Björgólfur Jóhannsson lætur af störfum sem forstjóri Samherja, en hann hefur gegnt því starfi frá nóvember 2019 þegar Stundin, Kveikur, Al Jazeera og Wikileaks fjölluðu um Samherjaskjölin og mútugreiðslur fyrirtækisins til að komast yfir hestamakrílskvóta í Namibíu. Þorsteinn Már Baldvinsson verður á ný eini forstjóri fyrirtækisins.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja. Þorsteinn Már vék í nóvember 2019, en varð aftur forstjóri við hlið Björgólfs frá mars 2020. „Þær ásakanir sem hafðar hafa verið uppi á hendur Samherja eru nú komnar í farveg fyrir dómstólum,“ segir í tilkynningu á vef Samherja. „Þar gefst loks tækifæri til hreinsa nöfn þeirra sem ranglega eru sakaðir, ekki með brotakenndum frásögnum í fjölmiðlum, heldur með kerfisbundnum, réttum og lögmætum hætti. Þannig hefur norski saksóknarinn nú komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir um peningaþvætti eigi ekki við rök að styðjast og ekkert refsivert hafi átt sér stað í viðskiptum DNB bankans og Samherja og ákveðið að fella málið niður.“
„Þar gefst loks tækifæri til hreinsa nöfn þeirra sem ranglega eru sakaðir“
Þrír íslenskir starfsmenn Samherja sæta nú ákæru í Namibíu vegna málsins auk sjö Namibíumanna, en þar á meðal er Bernhard Esau, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins. Tilkynnt var í dag um að norski bankinn DNB verði ekki ákærður af saksóknara þar í landi vegna meintra brota fyrirtækisins tengdum málinu í Namibíu.
Björgólfur hefur verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja, að því segir í tilkynningunni sem Eiríkur S. Jóhannsson stjórnarformaður Samherja skrifar undir. Mun hann stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.
Athugasemdir