Orðalag sem gaf til kynna stefnubreytingu varðandi samband þjóðaréttar og landsréttar í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til stjórnarskrárbreytinga kom til vegna breytinga í skjalalestri Alþingis. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar.
Stundin fjallaði nýlega um að orðalagið í þessari grein frumvarpsins gæfi í skyn að alþjóðlegar skuldbindingar færu framar íslenskum lögum. Að mati Bjarna Más Magnússonar, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, myndi það marka tímamót, enda hafi því almennt verið öfugt farið. Ný uppprentun á vef Alþingis, merkt sem leiðrétting, breytti greininni svo til baka í það sem kynnt hafði verið í frumvarpsdrögum síðasta sumar.
Forsætisráðuneytið segir breytingarnar hafa gerst í skjalalestri á vegum Alþingis. „Þegar frumvarpið var birt í samráðsgátt og sent Alþingi til yfirlestrar hljóðaði 9. gr. þess svo: „2. mgr. 16. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir, þar á meðal þjóðréttarsamninga sem horfa til breytinga á landslögum eða eru af öðrum ástæðum mikilvægir, skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. Við skjalalestur á vegum Alþingis breyttist orðalagið „sem horfa til breytinga á landslögum“ í „sem valda breytingum á landslögum“. Við lokaskil frumvarpsins láðist að bera breytinguna undir forsætisráðherra, flutningsmann frumvarpsins, og því var þingið beðið um uppprentun til að færa orðalagið til fyrra horfs,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar.
Í svarinu kemur einnig fram að forsætisráðherra telji ekki að frumvarp hennar mundi breyta neinu um samband þjóðaréttar og landsréttar, yrði það samþykkt.
Athugasemdir