Því hefur verið haldið fram að opinber umræða hér á landi einkennist af kappræðum frekar en rökræðum. Lítið fari fyrir því að reynt sé í sameiningu að komast að réttri og sannri niðurstöðu í því sem er til umræðu. Í staðinn sé skipst á órökstuddum fullyrðingum og oft sé brugðist við gagnrýnni umræðu og spurningum með því að gera lítið úr persónu þess sem ber fram spurningarnar eða gagnrýnina, frekar en að ræða innihald gagnrýninnar og svara spurningunum.
Oft er vitnað til orða Halldórs Laxness úr Innansveitarkroniku þegar kvartað er undan íslenskri umræðuhefð: „Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.”
Mér varð hugsað til þessara orða Nóbelskáldsins þegar ég hlustaði á viðbrögð Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við grein þar sem ég og fjórir aðrir heimspekingar vörpuðum fram nokkrum siðferðilegum spurningum um bóluefnarannsókn Pfizer sem Kári og fleiri höfðu opinberlega lýst miklum væntingum til. Markmiðið með greininni var nokkuð augljóst: að hvetja til opinberrar umræðu um þessa mögulegu rannsókn. Óhætt er að segja að markmiðið hafi náðst. Um það leyti sem greinin birtist höfðu álíka spurningar reyndar vaknað hjá fleirum og eftir birtingu greinarinnar tóku ýmsir fjölmiðar efnið upp með tilvitnunum og viðtölum. Var því ljóst að það var góður umræðujarðvegur fyrir ýmsar þær spurningar sem við bárum fram.
Sama dag og greinin birtist kom svo í ljós að Pfizer sá ekki ástæðu til þess að fara í þessa rannsókn á Íslandi. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafði ásamt sóttvarnarlækni verið leiðandi í því að undirbúa rannsóknina, og brást við þessari niðurstöðu Pfizer í viðtali sem birtist á Vísi með því að furða sig á því að við – „fótboltalið heimspekinga“ eins og hann kallaði okkur fimmmenningana – færum í „heimspekilegar vangaveltur um kjaftasögu“. Sagði hann að þetta væri „einhvers konar met“ sem ætti skilið medalíu. Forstjórinn gerði hins vegar enga tilraun til að ræða þau álitaefni sem við vekjum máls á í greininni.
Það er út af fyrir sig ánægjuefni að forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar skuli bregðast við þessum greinarskrifum og vekja þannig athygli á efninu. En það er dapurlegt að opinber umræða á Íslandi sé á þessu plani og að svona lítið hafi gerst í umræðuhefð hér á landi frá því Laxness lét orð sín falla fyrir hálfri öld.
Í vandaðri opinberri umræðu er gerð sú krafa að fólk rökstyðji mál sitt. Á betri fjölmiðlum víða erlendis er þeirri reglu gjarnan fylgt að birta ekki gagnrýnislaust órökstuddar staðhæfingar valdamanna. Reynt er að fá þá til að færa rök fyrir fullyrðingum sínum, en ef það ekki tekst er annaðhvort fullyrðing ekki birt eða birt með fyrirvara um að hún sé óstaðfest eða jafnvel ósönn (eins og margir fjölmiðlar gerðu reglulega í umfjöllunum um ummæli Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna). Í ofangreindu viðtali við forstjóra ÍE hefði til dæmis mátt biðja hann um að útskýra hvers vegna spurningar okkar ættu ekki rétt á sér.
Eflaust myndi mörgum Íslendingum ofbjóða þessi stranga „ritskoðun“ sem stunduð er á vönduðum fjölmiðlum víða um heim. En sannleikurinn er auðvitað sá að fjölmiðlar birta ekki hvaða fullyrðingar sem er. Jafnvel þótt við búum við málfrelsi, og megum því segja hvað sem er, þá þýðir það ekki að allt sem valdamenn segja eigi að rata gagnrýnislaust í fjölmiðla.
Tveimur dögum eftir áðurnefnt viðtal við forstjóra ÍE var svo upplýsingafundur Almannavarna þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ákvað að svara „gagnrýnisröddum“ um bólusetningarrannsóknina sem þá lá fyrir að ekki yrði af. Ljóst var af svörum hans að raddir þessar voru að miklu leyti okkar fimmmenninganna. En grein okkar var reyndar röð spurninga, ekki gagnrýni. Það er annað hvimleitt einkenni opinberrar umræðu hérlendis að í stað þess að tilraunum til samræðu sé fagnað, þá er litið á spurningar sem gagnrýni og brugðist við með því að setja sig í stellingar fyrir kappræðu.
Á yfirborðinu voru viðbrögð sóttvarnalæknisins mjög ólík viðbrögðum forstjórans. Fyrir þann sem ekki lagði sérstaklega vel við hlustir virtist meira að segja sem Þórólfur væri raunverulega að svara spurningum okkar. Þegar betur var að gáð varð hins vegar ljóst að „svör“ sóttvarnalæknisins voru einungis fágaðri birtingarmynd – og reyndar mjög fágaðar birtingarmyndir í samanburði við ummæli forstjóra ÍE – á þeim göllum á íslenskri umræðuhefð að í stað rökræðna er skipst á fullyrðingum og eðlilegum spurningum til valdamanna er ekki svarað. Nægir að nefna tvö dæmi um þetta í málflutningi Þórólfs.
Meðal þess sem við heimspekingarnir nefndum í grein okkar var að ekki hafi verið gefin skýr svör við því í hverju væntanlegt gagn rannsóknarinnar fælist fyrir landsmenn og aðrar þjóðir. Þessu svaraði Þórólfur með því að fullyrða: „Þetta er bara ekki rétt gagnrýni því að við höfum margoft lýst því hvaða gagnsemi við myndum geta fengið af svona rannsókn bæði fyrir okkur og aðrar þjóðir.“ Engin tilraun var sem sagt gerð til að svara spurningunni – né vísaði Þórólfur nánar til þess hvar hægt væri að finna lýsingar hans á þessari gagnsemi. Og reyndar virðist það hversu lítið væntanlegt gagn er af rannsókn af þessu tagi á Íslandi einmitt hafa verið ein aðalástæða þess að Pfizer vildi ekki fara af stað í þessa vegferð.
Önnur spurning í grein okkar var hvort bólusetning sem þessi kæmi ekki að meira gagni – myndi ekki bjarga fleiri mannslífum – í löndum þar sem heilbrigðiskerfi standa höllum fæti. Því svaraði Þórólfur með því að segja að „gagnsemi rannsóknar snýst ekki um hvar hún er gerð heldur hvort innviðir í landinu séu undir það búnir að svara þeim rannsóknarspurningum sem settar eru fram“. Aftur svarar Þórólfur sem sagt ekki spurningu okkar. Það að „innviðir í landinu séu undir það búnir að svara þeim rannsóknarspurningum sem settar eru fram“ er auðvitað mikilvægt fyrir gagnsemi rannsóknarinnar sem rannsóknar. Þessi spurning okkar snérist hins vegar um gagnsemi bólusetningar fyrir þátttakendur, til dæmis hvar hún muni bjarga flestum mannslífum.
„Og hvaða máli skiptir það þótt rúmfrekir menn á borð við forstjóra ÍE fái að vaða uppi með órökstuddar fullyrðingar í þjóðfélagsumræðunni?“
En nú má spyrja: Hver er eiginlega tilgangurinn með vandaðri opinberri umræðu? Og hvaða máli skiptir það þótt rúmfrekir menn á borð við forstjóra ÍE fái að vaða uppi með órökstuddar fullyrðingar í þjóðfélagsumræðunni?
Því er til að svara að í fyrsta lagi hefur vönduð opinber umræða, sér í lagi um mál sem varða þjóðarhag, gildi í sjálfu sér. Raunverulegt lýðræði snýst ekki einungis um að borgarar fái tækifæri á nokkurra ára fresti til að kjósa sér fulltrúa, heldur einnig – og ekki síður – um að vönduð opinber umræða fari fram um þau álitaefni sem upp koma á milli kosninga, og auðvitað að mið sé tekið af slíkri umræðu þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Að því marki sem okkur finnst gildi í því að hér sé raunverulegt lýðræði er því gildi í því að hér sé vönduð opinber umræða.
Vönduð opinber umræða hefur einnig mikið nytjagildi. Páll Skúlason, fyrrum heimspekiprófessor og háskólarektor, færði fyrir því sannfærandi rök að gagnrýnin hugsun, og umræða þar sem fólk er krafið raka og ástæðna fyrir staðhæfingum sínum, sé forsenda framfara á öllum sviðum, hvort sem um er að ræða menningu, viðskipti, eða vísindi.
Á síðari árum hafa nytjarnar af vandaðri opinberri umræðu, og kostnaðurinn af óvandaðri umræðu, orðið að umtalsefni í sambandi við efnahagshrunið 2008. Eins og flestir eflaust muna var gagnrýnum spurningum erlendra sérfræðinga um stöðu íslensku bankanna rétt fyrir hrun í einhverjum tilvikum vísað á bug með skætingi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er þetta nefnt sem ein af ástæðum þess að svo fór sem fór. Hið sama má auðvitað segja um heilbrigðismál, og reyndar öll mál sem varða almannahag. Vönduð opinber umræða nú getur komið í veg fyrir mikinn vanda síðar.
Að lokum: Í ljósi þess sem hér er sagt hefði það ef til vill ekki átt að koma á óvart að spurningum okkar væri svarað með skætingi eða að farið yrði undan í flæmingi. Viðbrögð forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar voru svo sem viðbúin í ljósi þekktrar framkomu hans, sem ýmsir fjölmiðlar hafa stundum hampað. Það verður hins vegar að gera þá kröfu til valdamikilla aðila að þeir vandi sig í opinberri umræðu og svari eðlilegum spurningum sem settar eru fram. Í því efni skiptir miklu að fjölmiðlar sætti sig ekki við órökstuddar fullyrðingar.
Höfundur er dósent í hagnýtri heimspeki við Stokkhólmsháskóla.
Athugasemdir