim, 41 prósent barnanna hafði farið í vímuefnameðferð eftir að dvölinni lauk, 50 prósent höfðu leitað sér aðstoðar vegna tilfinningalegra eða geðrænna erfiðleika og 26 prósent setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi.
Viðurkenningin
Enn hefur ráðherra ekki svarað því hvort verða eigi við beiðni ellefu nafngreindra og fleiri ónafngreindra kvenna um að hefja rannsókn á aðstæðum þeirra á vistheimilinu. Eða hvernig tryggja eigi öryggi barna til framtíðar.
Nú hafa hátt í 1.200 einstaklingar sem dvöldu á ellefu mismunandi heimilum fengið samtals um þrjá milljarða í sanngirnisbætur. Að baki bótagreiðslunum lágu rannsóknir á meðferð og aðbúnaði barna á þessum heimilum. Sanngirnisbæturnar taka mið af því hversu grimmilegar aðstæður hver einstaklingur þurfti að þola og í engu tilfelli geta þessar bætur vegið upp á móti djúpstæðum sársaukanum sem harðræði og ofbeldið olli. Bæturnar eru hins vegar táknræn viðurkenning á því að ríkið brást þessum einstaklingum í barnæsku, oft með skelfilegum afleiðingum. Síðast voru til rannsóknar aðstæður barna í Landakotsskóla og á Kópavogshæli.
Fyrst kostnaður samfélagsins er nú orðinn þrír milljarðar í beinhörðum peningum vegna bóta, fyrir utan margfeldisáhrifin og kostnaðinn sem það hefur í för með sér að senda ungt fólk niðurbrotið og sundurtætt út í lífið, má færa rök fyrir því að það sé vel þess virði að tryggja fjármagn í gæðaeftirlit og uppbyggingarstarf fyrir börn og ungmenni í svo viðkvæmri stöðu.
Það hefur verið sagt margoft og verður gert hér enn á ný: Yfirvöld verða að horfast í augu við mistökin, læra af þeim og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fyrirbyggja að sömu sögur verði sagðar til framtíðar. Sagan má ekki endurtaka sig. Ekki aftur.
Athugasemdir