Hæglyndi og heimsfrægi nýklassíski tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds fylgdi plötu sinni some kind of peace ekki eftir með tónleikaferð, eins og fyrri plötum, heldur með tónlistarmynd. Kvikmyndin skartar Ólafi í aðalhlutverki og var tekin upp síðastliðið sumar. Hún verður frumsýnd 7. mars á netinu, en Ólafur situr fyrir svörum eftir sýninguna.
Platan some kind of peace er frábrugðin fyrri plötum Ólafs þar sem hann tjáir sig á persónulegri nótum en áður. „Í staðinn fyrir að setja fram „konsept“ eða stórar hugmyndir sem ég get falið mig á bak við, eins og ég hef áður gert, þá ákvað ég að reyna að tala um síðustu 2–3 árin mín,“ sagði hann í viðtali við Stundina síðastliðinn desember. „Ég byrja í sambandi, læri að lifa með annarri manneskju og reyni að vera opinn fyrir hlutum sem ég var áður lokaður fyrir.“
Handritið og hugmyndin að kvikmyndinni spratt upp úr áköfum viðtölum sem hinn franski Vincent Moon, leikstjóri myndarinnar, tók við Ólaf um nýju plötu hans. Þar sem viðfangsefni plötunnar er svo nátengt Ólafi var óhjákvæmilegt að hann færi með aðalhlutverk myndarinnar.
Hægt er að nálgast miða hér á frumsýninguna 7. mars kl. 19.00. Ekki er enn búið að tilkynna fleiri sýningar á When We Are Born, hvorki á netinu né í bíóhúsum landsins.
Athugasemdir